fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirAtvinnulífFramlag Hafnarfjarðarbæjar til Markaðsstofu Hafnarfjarðar lækkar um 24%

Framlag Hafnarfjarðarbæjar til Markaðsstofu Hafnarfjarðar lækkar um 24%

Nýr samningur við Markaðsstofu Hafnarfjarðar var samþykktur í bæjarstjórn í dag. Með honum er lágmarksframlag Hafnarfjarðar lækkað úr 14 milljónum kr. á ári í 10,7 milljónir kr. en mismunurinn mun skv. heimildum Fjarðarfrétta renna til þjónustu- og þróunarsviðs.

MSH starfar á sviði atvinnu-, ferða- og markaðsmála og hefur samstarf við Hafnarfjarðarkaupstað málefni sem koma fram í tilgangi MSH:

  • Efla atvinnuþróun og starfa að ferða- og markaðsmálum í Hafnarfirði með sérstakri áherslu á að auka vinnustarfsemi innan marka bæjarfélagsins.
  • Efla samstarf atvinnulífsins, bæjarfélagsins og annarra sem vilja stuðla að uppbyggingu innan Hafnarfjarðar í þeim tilgangi að bæta ímynd svæðisins og auka eftirspurn eftir hvers konar þjónustu eða atvinnustarfsemi á svæðinu.
  • Stuðla að því að byggð og fjölbreytt atvinnu- og búsetuskilyrði verði til staðar á svæðinu öllu.

Framlag sveitarfélagsins er til að standa straum af hluta af rekstrarkostnaði MSH en stefnt skal að aukinni sjálfbærni starfseminnar og verður rekstrarform stofunnar skoðað sérstaklega á samningstímanum sem lýkur 31. desember 2021.

Markaðsstofunni er heimilt að óska eftir frekari fjárveitingum til Hafnarfjarðarkaupstaðar til einstakra verkefna utan árlegrar verkefnaáætlunar. Þá er Markaðsstofunni heimilt að afla viðbótarfjármagns m.a. í gegnum samstarfsverkefni og ýmis konar verktöku án þess að það hafi áhrif á árlegt framlag Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Atvinnulíf, ferðamál og markaðsmál

Markaðsstofan tekur að sér að sinna eftirtöldum verkefnum í samstarfi við Hafnarfjarðarkaupstað:

Atvinnulíf

Markaðsstofan mun vinna að eflingu atvinnulífs og jákvæðrar fyrirtækjamenningar í Hafnarfirði með því að:

  • Skapa vettvang fyrir samskipti og samvinnu á milli fyrirtækja bæði út frá staðsetningu og starfsemi s.s. með fyrirtækjaheimsóknum, einyrkjakaffi, vinnufundum og hugsanlegum klasaverkefnum.
  • Bjóða upp á upplýsingagjöf og ýmsa fræðslumöguleika s.s. í formi námskeiða og fyrirlestra.
  • Veita upplýsingar til fyrirtækja sem vilja hefja starfsemi í Hafnarfirði.
  • Kynna Hafnarfjörð sem ákjósanlegan stað fyrir rekstur fyrirtækja, bæði stórra og smárra með það að markmiði að laða fleiri fyrirtæki í bæinn og hlúa að þeim sem fyrir eru.
  • Hafa frumkvæði að því að leita uppi aðila sem eru að hefja rekstur eða eru að íhuga að færa sig um set.
  • Vinna með fyrirtækjum að vexti í verslun og fjölgun á viðskiptavinum fyrirtækja í Hafnarfirði.

Greinilegt er að aðaláhersla er lögð á atvinnumálin í nýjum samningi á kostnað ferða- og markaðsmála.

Ferðamál

Vinna með ferðaþjónustuteymi Hafnarfjarðarkaupstaðar að markmiðum sveitarfélagsins og fyrirtækja í ferðaþjónustu samkvæmt stefnu um ferðamál í Hafnarfirði.

Ákvæðum um þátt Markaðsstofunnar um ferðamál er fækkað verulega og verulega dregið úr verkefnum.

Markaðsmál

Markaðsstofan skal í samráði við starfsfólk þjónustu- og þróunarsviðs Hfj annast markaðssetningu og kynningu á Hafnarfirði. Skal sú markaðssetning miða að því að efla Hafnarfjörð sem kjósanlegan kost fyrir atvinnustarfsemi, íbúa og gesti bæjarins.

Er ákvæði um markaðsmál einfölduð nokkuð frá fyrri samningum.

10 af 11 bæjarfulltrúum samþykktu samninginn

Ekki var full samstaða um samninginn í bæjarstjórn því fulltrúi Miðflokksins, Sigurður Þ. Ragnarsson, sat hjá við afgreiðslu málsins án þess að geta ástæðu hjásetunnar.

Í samtali við Fjarðarfréttir vildi Sigurður lítið láta hafa eftir sér um málið en sagði þó að honum fyndist lítill mælanlegur árangur vera af starfsemi Markaðsstofunnar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2