fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirSkipulagsmálHvað þýða hugmyndirnar um nýtt miðbæjarskipulag?

Hvað þýða hugmyndirnar um nýtt miðbæjarskipulag?

Kynningarfundur boðaður 17. september og athugasemdarfrestur til 20. september

Mikil umræða hefur skapast eftir að Fjarðarfréttir birti hugmyndir arkitekta­stofunnar Trípólí um framtíð miðbæjar Hafnarfjarðar og sagði frá skýrslu starfshóps um miðbæjarskipulagsins. Hefur fólk brugðið nokkuð að sjá hugmyndir að húsum við sjávarkantinn og á flestum bílastæðum og hefur verið nokkur óvissa hvaða gildi þessar hugmyndir hafa. Hugmyndir Trípóli má skoða hér.

Til að upplýsa nánar um þann feril sem farinn er í gang voru nokkrar spurningar lagðar fyrir Þormóð Sveinsson, skipulagsstjóra hjá Hafnar­fjarðarbæ.

Miðbær Hafnarfjarðar

Í hans svörum kemur fram að for­sögn, sem byggð verður á skýrslu starfs­hópsins, verður lögð til grund­vallar við formlega vinnu að deili­skipu­laginu svo mikilvægt er að bæjarbúar komi með ábendingar og tillögur að uppbyggingu í miðbænum og hvaða feril nota á. Upphaflega var gert ráð fyrir opinni arkitektasamkeppni en starfshópurinn telur að ekki kæmu aðrar betri tillögur en þær sem komu frá arkitektastofunum þremur.

Um það og fleira geta bæjarbúar tjáð sig og lagt fram athugasemdir og ábendingar við skýrslu starfshópsins. Lesa má svör Þormóðs Sveinssonar skipulagsstjóra hér:

Hvaða gildi í skipulagsferlinum hefur þessi vinna sem unnin hefur verið, tillögur arkitektanna og skýrsla starfs­hóps­ins?

Þormóður Sveinsson, skipulagsstjóri Hafnarfjarðarbæjar

Lagt er til að vinna við forskrift, sem er forsögn byggð á skýrslu starfshópsins og yrði lögð til grundvallar þegar formleg vinna við deiliskipulag miðbæjarins hefst, verði í samræmi við skýrslu starfs­hópsins.

Ef hún er grunnur að áframhaldandi vinnu, hefði ekki átt að kynna tillög­urnar betur og bjóða íbúa til samtals?

Opinn fundur fyrir íbúa og aðra áhugasama verður haldinn þriðjudaginn 17. september kl. 17.30 í Bæjarbíói. Þar geta gestir lagt sitt mat á aðferðafræðina nú á upphafsstigunum, reifað hug­myndir sínar og tekið þátt í umræðu um framtíð miðbæjarins. Þormóður Sveins­son skipulagsfulltrúi mun fara yfir hug­myndir arkitektastofanna og skipu­lagsferlið í heild sinni. Ágúst Bjarni Garð­arsson, formaður starfshóps um skipulag miðbæjarins, mun segja frá tillögum hópsins og drögum skýrslu og Kári Eiríksson, arkitekt og fulltrúi íbúa í starfshóp, mun leiða vinnufund þar sem gestir geta viðrað hugmyndir sínar og skoðanir.

Hvað er verið að kalla eftir athuga­semdum við ef ekki hugmyndum sem koma fram í tillögum arkitektanna?

Til og með 20. september 2019 gefst íbúum og öðrum áhugasömum tækifæri til að senda inn athugasemdir, sjónarmið og viðbætur við fyrirliggjandi drög að skýrslu frá starfshópi um skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar.

Hvaða möguleika munu íbúar fá til að hafa áhrifa á áframhaldandi vinnu við skipulagsgerðina?

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þær tillögur sem þegar hafa verið birtar eru tillögur arkitektastofa. Tillaga starfshóps leggur til að arkitektastofa vinni áfram m.a. skv. forskrift starfs­hópsins að deiliskipulagi miðbæjarins. Við þessa vinnu er lagt upp með að arkitektastofa horfi til þeirrar upp­byggingar og þróun­ar sem nú á sér stað á Flensborgarhöfn og Hraun vestur. Fyrirliggjandi hugmyndir eiga eftir að taka breytingum, þróast og mótast. Mikil vinna við skipulag miðbæjarins á eftir að eiga sér stað og munu íbúar geta tekið virkan þátt í þeirri vinnu samanber ákvæði skipulagslaga þar að lútandi.

Af hverju var vikið frá þeim kynn­ingarferli sem boðaður var af skipu­lags- og byggingarráði í febrúar 2018?

Því miður hefur vinna við skipulag miðbæjar dregist og skilaði starfshópur um skipulagið, sem tók til starfa 28. mars 2019, drögum að skýrslu nú frá sér í ágúst 2019. Frá því að minnisblað um kynningarferli var lagt fram í ráði 9. febrúar 2018 þá hafa þrjár arkitekta­stofur verið fengnar til að leggja fram hugmyndir sínar og Arkitektastofan Teikn síðan búin að leggja mat sitt á þær hugmyndirnar.

Kynningarfundur

Opinn fundur fyrir íbúa og aðra áhugasama verður haldinn þriðjudaginn 17. september kl. 17.30-18.30 í Bæjarbíói. Þar geta gestir lagt sitt mat á aðferðafræðina nú á upphafsstigunum, reifað hugmyndir sínar og tekið þátt í umræðu um framtíð miðbæjarins.

Þormóður Sveinsson skipulagsfulltrúi mun fara yfir hugmyndir arkitektastofanna og skipulagsferlið í heild sinni. Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður starfshóps um skipulag miðbæjarins, mun segja frá tillögum hópsins og drögum skýrslu og Kári Eiríksson, arkitekt og fulltrúi íbúa í starfshóp, mun leiða vinnufund þar sem gestir geta viðrað hugmyndir sínar og skoðanir.

Sendu inn ábendingar

Hægt er að senda inn ábendingar á samráðsvettvanginum Betri Hafnarfjörður, í tölvupósti á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is eða bréfleiðis til Hafnarfjarðarbæjar, Strandgötu 6, 220 Hafnarfirði til og með 20. september 2019.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2