fbpx
Miðvikudagur, febrúar 28, 2024
HeimFréttirAtvinnulífVeitingastaðurinn Ban Kúnn fagnar 10 ára afmæli

Veitingastaðurinn Ban Kúnn fagnar 10 ára afmæli

Svavar Gunnar Jónsson, segir frá aðdraganda að stofnun staðarins

„Það sem setti skriðuna af stað var að árið 2011  var haldin hátíð á 17. júní í götunni okkar Natthawat, Austurgötu,“ segir Svavar Gunnar Jónsson í veitingastaðnum Ban Kúnn á Tjarnarvöllum 15 en fyrirtækið fagnar 10 ára afmæli núna.

Íbúar tóku þá sig saman um að gera daginn skemmtilegan fyrir gesti og gangandi. Boðið var upp á ýmislegt til afþreyingar, íbúar höfðu hús sín til sýnis, aðrir tóku til í geymslum og höfðu flóamarkað og þá fannst Natthawat upplagt að eld tælenskan mat og selja.

Allt var klárt snemma morguns þjóðhátíðardaginn en þá eins og svo oft áður byrjaði að rigna. Nú voru góð ráð dýr, stutt var í að skrúðgangan ætti að fara um götuna. Búið var að kaupa töluvert af hráefni og hvað skyldi gera ef ekkert væri hægt að elda. „Ég spurði Natthawat hvað hann ætlaði að gera við allan þennan mat ef ekkert seldist? Ekki stóð á svarinu; „þú bara borðar það þá“. Þetta fór á annan veg, margar ferðir farnar út í búð að kaupa meira en svo varð að hætta þegar allt sérkrydd var búið,“ segir Svavar um þessa fyrstu götuhátíð.

„Þá má segja að fyrsta skjólið utan um veitingasöluna okkar hafi verið reist, tjöld sem síðan hafa verið aðstaða veitingasölunnar á Austurgötuhátíðunum. Árið eftir kom svo fólk sem sagðist vera búið að bíða í spenningi eftir að sjá hvort við værum aftur með matarsölu á hátíðinni svo það geti fengið sér bestu núðlur sem það hafi smakkað.“

Svavar og Natthawat. – Lósmynd: Guðni Gíslason

Veitingastaður opnaður

„Af alvöru var svo farið að huga að opnum veitingastaðar árið 2013. Húsnæði tekið á leigu, þar sem margt þurfti að gera til að það væri nothæft til veitingareksturs. Vinir og vandamenn voru óþreytandi við að aðstoða okkur við það verk.“ Þeir Svavar og Natthawat Voramool opnuðu svo staðinn föstudaginn 31. janúar 2014.

Nokkur umræða hafið verið á íbúasíðu Vallahverfis á Facebook og ljóst að fólk beið í spenningi eftir að staðurinn opnaði. Enda lét það ekki standa á sér eftir opnum.

„Við höfðum ákveðið að auglýsa það ekkert eða hafa eitthvað um að vera við opnunina, bara opna  og sjá svo til hvort einhver kæmi,“ segir Svavar.

Forsetinn mættur

„Laust upp úr ellefu kemur inn par og þau boðin velkomin. Konan segir „forsetinn er mættur“.  Ég verð mjög undrandi og lít í kringum mig en sé alls ekki forsetann,  sem ég taldi vera Ólaf Ragnar Grímsson þáverandi forseta Íslands.

Parið pantar sér mat og sest. Heyrði ég þá manninn ávarpa konuna með nafni og fatta um leið hvað hún hafði átt við með að forsetinn væri mættur!  Þarna var þá komin Margrét Gauja Magnúsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Við Margrét Gauja höfum síðan rætt þessa heimsókn hennar og hlegið dátt að. Hún sagðist hafa póstað á Facebook að við værum búnir að opna og að henni hefði líkað maturinn mjög vel. Enda eins og við manninn mælt skömmu síðar fór fólk að streyma að.  Það má segja að það hafi verið örtröð hjá okkur alla þessa fyrstu helgi. Allt að því að við ekkert væri ráðið. En þá eins og áður komu ættingjar og vinir til aðstoðar og allt fór vel.

Frá opnunardeginum, þeir voru meðal fyrstu gestanna. – Lósmynd: Guðni Gíslason

Þegar dagar liðu og við sáum sama fólkið koma aftur og aftur vissum við að allt væri á réttri leið. Stöðug fjölgum viðskiptavina, stórir og smáir hópar. Við höfum fengið heilu boltaliðin í mat og þá er gaman því vel er tekið til matar. Töluvert hefur verið um að ferðaskrifstofur hafi komið með gesti til okkar. Þó nokkuð samstarf hefur verið við ferðaskrifstofu í Tælandi sem er með fjölda þarlendra ferðamanna hér á landi á hverju ári. Fyrir þessa hópa þarf yfirleitt að bera fram 6-7 rétti. Þarna er fólk sem veit og þekkir hvernig tælenskur matur á að vera og ávallt fara allir mjög ánægðir frá borðum.“

Er allur tælenskur matur eins?

