fbpx
Sunnudagur, apríl 14, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanStyttum vinnuvikuna

Styttum vinnuvikuna

Steinn Jóhannsson skrifar

Eitt af baráttumálum Samfylkingarinnar er að koma á tilraunaverkefni hjá Hafnarfjarðabæ og stytta vinnuvikuna. Þegar vinnutími OECD-landanna er skoðaður kemur í ljós að Íslendingar í fullu starfi vinna hátt í 45 stundir á viku og eru þar í fjórða sæti en efst trónir Tyrkland. Einnig má geta þess að tæp 14% starfmanna á vinnumarkaði vinna fleiri en 50 vinnustundir á viku og slíkt getur ekki talist fjölskyldu- eða heilsuvænt. Nokkrar tilraunir um styttri vinnuviku hafa verið framkvæmdar á Íslandi, m.a. hjá Þjóðskrá, Útlendingastofnun, Ríkisskattstjóra og Reykjavíkurborg. Árið 2015 fór Reykjavíkurborg af stað með tilraunaverkefni þar sem vinnuvikan var stytt niður í 35 stundir án skerðingar á launum m.a. hjá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts.

Ávinningurinn af styttri vinnuviku

En hvers vegna ættum við í Hafnarfirði að ráðast í slíkt tilraunaverkefni? Rannsóknir (m.a. hjá Reykjavíkurborg) og niðurstöður af þeim tilraunaverkefnum sem hafa verið framkvæmd eru mjög jákvæðar. Það sem stendur upp úr er að starfsfólk afkastar meiru, starfsandi batnar og fjarvistum vegna veikinda fækkar. Stóra málið er að styttri vinnuvika eykur líkurnar á að foreldrar verji meiri tíma með börnunum sínum en í dag er fjöldi foreldra sem er með börn á leikskóla í allt að 9 tíma á dag sem getur ekki talist góð þróun. Kannanir gefa einnig vísbendingar um að börn í grunnskóla verji sífellt meiri tíma ein heima og meiri samvera með foreldrum mynda styðja betur við nám barnanna og veita þeim jafnframt meira aðhald. Hafnarfjörður hefur tækifæri til að vera fyrirmyndarbæjarfélag og Samfylkingin er tilbúin að setja fjölskylduvænt umhverfi í forgang sem stuðlar að betri framtíð fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Steinn Jóhannsson
skipar sjöunda sæti á lista Samfylkingarinnar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2