fbpx
Laugardagur, febrúar 24, 2024
HeimFréttirVSB verkfræðistofa meðal styrkþega úr Sóleyju, styrktarsjóði SSH

VSB verkfræðistofa meðal styrkþega úr Sóleyju, styrktarsjóði SSH

Eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins hefur það að markmiði að hvetja til þátttöku atvinnulífsins í nýsköpunarverkefnum á sviði velferðar-og samfélagsmála annars vegar og umhverfis- og samgöngumála hins vegar ásamt því að efla samstarf atvinnulífs og sveitarfélaga innan beggja málaflokkanna. Hinn 12. desember sl. fór fram úthlutun styrkja úr Sóleyju, styrktarsjóði SSH, til nýsköpunarverkefna á ofangreindum sviðum.

Úthlutunarnefnd vegna verkefna á sviði umhverfis og samgangna var skipuð Jóni Kjartani Ágústssyni, tilnefndum af SSH, Einari Olavi Mantyla tilnefndum af Auðnu tæknitorgi og Þorsteini R. Hermannssyni tilnefndum af Betri samgöngum ohf.

Úthlutunarnefnd vegna verkefna á sviði velferðar og samfélags var skipuð Svanhildi Þengilsdóttur tilnefndri af SSH, Kolfinnu Kristínardóttur tilnefndri af Klaki-Icelandic startups og Steinunni Hrafnsdóttur tilnefndri af Félagsvísindasviði Háskóla Íslands.

Við mat á umsóknum litu úthlutunarnefndir einkum til eftirfarandi þátta:
– Er umsókn til samræmis við áskilnað í starfsreglum/auglýsingum?
– Er um nýsköpun að ræða?
– Tengir verkefnið saman sveitarfélög og atvinnulíf?
– Fellur verkefnið að áherslum sóknaráætlunar?

Eftirtalin verkefni hlutu styrk, hvert um sig að fjárhæð 1.000.000 kr., úr sjóðnum:

Á sviði umhverfis og samgangna:

Hjólapróf í grunnskólum

Thijs Kreukels samgönguverkfræðingur veitti styrknum viðtöku og skrifaði undir fyrir hönd VSB

Verkefni hafnfirsku verkfræðistofunnar VSB „Hjólapróf í grunnskólum” felst í því að búa til bóklegt og verklegt hjólapróf fyrir börn á aldrinum 10-12 ára með það að markmiði að auka færni þeirra og draga úr slysahættu með það langtíma markmið að auka hlutdeild hjólreiða í samgöngum.

Snjallari almenningssamgöngur

Daði Baldur Ottósson veitti styrknum viðtöku og skrifaði undir fyrir hönd EFLU

Verkefni EFLU-verkfræðistofu „Snjallari almenningssamgöngur“ felst í greiningu á því með hvaða hætti megi efla pöntunarþjónustu Strætó bs. Verður t.a.m. horft til þess hvort og hvar væri mögulegt og skynsamlegt að setja akstursleiðir í pöntunarþjónustu og verður m.a. framkvæmd viðhorfskönnun meðal íbúa í þeim tilgangi að greina það. Afurð verkefnisins verður skýrsla sem ætla megi að nýtist sveitarfélögunum við greiningu á því hvernig rétt sé t.a.m. að þjónusta hverfi sem eru í uppbyggingu, og leiðir sem hafa litla nýtingu t.d. utan annatíma.

Barn sem ræktar kál borðar kál

Jón Hafþór Marteinsson veitti styrknum viðtöku og skrifaði undir fyrir hönd Bambahúsa

Verkefni Bambahúsa ehf.: „Barn sem ræktar kál borðar kál“: Styrkurinn verður nýttur að koma á samstarfi við innflutningsaðila bamba um að nýta bamba, sem eru 1000 lítra IBC tankar sem vökvi er fluttur í og væri ella fargað. Bambarnir eru svo nýttir til framleiðslu gróðurhúsa sem m.a. nýtast til umhverfiskennslu í leik- og grunnskólum. Vonast er til þess að í vor verði komið á samstarf um ráðstöfun á bömbum og niðurgreiðslu Bambahúsa til leikskóla.

Á sviði velferðar og samfélags:

Sara – stelpa með ADHD

Katla Margrét Aradóttir veitti styrknum viðtöku og skrifaði undir fyrir hönd Týndu stelpnanna.

Verkefni Týndu stelpnanna ehf: „Sara – stelpa með ADHD“: Sótt er um styrk til að skrifa og gefa út barnabók um stelpu með ADHD, til að auka skilning á ADHD og vekja athygli á mismunandi birtingarmyndum ADHD eftir kynjum.

Geltu – Forvarnarmynd um hatursorðræðu

Benedikta Sörensen veitti styrknum viðtöku og skrifaði undir fyrir hönd Ofbeldisforvaranrskólans.

Verkefni Ofbeldisforvarnarskólans ehf: „Geltu – Forvarnarmynd um hatursorðræðu“: Verkefnið felst í vinnslu stuttmyndar um hatursorðræðu þar sem tekið er á útlendingahatri og kynbundnu ofbeldi. Markmiðið er m.a. að varpa ljósi á hvað leiðir til hatursorðræðu og að styrkja sjálfsmynd ungra innflytjenda og hinsegin unglinga.

Kraftur í KR

Pálmi Rafn Pálmason veitti styrknum viðtöku og skrifaði undir fyrir hönd KR.

Verkefni Knattspyrnufélags Reykjavíkur í samstarfi við Samfélagshúsið Aflagranda 40 um heilsueflingu eldri borgara: „Kraftur í KR“: Um er að ræða samstarfsverkefni Samfélagshússins á Aflagranda og KR er snýr að hreyfingu fyrir eldra fólk. Styrknum verður varið til eflingar starfsins, til að auka fjölbreytni hreyfingar og koma á fót gönguhópi og til að styrkja frístundaakstur, þ.e. rútu sem sækir einstaklinga í hverfinu og kemur þeim á staðinn.

Upplýsinga- og miðlalæsisvika

Verkefni Fjölmiðlanefndar og Tengslanets um upplýsinga- og miðlalæsi: „Upplýsinga- og miðlalæsisvika“: Verkefnið felst í að byggja upp fræðslu og þjálfun fyrir kennara og frístundaleiðbeinendur til að auka miðlalæsi yngri kynslóðarinnar. Um verður að ræða þýðingar á erlendu efni og fræðslumyndbönd. Gert er ráð fyrir umfjöllun um samfélagsmiðla, fréttir og falsfréttir, hatur og áreiti, foreldra og öryggi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2