Föstudagur, nóvember 21, 2025
HeimFrá ritstjóraByggingarland og bæjarsjóður

Byggingarland og bæjarsjóður

Byggingarland Hafnfirðinga er á þrotum ef svæðisskipu­lagi Höfuðborgarsvæðisins verður ekki breytt.

Eina svæðið sem nú er sagt óbyggt er Vatnshlíðin, sunnan við Ásvallabrautina, ofan Hvaleyrarvatns.

En ef málið er skoðað án takmarkana má hugsa sér að byggja megi á mun fleiri stöðum. Selhraunið sunnan Hvaleyrarvatnsvegar er stórt svæði, allt að 2,5 km². Þá gæti Gráhelluhraunið upp að Sléttuhlíðinni verið glæsilegt byggingarland, 0,6-0,8 km² hektarar, ekki síst ef hesthúsabyggðin yrði flutt út fyrir byggingarlandið. Þá mætti nefna Straums- og Óttarsstaðalandið þar sem byggja mætti á allt að 3,3 km².

Á meðan óvissa ríkir um framtíðar byggingarland er nefnd að störfum sem hefur lagt fram hugmyndir að nýjum golfvelli í bæjarlandinu. Hvaða nefnd skyldi vera að skoða mögulegt framtíðar byggingarland?

Hálfsársuppgjör Hafnarfjarðarkaupstaðar hefur verið birt og tölurnar ljúga ekki. Afkoman er slæm og ljóst er að taka þarf til í rekstri bæjarins. Það gengur ekki að lifa á því að selja lóðir og fá nýja íbúa. Þaðan koma ekki bara tekjur, heldur líka gríðarlegur kostnaður og 2,1 milljón í skuldir á hvern íbúa er gríðarlega mikið og áhyggjuefnið að þær hafa hækkað. Ekki er hægt að velta öllum kostnaði á komandi kynslóðir. Ágætur fyrrum bæjarstjóri í Hafnarfirði sagði að sveitarfélög ættu ekki að skulda og má vel færa fyrir því rök. Svona gengur heimilisbókhald ekki upp. Ekki er hægt að taka endalaus lán og kenna svo háu vaxtastigi um vandamálin.

Það er freistandi að leggja peninga í það sem er ekki skylduverkefni sveitarfélaga. Þurftum við Hafnfirðingar t.d. tvö full stór knattspyrnuhús? Kannski er það stefnuleysi í fjárfestingum og jafnvel fyrirgreiðslupólitík sem stýrir ferðinni og það kann ekki góðri lukku að stýra.

Reyndar er rekstur sveitarfélaga með undarlegum hætti. Þau hafa tekið að sér sífellt fleiri verkefni frá ríkinu, kröfur eru auknar en lítið viðbótarfjármagn fæst. Af hverju er svona mikill munur á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga milli t.d. Íslands og Danmerkur? Af hverju hirðir sveitarfélag fasteignaskattinn og af hverju hirðir ríkið fjármagnstekjuskattinn? eru spurningar sem spyrja má.

Við sem þjóð erum að láta velmegunina bíta í rassinn á okkur. Verðbólgan og endalaus hækkun launa er sennilega okkar versti óvinur. Þegar launin hækka, hækkar allur kostnaður, þá eykst verðbólgan og launin þurfa að hækka. En það þýðir ekki að skella skuldinni á launþegana, þeir stýra ekki fjármálum ríkisins. Á hverja þá?

Nú keppast flokkarnir við að kenna hverjum öðrum um enda kosningar að nálgast. Þá flykkist fólk fram og segist hafa lausnir en flestir hafa þagað frá síðustu kosningum. Það er vonandi að undirbúningur fyrir næstu kosningar verði málefnalegur og væri ekki úr vegi að flokkarnir átti sig á því að það á að kjósa 11 manns í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, ekki meiri- eða minnihluta.

Forseti bæjarstjórnar er æðsta pólitíska embættið og mætti alveg kalla pólitískan bæjarstjóra. Það er engin þörf fyrir stjórnmálamann í starf framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, bæjarstjóra og lang eðlilegast að þar sé leitað að hæfasta einstaklingunum í það embætti.

Svo hvet ég bæjarfulltrúa til að samþykkja fundargerðir bæjarstjórnar án tafa en nú á mánudegi þegar þetta er skrifað hafa ekki allir samþykkt fundargerð bæjarstjórnar frá síðasta mið­vikudegi.

Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2