Skólamáltíðir eru mikilvægur þáttur í skólastarfinu og hafa bein áhrif á vellíðan, heilsu og námsgetu barna sem og starfsánægju starfsfólks. Mikilvægt er að matmálstímar snúist ekki bara um næringu heldur séu þeir einnig jákvæðar og uppbyggilegar gæðastundir.
Breytingar skapa tækifæri ef þær eru nýttar rétt
Þar sem breytingar hafa nú orðið á þjónustuaðila skólamáltíða hjá Hafnarfjarðarbæ er kjörið tækifæri til að efla samráð, tryggja að rödd allra hagaðila heyrist og að ákvarðanir séu teknar á gagnsæjan hátt þegar um svo mikilvægt mál er að ræða. Það hafa komið upp hnökrar í upphafi þjónustunnar, sem er ekkert óeðlilegt í jafn stóru verkefni og þessu, og við fögnum því að verið sé að vinna í góðu samstarfi við þjónustuaðila að úrlausn mála þar sem báðir aðilar eru viljugir til að bregðast við ábendingum hratt og vel. Mikilvægt er að draga lærdóm af reynslunni með markvissum hætti og nýta hann til umbóta.
Milliliðalaust samtal mikilvægt
Samfylkingin vill leggja áherslu á að skapa vinnuumhverfi þar sem áhersla er lögð á að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir í lýðræðislegu umhverfi og lögðum við því fram tillögu um að settur væri á laggirnar samráðshópur þar sem ættu sæti fulltrúar foreldra, starfsfólks og nemenda ásamt fulltrúum mennta- og lýðheilsusviðs sem hefðu umsjón með vinnu hópsins. Markmið hópusins hefði verið að funda reglulega yfir skólaárið og einnig með þjónustuaðila eftir þörfum. Tilgangurinn var að stuðla að milliliðalausu samtali, meta kosti og galla þess að elda mat í skólunum eða fá aðkeyptan mat, leggja fram úrbætur byggðar á reynslu notenda og jafnframt afla upplýsinga í gegnum könnun meðal foreldra og nemenda.
Með því að koma á fót samráðshópi teljum við í Samfylkingunni að það skapist markviss vettvangur fyrir opið samtal og samvinnu milli foreldra, nemenda, starfsfólks og fulltrúa bæjarins. Hópurinn væri ekki aðeins samtalsvettvangur heldur líka leið til að safna gögnum, reynslu og ábendingum sem nýtast í faglegri og traustri ákvarðanatöku. Þannig væri unnið markvisst að því að móta skýra framtíðarsýn um skólamáltíðir, tryggja virkt upplýsingaflæði og byggja ákvarðanir á þörfum þeirra sem málið varðar.
Þrátt fyrir að þessi nálgun hafi verið í fullu samræmi við það ferli sem verið hefur í aðdraganda útboðs skólamáltíða þar sem leitast var við að eiga samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk var tillögunni hafnað af meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði og vísað frá í bæjarstjórn. Við teljum það miður, því með þessu var hafnað að festa slíkt samráð í sessi með formlegum og markvissum hætti.
Samráð er forsenda betri ákvarðana
Við í Samfylkingunni leggjum áherslu á að góður og næringarríkur skólamatur sé ein af grunnstoðum öflugs skólasamfélags og hafi gríðarlega mikið að segja um líðan og heilbrigði barna og ungmenna. Það er því brýnt að bæjarfélagið sé alltaf að leita leiða til umbóta og að ákvarðanir um skólamáltíðir séu byggðar á traustum gögnum, reynslu og sjónarmiðum notenda þjónustunnar.
Samráðshópurinn er að mati okkar jafnaðarfólks lykillinn að því að tryggja markvissan vettvang fyrir slíkt samráð og samstarf. Með því að nýta þennan vettvang getum við aflað efniviðar sem leiðir til betri og faglegri ákvarðanatöku, styrkt framtíðarsýn okkar og að skólamáltíðir verði áfram gæðastund í skóladeginum í þágu nemenda, foreldra, starfsfólks og samfélagsins alls.
Kolbrún Magnúsdóttir
varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í fræðsluráði
Greinin birtist fyrst í októberblaði Fjarðarfrétta


