Hafnarfjörður er heilsueflandi samfélag samkvæmt samningi við Landlæknisembættið en í heilsueflandi samfélagi er lögð áhersla á að vinna með fjóra meginþætti: Hreyfingu, næringu, líðan og lífsgæði. Fyrir liggur að eldri borgurum mun fjölga mikið á næstu árum og ennfremur er ljóst að þróun í þjónustu við þennan hóp á vegum sveitarfélagsins þarf að vera í stöðugri endurskoðun.
Tilraunasamningur við Janus heilsueflingu
Fjölskylduráð Hafnarfjarðar gerði nýlega samning við Janus heilsueflingu um líkamsrækt og heilsueflingu fyrir eldri borgara í Hafnarfirði. Um er að ræða tilraunaverkefni í 18 mánuði þar sem þátttakendum býðst gegn vægu gjaldi að taka þátt í alhliða heilsueflingu sem felur í sér markvissa þjálfun undir stjórn fagfólks og ráðgjöf varðandi mataræði. Verkefnið byggir á faglegum grunni dr. Janusar Guðlaugssonar sem er Hafnfirðingum að góðu kunnur. Hver og einn þátttakandi fær einstaklings miðaða æfingadagskrá sem gerð verður í kjölfar mælinga á þreki, styrk og líkamlegs ástands hvers og eins. Æfingar fara fram í fámennum hópum undir leiðsögn fagfólks. Auk þol- og styrktaræfinga verður þátttakendum einnig boðið uppá fyrirlestra er snúa að hollu mataræði og lífsstíl. Árangur verkefnisins verður svo metinn sérstaklega.
Frístundastyrkur til niðurgreiðslu á líkamsrækt
Margvísleg þjónusta er í boði í hreyfingu og félagsstarfi sem öll miðar að því að efla og styðja þennan hóp. Fjölmargir eldri borgarar nýta sér Haukahúsið og Frjálsíþróttahúsið í Kaplakrika til gönguhreyfingar og Félag eldri borgara heldur úti fjölbreyttri dagskrá. Sundstaðir bæjarins standa til boða án endurgjalds fyrir þennan hóp og fjölbreytt úrval af hreyfingu er í boði hjá fyrirtækjum og fagaðilum þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Frístundastyrkir til niðurgreiðslu á líkamsrækt og hreyfingu standa eldri borgurum til boða og nú um áramótin var styrkurinn hækkaður verulega. Styrkinn má nýta til niðurgreiðslu á líkamsrækt og hreyfingu samkvæmt reglum sem nálgast má á heimasíðu bæjarins.
Það má því horfa björtum augum til ársins 2018 með skýr markmið um að auka hreyfingu og lífsgæði og hér í Hafnarfirði er gott framboð þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Gleðilegt ár kæru Hafnfirðingar
Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Greinin birtist í Fjarðarfréttum – vikublaði 11. janúar 2018