Mikill hamagangur er í öskjunni í verslunarmiðstöðinni Firði þar sem iðnaðarmenn eru að hamast við að ljúka við frágang á nýju verslunarými.
Þá er starfsfólk verslana að raða í hillur, sumar verslanir flytja sig aðeins um set í Firði en aðrar eru nýjar eða flytja frá öðrum stöðum.
Segir Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri 220 Fjarðar, stækkunina, með tengingu við Strandgötu og fleiri verslunarrýmum, hóteli og glæsiíbúðum skapa mikil tækifæri og muni hafa samlegðaráhrif fyrir miðbæinn.
Þar sem Bókasafn Hafnarfjarðar muni flytja á stóran hluta af annarri hæðinni hafa verslanir flutt niður á jarðhæðina en veitingastaðurinn Rif verður á sínum stað og mun auka umsvif sín.
Kaffitorgið gengur í nýja lífdaga með nýjum innréttingum og er stefnt að því að opna það á föstudag.

Íslensk bjartsýni ríkir í húsinu og allt á síðustu stundu og það er aldrei að vita nema þetta reddist allt.
Leikfangaland, Augastaður, Lyf og heilsa, Lindex, Kökulist, Kebab Fjörður og Fjarðarbúðin verða áfram á sínum stað á jarðhæðinni og þar bætast Matarbúðin Nándin og Daily Comfort við.

Margar nýjar verslanir
Daría, Skóhöllin og Kona flytja í nýja hlutann en þar koma margar nýjar verslanir auk veitingastaðar.

Þar koma A4, sem flyst af Helluhrauni í mun stærra rými, Betra kaffi, Klukkan, Gina Tricot og Emil & Lína auk veitingastaðarins Lemon.

Reiknað er með að allar verslanirnar í nýja hlutanum verði opnaðar á föstudag en Lemon væntanlega í næstu viku.

Hótelið formlega opnað 1. desember

Strand, hotel apartments verður opnað formlega 1. desember og segir Guðrún María Guðmundsdóttir, hótelstjóri, í samtali við Fjarðafréttir að viðtökurnar hafi verið langt umfram vonir, ekki síst þar sem stutt var síðan opnað var fyrir bókanir og tíma árs. Í hótelinu eru 18 hótelíbúðir, tveggja til fjögurra manna herbergi.
Þriðjungur íbúða seldur
Þó stutt sé síðan íbúðirnar í Firði voru settar í sölu hafa 10 af 31 íbúð verið seldar og mikill áhugi hefur verið á þeim. Fyrsta opna húsið verður á morgun fimmtudag milli kl. 16.30 og 17.30 á vegum fasteignasölunnar Áss.






