Bæjarstjórn samþykkti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2

Háspennulína í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti sl. miðvikudag í annað sinn framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem liggja á frá Hamranesi í Hafnarfirði og að Rauðamel í Grindavík.

Fyrra framkvæmdaleyfi var fellt úr gildi og Landsneti var gert að meta umhverfisáhrif lagningu línunnar og skoða áhrif mismunandi valkosta. Hefur verið mikill þrýstingur á að línan yrði lögð í jörðu meðfram Reykjanesbrautinni og mælti Skipulagsstofnun sérstaklega með þeim kosti.

6.900 m² þegar raskað

Landsnet hóf samstundis framkvæmdir við línuveg er fyrra framkvæmdaleyfi hófst og er þegar búið að raska 6.900 m² af ósnortnu hrauni í landi Hafnarfjarðar með línuvegi, vegstubbum að línustæðum og línustæðum.

Hér má sjá línuveginn sem þegar er kominn í óraskað hraunið í Almenningi.

Loftlína samrýmist hugmyndum í greinagerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar

„Skipulags- og byggingarráð tekur vissulega undir undir þá niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar að margt mæli með því að frekar yrði lagður jarðstrengur alla leið og er þá þá sérstaklega vísað til valkostar B meðfram Reykjanesbraut. Það er þó mat sveitarfélagsins að valkostur C samræmist vel þeim hugmyndum í greinagerð Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 er varðar legu og breytingar á rafveitukerfi Landsnet innan marka sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að heildarrask innan sveitarfélagsins vegna framkvæmdanna verði 0,69 ha. Hér skal tekið fram að framkvæmdir höfðu áður verið hafnar en stöðvaðar þegar framkvæmdaleyfi var ógilt, en þá hafði þegar verið búið að raska hluta svæðis, gera mastraplön og leggja línuslóða.“

Í kynningu á Suðurnesjalínu 2 þar sem línan fer um Hafnarfjörð eru merktar inn gönguleiðir á svæðinu og má sjá þær á kortinu sem hvítar punktalínu og eru þær fáar. Hér hefur hins vegar verið bætt inn gömlum þjóðleiðum á svæðinu sem eru mikið gengnar og eru þær merktar með rauðum punktalínum. Sjá má að línan fer víða yfir þessar leiðir og nálægt fornminjum.

Skipulags- og byggingarráð lagði til við bæjarstjórn að umsókn Landsnets hf. vegna Suðurnesjalínu 2 yrði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs og bókaði jafnframt til viðbótar að framkvæmdalýsing í umsókn Landsnets væri í fullu samræmi við framkvæmdir í matsskýrslu Suðurnesjalínu 2. Auk þess komi fram í matsskýrslu að framkvæmdir koma ekki til með að raska friðlýstum fornleifum í Hafnarfirði.

Samþykkti bæjarstjórn fyrirliggjandi umsókn Landsnets hf. vegna Suðurnesjalínu 2 með þeim skilmálum að fylgt verði eftir þeim mótvægisaðgerðum og vöktun sem kemur fram í umsókn Landsnets til að tryggja að dregið verði sem kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Tengivirki í Hrauntungum ekki með í umhverfismati

Í bókun bæjarfulltrúanna Öddu Maríu Jóhannsdóttur og Friðþjófs Helga Karlssonar segir að af gögnum málsins sé ljóst að margt mælir frekar með því að leggja jarðstreng meðfram Reykjanesbraut, einkum sjónarmið er lúta að áhrifum á landslag og ásýnd. Á móti komi sjónarmið um hættu vegna jarðvár og frekari röskun á hrauni við lagningu jarðstrengs.

Þá vegi það þungt að Umhverfisstofnun telji í sinni umsögn að lagning jarðstrengs sé slæmur kostur vegna neikvæðra áhrifa á jarðmyndanir sem njóti sérstakrar verndar. Stofnunin telji minnstu varanlegu umhverfisáhrifin (önnur en sjónræn) felast í loftlínu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar taka hins vegar undir þær athugasemdir sem fram koma í umsögn Umhverfisstofnunar að eðlilegt hefði verið að meta umhverfisáhrif línanna og jarðstrengja ásamt byggingu og rekstri tengivirkis í Hrauntungum samhliða þessari framkvæmd og horfa þannig heildstætt á verkefnið til framtíðar.

Í framtíðinni er reiknað með nýju tengivirki í Hrauntungum, vestan við rallýcrossbrautin, en þar til það rís verður tenging við línuna frá Hamranesi.

Ummæli

Ummæli