fbpx
Þriðjudagur, desember 3, 2024
target="_blank"
HeimUmræðan„Hvort er betra að gera?“

„Hvort er betra að gera?“

Guðrún Björg Bragadóttir og Reynir Stefán Gylfason hjá KPMG skrifa

Við hjá KPMG fáum reglulega spurningar frá viðskiptavinum um ýmis mál er til dæmis tengjast bókhaldi, reikningsskilum og skattskilum. Spurningin hefst oftar en ekki á orðunum „Hvort er betra að gera?“ og gerum við okkar besta til að ráðleggja í hverju tilviki fyrir sig. Staðreyndin er þó sú að svarið felst yfirleitt í aðstæðum hvers og eins rekstraraðila.

Bifreiðahlunnindi eða ökutækjastyrkur?

Við erum til dæmis iðulega spurð hvort sé betra fyrir starfsfólk að fá bifreið í eigu launagreiðanda til persónulegra afnota eða nota eigin bifreið og fá greiddan ökutækjastyrk.

Það er ekkert einfalt svar til við þessum vangaveltum þar sem það eru nokkrar breytur sem þarf að meta og því nauðsynlegt að skoða hvert og eitt tilvik fyrir sig.

Bifreiðahlunnindi reiknast sem 28% af kaupverði bifreiðar ef um full og ótakmörkuð afnot er að ræða og sem 120 kr. pr. kílómetra ef um takmörkuð afnot er að ræða.

Rétt er að taka fram að eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum teljast ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim bifreiðum sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota.

Frá ökutækjastyrk er heimilt að draga tiltekinn kostnað á hvern ekinn kílómetra í þágu launagreiðanda. Frádrátturinn nemur 72-120 kr. pr. kílómetra og fer eftir heildarakstri í þágu launagreiðanda.

Ekki er heimilt að gjaldfæra kostnað hjá launagreiðanda vegna bifreiða í eigu launþega. Ef launagreiðandi vill greiða launþega fyrir afnot af bifreið hans þá telst það vera ökutækjastyrkur. Það er ekki skilyrði að ökutækjastyrkur sé greiddur skv. kílómetrafjölda eða að ákveðin fjárhæð sé greidd pr. kílómetra.

Það getur því verið mjög mismunandi hvor leiðin er hagkvæmari.

Ef við tökum sem dæmi félag með starfsstöð í Hafnarfirði þá gæti borgað sig fyrir almennan starfsmann félagsins sem býr á Selfossi og keyrir daglega frá heimili til starfsstöðvar að fá bifreið frá félaginu til persónulegra afnota en það myndi ekki borga sig fyrir framkvæmdastjóra félagsins sem býr nálægt starfsstöð félagsins og notar bifreiðina lítið. Í báðum tilvikum yrði að reikna full og ótakmörkuð bifreiðahlunnindi.

Einkahlutafélag eða rekstur á eigin kennitölu?

Önnur spurning sem viðskiptavinir KPMG velta líka fyrir sér er hvort stofna eigi einkahlutafélag utan um rekstur sem viðkomandi er með.

Oft er verið að bera saman skattlagningu einkahlutafélaga sem er 20% og skattlagningu einstaklinga sem er 31,45-46,25% og auðvitað virðist blasa við að rétt sé að stofna einkahlutafélag.

Hins vegar þarf að taka nokkrar aðrar breytur inn í þennan samanburð.

Það er rétt að hagnaður einkahlutafélaga er skattlagður með 20% tekjuskatti en til að koma fjármunum frá félaginu og til hluthafans þarf að greiða hagnaðinn út sem arð til hluthafans og arður er skattlagður með 22% fjármagnstekjuskatti. Heildarskattlagning hagnaðar í einkahlutafélagi er þannig 37,6% sem þarf að bera saman við skatthlutfall einstaklinga sem er 31,45-46,25%.

Nú eru eflaust einhverjir að klóra sér í kollinum yfir því hvernig við fáum út að hagnaður einkahlutafélags sé skattlagður með 37,6% skatthlutfalli kominn í vasa hluthafa. Jú, sjáið þið til, ef hagnaður í einkahlutafélagi er 100 kr. þá er 20% tekjuskattur 20 kr. Til útgreiðslu til hluthafa sem arður er þá mismunurinn eða 80 kr. og arður skattleggst eins og áður sagði með 22% skatthlutfalli eða 17,6 kr. í þessu dæmi. Alls er því skattur til greiðslu 37,6 kr. af 100 kr. hagnaði eða 37,6%.

Annað sem þarf að hafa í huga er að það er dýrt að stofna einkahlutafélag og enn dýrara að slíta því. Þá er heimilt að lækka reiknað endurgjald í rekstri á eigin kennitölu ef það er tap á rekstrinum en slíkt er ekki heimilt þegar um einkahlutafélag er að ræða. Að lokum er rétt að nefna að heimilt er að færa rekstur á eigin kennitölu yfir í einkahlutafélag án skattalegra afleiðinga en ekki er hægt að færa rekstur í einkahlutafélagi yfir í sjálfstæðan atvinnurekstur á eigin kennitölu.

Þannig að það er alls ekkert öruggt að alltaf sé rétt að rjúka af stað í og stofna félag utan um reksturinn og rétt að skoða allar hliðar málsins áður en ákvörðun er tekin.

Guðrún Björg Bragadóttir (gbragadottir@kpmg.is)

Reynir Stefán Gylfason (rgylfason@kpmg.is)

Höfundar greinarinnar starfa á starfsstöð KPMG á Reykjavíkurvegi 76, Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2