Samfylkingin hefur óskað eftir endurtalningu eftir að hafa misst 0,45% atkvæða og einn bæjarfulltrúa

Næst lélegasta kjörsókn á landinu var í Hafnarfirði!

Niðurstöður úr kosningum 2018

Þegar næst síðustu tölur komu frá yfirkjörstjórn í Hafnarfirði leit allt út fyrir að fjöldi Samfylkingar yrði óbreyttur, þrír, en tæpt var með 5. bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Þegar síðustu tölur komu hafði Samfylkingin misst sinn þriðja mann en Sjálfstæðisflokkur náð inn sínum fimmta manni.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 5,9% af fylgi sínu frá 2014 en héldu þó sínum fimm bæjarfulltrúum á meðan Samfylkingin tapaði aðeins 0,45% af sínu fylgi en tapaði þriðjungi bæjarfulltrúa sinna.

Aðeins þurftu í mesta lagi 6 atkvæði að hafa flust frá Sjálfstæðisflokki til Samfylkingar til að Samfylking hefði fengið þrjá en Sjálfstæðisflokkur fjóra eða að 10 til viðbótar hefðu mætt á kjörstað og stutt Samfylkinguna, svo mjótt var á munum.

Afhroð Vinstri grænna

Vinstri hreyfingin grænt framboð er þó sá flokkur sem tapaði mestu fylgi í Hafnarfirði, 42,7% af fylgi sínu og sínum eina bæjarfulltrúa. Hefur fylgi VG hrapað mikið því það minnkaði um 20% af sínu fylgi í kosningunum 2014. þó vantaði ekki nema 5 atkvæði að VG héldi sínum manni inni á kostnað 5. manns Sjálfstæðisflokksins.

Samfylkingin og VG hafa því óskað eftir endurtalningu atkvæða.

Framsókn og óháðir náðu inn manni

Framsóknarflokkurinn hefur ekki átt mann í bæjarstjórn Hafnarfjarðar síðan um aldamót og í síðustu kosningum fékk flokkurinn 6,7% atkvæða og var ekki mjög langt frá því að ná inn manni. Nú fékk flokkurinn 8% atkvæða, 23,1% meira en í síðustu kosningum og náðu inn einum bæjarfulltrúa.

Miðflokkurinn, Viðreisn og Bæjarlistinn náðu inn manni hver

Viðreisn kom sennilega mest á óvart með 9,5% atkvæða og er fékk flokkurinn þriðja mesta fylgið í Hafnarfirði í sínu fyrsta framboði í bænum. Náði flokkurinn inn einum manni.

Bæjarlistinn náði einnig inn einum manni, Guðlaugu Kristjánsdóttur sem áður var í Bjartri framtíð. Hefur hún legið undir ásökunum um brot á sveitarstjórnarlögum í starfi sínu sem forseti bæjarstjórnar og eru mál til rannsóknar hjá sveitarstjórnarráðuneytinu sem ekki hafði verið úrskurðað í fyrir kosningar.

Miðflokkurinn náði einnig inn manni og 28 atkvæðum meira en Bæjarlistinn.

Arfaslök kosningaþátttaka

Kjörsókn í Hafnarfirði var 58,1%, sú næst lélegasta á öllu landinu og hlýtur það að vera áhyggjuefni hversu lítill áhugi er á stjórnmálum í Hafnarfirði.

Síðast var kjörsóknin 60,6% og hafði þá lækkað í hverjum kosningum frá því 1970 er kjörsóknin var um 90%.

Hljóta stjórnmálaflokkarnir að þurfa að líta í eigin barm og skoða hvað valdi þessum minnkandi áhuga.

 

 

Ummæli

Ummæli