Blindur sundkappi lauk lokaprófi í píanóleik

Guðfinnur Vilhelm Karlsson stefnir á að keppa á HM í sundi í sumar og ljúka fiðlunámi fyrir áramót!

Guðfinnur Vilhelm Karlsson við flygilinn í Hafnarborg. - Ljósm.: © Guðni Gíslason.

Guðfinnur Vilhelm Karlsson, 33 ára gamall Hafnfirðingur hélt burtfarartónleika á píanó sl. mánudag í Hafnarborg. Tók hann framhaldspróf í píanóleik frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar 16. mars síðastliðinn.

Guðfinnur kynnti verkin sem hann flutti á milli laga. – Ljósm.: © Guðni Gíslason.

Heillaði hann áheyrendur með leik sínum þar sem hann lék Prelúdíu í F dúr eftir Johann Sebastian Bach, Impromtu nr. 2 i Es dúr eftir Franz Schubert og Sónötu nr. 9 eftir Ludwig van Beethoven sem er stórt og mikið verk. Þá lék hann Vikivaka eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og tónleikunum lauk með laginu The Flight of the Bumblebee eftir Nikolai Rimsky-Korsakov.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir píanókennari, Guðfinnur Vilhelm Karlsson og Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir sem kenndi Guðfinni á blokkflautu í upphafi tónlistarnáms hans. – Ljósm.: © Guðni Gíslason.

Guðfinnur hefur verið blindur frá fæðingu en hefur stundað nám í hljóðfæraleik frá barnæsku. Hann hóf hljóðfæranámið á blokkflautu eins og svo margir krakkar en hefur einnig lært á fiðlu og stefnir á að ljúka burtfararprófi á fiðlu um næstu jól.

En Guðfinnur er ekki einhamur og er einnig keppnismaður í sundi og náði m.a. A lágmarki fyrir HM í flokki blindra og mun vonandi keppa þar í júní. Guðfinnur hóf sundæfingar með íþróttafélaginu Firði aðeins sex ára gamall.

Ummæli

Ummæli