Veggjöld eru hvorki nauðsynleg né tímabær

Óskar Steinn Jón­ínu­son Ómarsson skrifar

Óskar Steinn Jón­ínu­son Ómarsson

Með samgöngusáttmála ríkis og sveit­ar­félaga á höfuðborgarsvæðinu er borgar­lína loks komin á áætlun. Þessu ber að fagna, enda um nauðsynlega samgöngu­framkvæmd að ræða sem mun í senn létta bílaumferð, draga úr mengun og stuðla að þéttari byggð á höfuðborgarsvæðinu. Þá er borgarlína algjör lykill að því að ungt fólk sjái sér framtíð hér í Hafnarfirði, en hér myndi ég ekki vilja búa án öflugra og áreiðanlegra samgöngutenginga við miðborg Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin hefur boðað að framkvæmdirnar verði fjármagnaðar að hluta með álagningu veggjalda á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Hér eigum við að staldra við og spyrja okkur hvort veggjöld á almenning séu yfir höfuð nauðsynleg eða tímabær.

Samgöngusáttmálinn í heild á að kosta 120 milljarða á 15 ára tímabili. Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur bent á að arðgreiðslur úr Lands­bank­anum einar og sér myndu duga fyrir öllum samgöngusáttmálanum, en á síð­ustu sjö árum hefur Landsbankinn greitt ríkissjóði 150 milljarða í arð. Það er því ekkert sem kallar á veggjöld á almenning. Réttast væri að halda Landsbankanum í almenningseigu og nýta arðgreiðslur úr honum til fjármögnunar samgöngu­sátt­málans.

Notendagjöld á bílaumferð geta vissulega virkað sem efna­hagslegur hvati til að færa fólk úr einkabílnum og yfir í al­­menn­ingssamgöngur. En fyrst þarf raunverulegur val­kostur að vera í boði. Í dag er leið 1 svo vel nýtt á háannatíma að hún má varla við mikilli fjölgun far­þega. Áður en við tökum um­­ræðuna um möguleg veggjöld til umferðarstýringar ættum við því að setja borgarlínu í forgang og byggja upp þétt net öflugra og áreiðan­legra almenn­ingssamgangna sem allra fyrst.

Í samgöngusáttmálanum er tenging borgarlínu til Hafnarfjarðar í síðasta sæti og ekki gert ráð fyrir henni fyrr en árið 2030. Þetta er dapur niðurstaða en hún kemur því miður ekki á óvart miðað við áhugaleysi meirihluta bæjarstjórnar á borgar­línuverkefninu. Áhugaleysið er slíkt að í skrifum fulltrúa meirihlutans um samgöngusáttmálann er ekki orð að finna um borgarlínu. Við sem viljum öflugar almenn­ingssamgöngur á höfuð­borgar­svæðinu eigum betra skilið en pólitíska fulltrúa sem setja almenningssamgöngur í síðasta sæti.

Óskar Steinn Jón­ínu­son Ómarsson, varaforseti Ungra jafnaðarmanna.