„Segja má að sá tælenski matur sem landinn þekkir sé orðinn nokkuð alþjóðlegur. Nokkuð misjafnt er eftir veitingahúsum hvaða hráefni td. grænmeti er notað að undanskildum grunn kryddum í réttina. Við höfum farið þá leið að hafa alla rétti „upprunalega“ þ.e. ekki setja annað grænmeti en það sem notað er í Tælandi í þá. Frosið grænmeti er til dæmis aldrei notað hjá okkur, ef ekki fæst ferskt grænmeti í réttinn er hann bara ekki í boði.

Í eldhúsinu starfa aðeins tælenskir matreiðslumenn undir stjórn Natthawats. Hans fjölskylda hefur í gegnum tíðina fengist meira og minna við matreiðslu og veitingasölu. Sjálfur lærði hann matreiðslu hjá systur sinni sem á þeim tíma rak stóran veitingastað í Bangkok. Þar vann hann og lærði jafnframt því að vera í háskóla að læra viðskiptafræði og til kennara.

Matreiðslufólkið okkar getur töfrað fram ótrúlegustu rétti og skemmtilegast er hjá þeim þegar koma kúnnar sem eru að leita uppi einhverja rétti sem þeir hafa áður smakkað ef til vill á ferð um Tæland. Minningin segir að rétturinn hafi verið svona og svona en hvað hann kallast er alveg gleymt. Málið borið undir einhvern úr eldhúsinu og þá heyrist gjarnan „Aaaa umm, ok“ svo kemur nafnið á réttinum og hann eldaður.“

Isankvöld

„Við höfum verið með sérstakt Isan-kvöld þar sem boðið var eingöngu upp á mat frá því landsvæði. Isan kallast svæðið sem samanstendur af norðaustur héruðum Tælands. Á því svæði má segja að matarhefðir séu allt aðra en almennt þekkist með tælenskan mat.

Við getum alveg með sanni fullyrt að hjá okkur sé hægt að fá flest alla tælenska rétti, líklega eina sem getur komið í veg fyrir það er að stundum er erfitt að fá rétt grænmeti þó við búum við mjög góða kosti í þeim efnum. Aðal birginn okkar sem er Fiska.is stendur sig afar vel og á yfirleitt það sem þarf.

Réttirnir eru misvinsælir en okkar aðalréttur og stolt er PadThai. Stofninn er hrísnúðlur, grænmeti, hnetur og svo sósa sem er algerlega okkar, uppskrift frá langömmu Natthawats. Það hafa komið viðskiptavinir sem sagst hafa borðað PadThai í mörgum löndum og þar á meðal í Tælandi en hvergi fengið það eins gott og hjá okkur.“

Hot Pot

„Við bjóðum einnig upp á það sem við höfum kallað „Hot pot“ Þá sér viðskipavinurinn um að elda sjálfur. Á borðinu er hitahella og pottur með soði meistarans, Hráefni er borið hrátt á borð ásamt sósu. Fólk velur svo í hvaða röð það vill sjóða matinn. Þessi aðferð er mjög þekkt víða erlendis og skapast skemmtileg stemmning við borðhaldið en þetta er alls ekki svona „kvikk“ máltíð heldur rólegheit og njóta.“

Hádegis- og kvöldverðartilboð

Frá fyrsta degi höfum við boðið upp á það sem kallast hádegis- eða kvöldverðartilboð og þá má velja þrjá rétti í máltíðina úr hitaborðinu. Til að hafa ávallt ferskan og góðan mat þar er aldrei neitt gutlandi í pottum á bakvið heldur eldað bara það sem í borðið fer hverju sinni. Stundum kemur það fyrir að viðskiptavinurinn þarf að bíða nokkra mínútur meðan verið er að elda í borðið. Því er alltaf tekið með ljúfmennsku enda gert svo fólk fái góðan mat.“

Matseðillinn er með 25 réttum, sérréttaseðill er með 5 réttum og mikið úrval grænmetis og vegan rétta. „Nýjung var nú um nýliðnar hátíðir að við buðum upp á þrjár mismunandi hátíðarmáltíðir og núna í tilefni afmælisins ætlum við að bæta á matseðilinn önd í appelsínusósu,“ segir Svavar í samtali við Fjarðarfréttir.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2