Á síðustu árum hefur orðið mjög jákvæð og góð þróun hvað varðar rekstur og uppbyggingu veitingastaða, kaffihúsa, verslana og ýmissa afþreyingar í Hafnarfirði. Veitingastöðum hefur fjölgað og rekstrargrundvöllur þeirra styrkst frá því sem áður var þegar íbúar í Hafnarfirði og öðrum úthverfum höfuðborgarsvæðisins sóttu oftast veitingaþjónustu og afþreyingu í miðborg Reykjavíkur. Þar var veitingahúsaflóran fjölbreyttari og rekstrargrundvöllur almennt betri en í úthverfum svæðisins. Það sama átti við um ýmsa starfsemi sem fellur undir afþreyingu, t.d. tónleikahald og fleira.
Þegar miðborgir fyllast af ferðamönnum, með tilheyrandi áhrifum á verðlag og almenna upplifun þeirra sem þangað sækja, leita íbúar úthverfanna yfirleitt í auknum mæli eftir þjónustu í sínu nærumhverfi. Slík þróun er alþekkt í hinum stóra heimi, ekki síst á þeim stöðum þar sem ásókn ferðamanna er hvað mest.
Það skapar grundvöll fyrir nýja þjónustu utan stærstu áfangastaðanna, t.d. nýrra veitingastaða og afþreyingu sem annars hefði ekki endilega þrifist þar. Með tímanum byggist þannig upp staðbundin þjónusta og íbúarnir þurfa ekki lengur að leita í miðborgirnar eftir afþreyingu og ýmiskonar þjónustu. Þannig styrkist rekstrargrundvöllur staðbundinnar þjónustu og úthverfin og samfélögin þar verða sjálfbærari. Þannig má segja að ört vaxandi ferðamannastraumur í miðborg Reykjavíkur en hóflegur og sjálfbær vöxtur ferðaþjónustu í úthverfunum hafi vissulega haft jákvæð hliðaráhrif á öðrum svæðum innan höfuðborgarsvæðisins, meðal annars í Hafnarfirði.
Með tímanum er ekki útilokað að ferðamennirnir geri það sama, þ.e. leiti frekar í úthverfin, hvar troðningurinn er minni, verðlagið mögulega betra og einnig og ekki síst í þeim tilgangi að upplifa betur menningu viðkomandi lands.
Áfangastaðurinn Hafnarfjörður, ný stefnumörkun bæjaryfirvalda
Nú stendur yfir vinna við mótun ferðaþjónustutengdrar stefnu í Hafnarfirði. Í nýlegri skýrslu sem kynnt var á fundi svokallaðrar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins er lagt til að ráðist verði í aðgerðir og markaðsherferð sem miði að því að efla Hafnarfjarðarbæ sem áfangastað ferðamanna. Þar eru nefndir ýmsir þættir sem geta dregið að fleiri ferðamenn, t.d. fallegt og náttúruvænt umhverfi, s.s. útivistarsvæðið við Hvaleyrarvatn, Hellisgerði, Hamarinn, gamli bærinn og margt fleira. Þar eru sundlaugar bæjarins einnig nefndar sem mögulegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Í skýrslunni er einnig fjallað um möguleg áhrif á samfélagið og lögð áhersla á að uppbygging ferðaþjónustunnar þurfi alltaf að gagnast íbúum jafnt sem ferðamönnum. Þar er einnig undirstrikað mikilvægi þess að stjórnvöld eigi opinskátt samtal við íbúana um mögulega þróun ferðaþjónustunnar og væntan ávinning íbúanna af henni.
Áður en bæjaryfirvöld ráðast í framkvæmd stefnunnar, sem miðar að því að gera Hafnarfjarðarbæ að vinsælli áfangastað ferðamanna, þá er algjört grundvallaratriði að þau sem fara með stjórn bæjarins séu óumdeilanlega með umboð bæjarbúa í höndunum.
Það er hægt að sækja með ýmsum hætti, t.d. í tengslum við kosningar þegar framboðslistar leggja fram sínar hugmyndir og stefnur í hinum ýmsu málaflokkum. Það væri líka hægt að framkvæma almenna könnun á meðal bæjarbúa. Þannig mætti til að mynda spyrja bæjarbúa hvort þeir séu því almennt fylgjandi að auka við ferðamannastrauminn í bæinn eður ei. Þá mætti einnig spyrja bæjarbúa hvað þeim finnst um einstaka áhersluatriði, t.d. þá hugmynd að auka aðsókn ferðamanna í sundlaugar bæjarins og í útivistarparadísirnar í upplandinu, m.a. útivistarsvæðið við Hvaleyrarvatn?
Upplýsingar eru lykilforsenda lýðræðis
Í því ferli þarf auðvitað að upplýsa bæjarbúa um hvað stefnan þýðir í raun. Til þess að svo geti orðið þá þurfa bæjaryfirvöld að ráðast í alvöru greiningu á væntum áhrifum stefnunnar og fá utanaðkomandi og hlutlausa aðila til að leggja mat á hvort væntur ávinningur af auknum fjölda ferðamanna sé talinn meiri en sá samfélagslegi kostnaður sem því getur fylgt. Þannig þarf að gera grein fyrir mögulegum hliðaráhrifum, t.d. auknum þrýstingi á ýmsa samfélagslega innviði og áhrifum á húsnæðismarkaðinn. Í því sambandi er einnig mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að ef þróunin verður líkt og sú sem Íslendingar hafa upplifað á vinsælustu áfangastöðunum hér á landi, þá er ekki svo auðveldlega aftur snúið . Þess vegna er mikilvægt að ákvarðanataka um slíka stefnumótun sé vel ígrunduð og í takti við vilja íbúanna.
Mögulega eru bæjarbúar í Hafnarfirði almennt fylgjandi þeirri hugmynd að Hafnarfjörður verði ferðamannastaður og þá er sjálfsagt og eðlilegt í lýðræðissamfélagi að bæjaryfirvöld leggi sitt af mörkum til þess að ná því markmiði. Sé það hinsvegar þvert á vilja meirihluta bæjarbúa þá eiga bæjaryfirvöld að sjálfsögðu að staldra við og hugsa málin uppá nýtt.
Gunnar Axel Axelsson
Íbúi í Hafnarfirði
Greinin birtist fyrst í októberblaði Fjarðarfrétta


