fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirPólitík798 þúsund kr. vegna pólitískrar nefndar um stíga í upplandinu

798 þúsund kr. vegna pólitískrar nefndar um stíga í upplandinu

Brýn nauðsyn á því að markvisst verði stefnt að viðhaldi og merkingu stíga í landi Hafnarfjarðar

Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkti í gær erindisbréf fyrir starfshóp um stíga í upplandi Hafnarfjarðar og skipaði formann ráðsins Helgu Ingólfsdóttur sem formann hennar. Aðrir í nefndinni eru Anna Karen Svövudóttir og Jón Atli Magnússon tilnefnd af meirihluta umhverfis- og skipulagsráðs (sem þá eru fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar). Stefán Már Gunnlaugsson og Sigurður Pétur Sigmundsson voru svo skipaðir af minnihluta skipulags- og byggingaráðs.

Skemmdir hestamanns á göngustígnum í gegnum Gráhelluskóg hefur hneykslað marga.

Hópurinn skal skoða núverandi aðal- og svæðisskipulag með tilliti til stíga í upplandi Hafnarfjarðar, leggja skal áherslu á stíga frá Gráhelluhrauni að Helgafelli og frá Vallahverfi að umhverfi Hvaleyrarvatns.

Taka skal til skoðunar núverandi legu stíga en undir það falla bæði gönguleiðir, útivistarstígar og reiðleiðir.

Starfshópurinn skal gera tillögu að endurbótum á núverandi leiðum, ennfremur skal hópurinn koma með tillögu að nýjum stígum, sem stuðla að greiðara aðgengi íbúa að útivistarsvæðum.

Stígarnir í kringum Hvaleyrarvatn eru mikið notaðir.

Þessi vinna á að hvetja til reglulegrar hreyfingar, náttúruupplifunar og jákvæðra félagslegra samskipta í samræmi við markmið Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2040.

Lokaskýrslu með tillögum skal skilað til umhverfis- og framkvæmdarráðs fyrir 1. mars 2021.

Stígum í upplandinu hefur lítið sem ekkert verið sinnt

Gríðarlegt verk er fyrir höndum við lagfæringu og merkingu á stígum í upplandi Hafnarfjarðar.

Stígar í kringum friðaða Ástjörnina eru víða lélegir en mikið notaðir.

Innan Hafnarfjarðar eru fjölmargar þjóðleiðir sem hafa verið merktar að hluta en merkingum hefur ekki verið haldið við. Að þeim steðjar ýmis hætta, vegir, byggingar, trjágróður auk þess sem lúpína getur auðveldlega eyðilagt stígana, í besta falli falið þá.

Gömul leið á Helgafell er með slitnum og fáum stikum.

Fjölmargar merktar gönguleiðir eru innan bæjarmarkana, helst á svæðinu í nálægð við Helgafell. Þær merkingar eru mjög illa farnar og stundum óljóst hvort þar sé raunveruleg gönguleið. Engar þessar gönguleiðir hafa verið lagfærðar á neinn hátt, hvorki borið í þær eða tryggt að vatn eyðileggi þær ekki.

Víða eru gömul ummerki eftir utanvegaakstur sem aldrei hafa verið lagfærð þó full ástæða sé til.

Víða eru gömul ummerki eftir utanvegaakstur.

Ágangur hefur aukist á mörgum þessara leiða og á viðkvæmum stöðum hafa myndast djúpar rásir eftir umferð hesta auk þess sem umferð vélhjóla og reiðhjóla þegar undirlag er blautt hefir stórskemmt stíga á sumum stöðum.

Stígur við Undirhlíðar hentar ekki bæði hestamönnum og fótgangandi.

Einu göngustígarnir sem hafa verið lagfærðir og nýir búnir til eru í kringum Hvaleyrarvatnið þar sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur sýnt þar mikið frumkvæði. Hafnarfjarðarbær hefur lagt til efni en í flestum tilfellum hafa það verið sjálfboðaliðar sem hafa lagt stígana og hefur það verið fólk frá Landsneti, skátar og ýmis sjálfboðaliðssamtök, þó ekki megi gleyma þætti starfsmanna Vinnuskólans.

Malbikaður hjóla- og göngustígur

Göngu- og hjólastígurinn sem á að liggja frá Áslandi og að Kaldárseli er aðeins kominn að Hvaleyrarvatnsvegi og ekki hafa verið sýndar neinar tillögur um legu hans. Hann hentar fyrst og fremst hjólandi fólki þó fólk sem æfir hjólreiðar virðist frekar kjósa veginn umfram stíginn enda er hann ansi hæðóttur. Gangandi kvarta undan malbikinu, sérstaklega á veturna þegar þar hefur verið mikil hálka. Eflaust sækist fólk eftir því að komast út fyrir malbikið þegar það sækir í uppland Hafnarfjarðar.

Malbikaðir stígar krefjast mjög góðrar undirvinnu enda ekki hægt að slétta þá auðveldlega aflagist þeir vegna frostlyftingar sem eru algengar á stígum.

Víða eru ummerki á þjóðleiðum eftir stöðuga umferð í margar aldir eins og hér á Straumselsstígnum.

Ekki var leitað til útivistarfólks við hönnun á göngu- og hjólastígnum og fróðlegt verður að vita hvernig vinnu pólitíska vinnuhópsins verður.

Víðast eru stígar lítið meira en slóðar sem myndast hafa af göngu fólks.
Nýleg gönguleið um Helgadal í átt að Búrfellsgjá.
Vinsælar gönguleiðir eru við Helgafell og Valahnúka.
Ýmsar stikaðar leiðir má finna en stikur hafa týnst og fátt er um merkingar.
Stikuð leið á Helgafelli en leið óljós enda hefur stikum ekki verið haldið við.
Ekki hefur verið gerður göngustígur að vörðunni á Ásfjalli og þar sér á gróðri á stóru svæði vegna þess.
Gömul þjóðleið um Kýrskarð er alveg ómerkt.
Þetta er eini “drykkjarfonturinn” við gönguleiðir í Hafnarfirði og er við aðalvatnsból Hafnfirðinga.

Á síðunni Ferlir.is sem Ómar Smári Ármannsson heldur úti er mikill fróðleikur um minjar í upplandi Hafnarfjarðar og reyndar á öllum Reykjanesskaganum. Hér má finna nýlega færslu um svæðið Almenning sem mikið kemur við sögu í umhverfismati vegna Suðurnesjalínu 2 enda fer línan og línuvegur þar um áður óraskað hraunsvæði.

Almenningur – Ferlir

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2