Á aðalfundi Ung Framsóknar í Kraganum var Stefán Atli Rúnarsson kjörinn nýr formaður félagsins.
„Fundurinn einkenndist af jákvæðri stemningu þar sem áhersla var lögð á samstöðu, framtíðarsýn og aukin áhrif ungs fólks innan stjórnmálanna,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
„Spennandi tímar eru framundan – og grænni en nokkru sinni fyrr,“ sagði Stefán við kjör sitt. Hann hyggst leiða félagið með ferskum hugmyndum og nýrri nálgun, þar sem áhersla verður m.a. lögð á að nýta gervigreind til að styðja við skipulag og starfsemi félagsins. Segir jafnfram í tilkynningunni að stefnt sé að því að innleiða tækninýjungar í samskipti, fundaskipan og miðlun upplýsinga til félagsmanna.
„Með því að nýta tækifæri framtíðarinnar ætlar Ung Framsókn í Kraganum að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að láta til sín taka, þróa hugmyndir og hafa áhrif á samfélagið sitt. Félagið hlakkar til næsta kafla undir stjórn nýs formanns og hvetur öll áhugasöm í Hafnarfirði og víðar til að taka þátt í öflugu og skapandi starfi,“ segir að lokum i tilkynninguni.
Stefán Atli Rúnarsson er viðskiptafræðingur og starfar við að fræða fólk um gervigreind.


