Búist við afgangi af rekstri Hafnarfjarðarkaupstaðar

Fasteignaskatthlutfall lækkar en fasteignamat hækkar

Frá uppbyggingu við Hamranes

Tillaga að fjárhagsáætlun var lögð fram í bæjarstjórn í dag sem kynnti hana í grófum dráttum og sagði að nánar væri farið í málaflokka við síðari umræðu eftir mánuð.

Óvenjumikil umræða var um áætlunina ef miðað er við fyrri ár en það er þó ekki óeðlilegt en skv. lögum skulu tvær umræður vera um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn. Lagði fulltrúi Miðflokksins fram ýmsar tillögur sem og fulltrúar Samfylkingarinnar og Bæjarlista.

Gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir 106 milljón kr. rekstrarafgangi A-hluta sveitarsjóðs og 736 milljón kr. rekstrarafgangi fyrirtækja bæjarins, B-hluta sveitarsjóðs. Þar munar mestu um 457 milljón kr. hagnað Fráveitu en tekjur fráveitunnar voru þó aðeins 897 milljónir kr. Vatnsveitan skilaði einnig miklum hagnaði eða 180 milljónum kr. af 429 millj. kr. tekjum.

Skuldahlutfall sveitarfélagsins verður 138% ef áætlanir ganga eftir og skuldaviðmið 97%. Skuldahlutfall eru heildarskuldir sem hlutfall af reglulegum heildartekjum en við útreikning skuldaviðmiðs hafa leiguskuldbindingar frá ríkissjóði verið teknar út, sömuleiðis lífeyrisskuldbindingar, veltufjármunir frá heildarskuldum og skuldbindingum og fyrirframgreiðslur vegna uppgjörs A deildar Brúar lífeyrissjóðs.

Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri, sem er sá mælikvarði sem á að sýna getu til að standa við skuldbindingar utan rekstrar, verði 886 milljónir kr. sem hefur farið lækkandi undanfarin ár en sambærileg tala fyrir 2019 var 3.396 millj. kr. Veltuféð kemur í raun allt frá B-hluta fyrirtækjum því veltufé frá rekstri A-hluta verður neikvætt um 374 millj. skv. áætluninni.

Skatttekjur

Gert er ráð fyrir 19,8 milljarða kr. skatttekjum þar sem fasteignaskattar (sem reyndar eru ranglega nefndir fasteignagjöld í framlagðri tillögu) er um 4,3 milljarðar kr. og útsvarið því um 15,5 milljarðar kr. en útsvarshlutfallið verður óbreytt, 14,48% sem er örlítið undir hámarksútsvari sem er 14,52%. Verða útsvarstekjurnar því 9,3% hærri en fjárhagsáætlun 2021 gerði ráð fyrir. Reyndar er gert ráð fyrir að heildarútsvarstekjur verði enn hærri eða 22,1 milljarður kr. en 2,6 milljarðar ganga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Áætlað er þó að Hafnarfjarðarbær fái 3,2 milljarða kr. til baka frá Jöfnunarsjóði.

Fasteignaskatthlutfall íbúða lækkar

Fasteignamat eigna í Hafnarfirði hækkar um 9% á milli ára og þar af er hækkun á íbúðarhúsnæði um 9,1%. Á móti mun álagningarprósentan verða lækkuð um 4,7% eða úr 0,258% í 0,246%.

Önnur gjöld verða með óbreyttri prósentu og mun vatnsgjald, holræsagjald og lóðarleiga hækka um 9%.

Fasteignaskattar atvinnuhúsnæðis óbreyttur

Fasteignaskattar verða áfram 1,4% og hækka fasteignaskattar því almennt um 6,3% vegna hækkunar fasteignamats. Gert er ráð fyrir að hlutfall holræsagjalds lækki úr 0,167% í 0,116% eða um tæp 70% sem gerir um 8 þús. kr. lækkun á 20 millj. kr. eign. Vatnsgjald lækkar einnig úr 0,09% í 0,052% en taka verður með í reikninginn að mikill hagnaður hefur verið af rekstri vatnsveitu og fráveitu.

Fjölgar um 31 stöðugildi

Alls er gert ráð fyrir að 531 starfsmaður vinni hjá Hafnarfjarðarbæ á næsta ári í 283 stöðugildum sem fjölgi um 31 frá fyrra ári. Enda er gert ráð fyrir að launakostnaður verði stærsti útgjaldaliðurinn, 18,2 milljarðar kr. eða um helmingur af heildartekjum sveitarfélagsins.

Afborganir lána hærri en nýjar lántökur

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að undanfarin misseri hafi verið lögð áhersla á að lágmarka áhrif Covid-19 faraldursins á íbúa Hafnarfjarðar og hindra að efnahagsáfallið leggi klafa á bæjarfélagið til frambúðar. Samtímis hafi verið unnið að uppbyggingu innviða og nýrra hverfa sem leiða munu til verulegrar fjölgunar íbúa á komandi árum. Hafnarfjarðarbær, eins og önnur sveitarfélög, sjá fram á áframhaldandi hækkun kjarasamningsbundinna launa og ört vaxandi útgjöld vegna félagslegrar þjónustu sem vegur æ þyngra í rekstri bæjarins. Stefnt sé að því að afborganir eldri lána verði umfram nýjar lántökur í A-hluta og að skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar verði komið niður í 97% í árslok 2022 og hefur það ekki verið lægra í áratugi.

Reikna með umtalsverðri fólksfjölgun

„Fjárhagsáætlun næsta árs ber með sér að aðhald í rekstri og varnarviðbrögð bæjaryfirvalda við efnahagslegum áhrifum Covid-faraldursins hafa skilað árangri. Áhersla hefur verið lögð á að verja hagsmuni íbúa án þess að skuldsetja bæjarfélagið, en bæjarsjóður Hafnarfjarðar tók engin lán á yfirstandandi fjárhagsári,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri.

„Framundan er mikil uppbygging í nýjum hverfum og þéttingarreitum. Reikna má með umtalsverðri íbúafjölgun í Hafnarfirði á næstu árum. Við stefnum að því að fjárfesta fyrir rúmlega 5 milljarða króna á árinu 2022, en eins og hjá öðrum sveitarfélögum hefur aukinn launakostnaður haft mikil áhrif á rekstur bæjarins. Þrátt fyrir það er áætlað að skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar fari undir 100% fyrir lok ársins 2022 og markar það tímamót í rekstri bæjarins.“

 

 

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here