Börn björguðu drukknum veiði­manni við Óseyrarbryggju

Krakkarnir við Flensborgarhöfn þar sem þau sigla reglulega. Maðurinn féll niður framan við Hólmasól, rauða skipið

Fjórir 11 og 13 ára krakkar úr Siglinga­klúbbnum Þyt sýndu yfirvegun og útsjónarsemi á laugardagsmorgunn er þau sáu að maður, sem hafði verið við veiðar á Óseyrarbryggju, steig út af henni og féll niður. Náði hann í fallinu að grípa í landfestar Hólmasólar sem þar liggur og hékk hann þar. Maðurinn hafði ekki þrótt til að ná sér upp á bryggju og mikla líkur á að hann félli í sjóinn. Hann var í gallabuxum og í dúnúlpu og ekki víst hvernig hefði farið hefði hann fallið ofan í án þess að neinn sæi til.

Tara Ósk Markúsdóttir, Magnús Bjarki Jónsson, Elís Hugi Dagsson og Snorri Pétur Jökulsson sem öll komu að björgun mannsins upp á eigin spýtur.
Tara Ósk Markúsdóttir, Magnús Bjarki Jónsson, Elís Hugi Dagsson og Snorri Pétur Jökulsson sem öll komu að björgun mannsins upp á eigin spýtur.
Hér féll maðurinn niður
Hér féll maðurinn niður

Krakkarnir Snorri Pétur Jökulsson, Tara Ósk Markúsdóttir, Elís Hugi Dagsson og Magnús Bjarki Jónsson skiptu með sér verkum. Voru þau á kajökum og sigldu tvö þeirra, Snorri Pétur og Tara Ósk, inn undir manninn og náðu að fá hann til að síga niður á bátana. Sögðu þau að litlu hefði munað að hann velti bátunum en lá svo þvert yfir bátana. Elís sigldi og sótti hjálp í Þyt og var komið á þjónustubát og maðurinn tekinn um borð í hann og færður í land. Magnús tók saman eigur mannsins á bryggjunni en vinir mannsins sem er útlendur óku honum heim.

Hafði maðurinn blotnað eitthvað en féll þó aldrei alveg í sjóinn, þökk sér krökkunum og snöggri hugsun þeirra.

Sögðu þau í samtali við Fjarðarfréttir að hann hafi verið mjög drukkinn og erfitt hafi verið að fá hann niður á bátana. Þau eru öll búin til að geta fallið í sjóinn en núna er samt farið að kólna og það er kalt að fara í sjóinn, jafnvel í blautgalla.

Fréttin er birt í Fjarðarfréttum, fréttablaði Hafnarfjarðar.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here