Samþykkt að fjölga íbúðum um 60% á nýsamþykktu þéttingarsvæði

Enn er rifist um skipulagsmál í Hafnarfirði

Hrauntunga 5 er lóð þar sem nú stendur hús sem m.a. er nýtt af vinnuskóla Hafnarfjarðar

Þann 24. febrúar sl. gerði Höfn ehf, tilboð í Hrauntungu 5 þar sem nú stendur hús sem Hjálparsveit skáta byggði á sínum tíma. Bæjarstjórn samþykkti nýtt deiliskipulag fyrir lóðina 12. júní 2019 þar sem gert var ráð fyrir 5 íbúðum og að byggt yrði skv. nokkuð stífum skipulagsskilmálum. Bauð Höfn efh. 56,3 milljónir kr. í lóðina með fyrirvara um fjármögnun. Var tilboðið eina tilboðið sem barst og var kynnt á fundi bæjarráðs 27. febrúar sl. þar sem bæjarstjóra var falið að ræða við tilboðsgjafa. Það er svo ekki fyrr en 22. apríl að bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tilboðinu verði tekið.

Bæjarstjórn tók þessu tilboði með staðfestingu á fundi bæjarstjórnar 29. apríl sl. þar sem Bak Höfn ehf hafði framselt tilboðið til GS Húsa ehf, félags í eigu sömu aðila og tilboðsgjafa og var lóðinni úthlutað til GS – Húsa ehf., kt. 641007-0990.

Tillaga um deiliskipulagsbreytingu rúmum mánuði áður en lóðinni er úthlutað

Deiliskipulagsbreytingin sem gerir ráð fyrir fjölgun úr 5 í 8 íbúðir.

Strax 11. mars sl. liggja fyrir nýjar tillögur GS Húsa um breytingu á deiluskipulagi lóðarinnar, fjölgun úr 5 í 8 íbúðir og voru óskir um það teknar fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 24. mars. sl. þar sem ráðið tók jákvætt í erindið.

Í gildandi skipulagi frá 2019 var gert ráð fyrir tveimur parhúsum og einu einbýlishúsi en í nýju tillögunum er gert ráð fyrir tveimur þríbýlishúsum og einu parhúsi. Fer byggingarmagnið úr 800 m² í 953,7 m² eða um 19,2% og lóðin stækkar um 13,8 m².

Fer nýtingarhlutfall lóðar úr 0,34 í 0,41 en ekki 0,4 eins og kemur fram á deiliskipulagstillögunni.

Breytingar á hæðarpunktum skv. skýringu arkitekts lóðarhafa.

Breytinging samþykkt

Skipulags- og byggingarráð samþykkti á fundi sínum í morgun deiliskipulagsbreytinguna og vísaði erindinu til staðfestingar bæjarstjórnar í samræmi við skipulagslög.

Fulltrúi Samfylkingarinnar minnti í bókun á að gildandi deiliskipulag fyrir Hrauntungu 5 sem samþykkt var í bæjarstjórn 12. júní, 2019, hafi verið unnið í nánu samráði við íbúa á svæðinu.

„Það sótti innblástur í húsagerðahefð í Hafnarfirði frá ýmsum tímabilum, samtímis því að vísa til nútímans með það að morkmiði að tengja byggingarnar við staðinn sem þær eru byggðar og um leið styðja við fallega götumynd. Núverandi deiliskipulagstillaga gerir það ekki enda um allt aðra húsagerð að ræða og einnig er verið að verið að fjölga íbúðum og bílastæðum og þá getur breytt húsagerð haft áhrif á skuggavarp. Allt þættir sem íbúar gerðu athugsemdir við á sínum tíma. Því miður er þetta enn eitt dæmið um hringlandann hjá meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarmálum sem bitnar nú einkum á íbúum svæðisins sem þurfa að ganga enn einu sinni í gegnum deiliskipulagsbreytingar á lóðinni,“ segir í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar segir að fulltrúi Samfylkingar ásamt öðrum fulltrúum ráðsins hafi tekið jákvætt í erindið á fundi 24. mars sl. þar sem gert væri ráð fyrir nýtingarhlutfall lóðar yrði óbreytt 0,4.

„Enn og aftur verður stefnubreyting hjá Samfylkingunni á undraskömmum tíma og í stað þess að viðurkenna slíkt og eigin vandræðagang innan sinna raða; er bent á meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Slíkur vandræðagangur og vinnubrögð dæma sig sjálf.“

Mótmælti fulltrúi Samfylkingarinnar þessu og benti á að hann hafi haft athugasemdir við fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu frá því að þær komu fram fyrst en nú liggi fyrir endanlega tillaga í málinu. „Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga er enn eitt dæmið um stefnuleysi meirihlutans í skipulags- og byggingarmálum í Hafnarfirði, en innan við ár er síðan samþykkt var í ráðinu ítarleg tillaga fyrir lóðina, sem núna er að engu haft. Minnt er á að góð sátt náðist við íbúa svæðsins um gildandi deiliskipulag, sem nú er í upplausn. Þetta eru ekki góð vinnubrögð og ekki til þess fallin að skapa traust íbúa til skipulagsmála í Hafnarfirði,“ segir að lokum í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar.

Skipulagstillagan

Ummæli

Ummæli