fbpx
Miðvikudagur, maí 22, 2024
HeimFréttirUmhverfiðNý útsýnisskífa sett upp á Helgafelli

Ný útsýnisskífa sett upp á Helgafelli

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar setti upp útsýnisskífu á bæjarfjallinu, Helgafelli

Hópurinn á toppi Helgafells

Það var hátíðarstund á Helgafelli sl. fimmtudag og fjölmenni þegar Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar vígði nýja útsýnisskífu, eða hringsjá, sem klúbburinn hafði látið gera.

Veðrið lék við göngufólkið, næstum logn á fjallinu og sólin skein og fólk léttklætt.

Guðbjartur Einarsson, forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar.

Guðbjartur Einarsson, forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, ávarpaði gesta í upphafi. Sagði hann marga hafa lagt fram mikla vinnu við gerð skífunnar en hann þakkaði sérstaklega Rio Tinto á Íslandi fyrir styrk við verkefnið og vinnuframlag verkfræðistofunnar Mannvits.

Tryggvi Jónsson, formaður samfélagsnefndar Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar

Tryggvi Jónsson, formaður samfélagsnefndar klúbbsins, sagði frá tilurð skífunnar og minntist föður síns Jóns Bergssonar, sem hafði verið í sömu stöðu og hann fyrir 33 árum síðan þegar Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar gaf útsýnisskífu á Ásfjall. Sagði hann ýmis leyfi hafi þurft m.a. frá Umhverfisstofnun þar sem fjallið er á Reykjanesfólkvangi.

Því næst afhjúpuðu Guðbjartur og Tryggvi útsýnisskífuna sem sett er á landmælingarstöpul.

Á stöpulinn hefur verið komið fyrir skildi með erindi úr ljóði Tómasar Guðmundssonar, Fjallgangan, sem endar á orðunum: „..Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt.“ Þótti það vel við hæfi við þessa upplýsingaskífu sem gefur fólki kost á að vita hvað fjöllin í kring heita.

Sr. Kjartan Jónsson, félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar

Sr. Kjartan Jónsson, félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, blessaði skífuna, Garðar Eiríksson, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi flutti stutt ávarp og sungin voru nokkur lög á fjallstoppnum.

Fjölmennt var á fjallinu þegar útsýnisskífan var vígð

Myndskeið frá vígslí útsýnisskífunnar

Margar leiðir á Helgafell

Helgafell er að mörgu leyti magnað fjall, 338,85 m móbergsstapi sem myndaðist við eldgos undir jökli seint á síðustu ísöld. Auðveldasta leiðin upp á fjallið er úr norðaustri, við Valahnúkaskarð en einnig er vinsæl leið upp skarð NV í fjallinu en hún er brattari á köflum. Þá er mörkuð leið upp á fjallið úr vestri en einnig úr SA, brött leið en liggur í gegnum stóran steinboga, „gatið“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2