Útgefandi Fjarðarpóstsins dæmdur til að greiða 10,7 millj. kr. skuld auk vaxta

Hönnunarhúsið ehf. hafði boðist til að taka blaðið upp í skuldina

Keilir útgáfufélag, sem hefur gefið út Fjarðarpóstinn frá 2007, var dæmt til að greiða Hönnunarhúsinu, félagi ritstjórans

Héraðsdómur Reykjaness hefur úrskurð­að að Keilir útgáfufélag ehf., útgefandi Fjarðarpóstsins skuli greiða að fullu tæplega 10,7 millj. kr. skuld sína, auk dráttarvaxta, við Hönnunar­húsið ehf. sem hafði umsjón með útgáfu Fjarðarpóstsins til júlí 2016. Dómurinn var kveðinn upp sl. mánudag og má lesa í heild hér.

Í nóvember 2001 tók Hönnunarhúsið að sér að sjá um útgáfu á Fjarðar­póst­inum fyrir Keili ehf. byggingafélag og gerður var munnlegur samningur um þóknun Hönnunarhússins fyrir ritstjórn, umbrot og auglýsingasölu. Var greitt skv. þeim samningi til ársloka 2006 er rekstur blaðsins var færður yfir á nýtt félag, Keili útgáfufélag ehf. og gamla félagið sett í þrot.

Áfram var greitt skv. samningnum en Hönnunar­húsið ehf. gaf út reikning fyrir hverju útgefnu blaði. Þegar fram liðu stundir fór að draga úr greiðslum og Keilir greiddi inn á reikning Hönnunarhússins upphæðir sem náðu ekki upphæð reikninganna og safnaðist upp há skuld. Þrátt fyrir ítrekanir og áskoranir lagaðist ástandið ekki og snemma árs 2016 var svo komið að Hönnunarhúsið taldi ekki grundvöll fyrir áframhaldandi rekstri og bauðst til að taka Fjarðarpóstinn upp í skuldina og afskrifa skuldina. Að ósk Keilis var haldið áfram til sumars en þá brá svo við að forsvarsmaður Keilis ehf. sagðist ekki skulda neitt enda hafi hann greitt alla samþykkta reikninga.

Dómurinn var ekki sammála þessari túlkun enda hafði forsvarsmaður Keilis ekki gert neina athugasemd við reikn­inga Hönnunarhússins sem höfðu verið með sama hætti alla tíð.

Lögmaður stefnda gerði kröfu um að stefnandi framvísaði afriti af öllum reikningum frá janúar 2007 en stefnandi byggði kröfuna á reikningsyfirliti úr bókhaldi. Þegar reikningar voru lagðir fram mótmælti lögmaður stefnda og taldi reikningana of seint fram komna.

Í dómnum er sagt að ekki sé hægt að fallast á þá málsástæðu stefnda né heldur að mögu­lega hafi reikningarnir verið út­búnir eftir á, enda eru reikningar í sam­ræmi við nefnt yfirlit, sem var stað­fest rétt af löggiltum endurskoðanda fyrir dómi. Dómarinn hafnaði því öllum málatilbúnaði stefnda og dæmdi stefnanda 100% í vil.

Keili útgáfufélagi ehf. er jafnframt gert að greiða 753 þúsund kr. í málskostnað.

Ástæðan fyrir útgáfu Fjarðarfrétta

Þegar Keilir ehf. afneitaði skuldinni og vildi þar af leiðandi ekki afhenda Fjarð­­­ar­póstinn upp í skuld, var sam­starfinu slitið af Hönnunarhúsinu sem hóf þá útgáfu á nýju bæjarblaði sem byggði á gömlum merg, Fjarðarfréttum.

Fram­kvæmdastjóri Hönnunarhússins ehf. og eigandi, sem verið hafði ritstjóri Fjarðarpóstsins frá nóvember 2001, varð ritstjóri Fjarðarfrétta sem hefur verið gefið út vikulega síðan.

Sami eigandi er að Keili útgáfufélagi og Prentsmiðjunni Steinmark þar sem Fjarðarpósturinn var prentaður lengst af.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here