fbpx
Þriðjudagur, mars 5, 2024
HeimFréttirPólitíkBjart framundan á nýju ári

Bjart framundan á nýju ári

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar

Í upphafi nýs árs er vert að horfa fram á veginn, til þeirra fjölmörgu áskorana og tækifæra sem við okkur Hafn­firðingum blasa. Úttekt og umbætur á  rekstri og bjart framundan á nýju ári

Í upphafi nýs árs er vert að horfa fram á veginn, til þeirra fjölmörgu áskorana og tækifæra sem við okkur Hafnfirðingum blasa. Úttekt og umbætur á  rekstri og fjármálum bæjarins hefur farið fram sem og greining þeirra verkefna og upp­bygg­ingar sem æskileg er á komandi misserum og árum. Vel tókst til við að endur­skipuleggja fjárhaginn og tryggja undirstöður hans. Framundan er vöxtur og efling bæjarins enda ætlum við að koma Hafnarfirði í fremstu röð sveitarfélaga landsins í öllu tilliti.

Gjöld lækkuð

Um áramót lækkaði útsvar í Hafnar­firði og er nú í fyrsta sinn í 18 ár ekki inn­heimt hámarks útsvar. Álagn­ingar­prósenta fasteignaskatts á íbúðahúsnæði lækkaði einnig, til að koma til móts við hækkað fasteignamat, sem og holræsa- og vatnsgjald. Dagvistargjöld á leik­skólum haldast óbreytt fjórða árið í röð, niðurgreiðslur frístundastyrkja og vegna barna hjá dagforeldrum aukast, systkinaafsláttur hækkar og innritunar­aldur barna á leikskóla heldur áfram að lækka. Allt eru þetta jákvæð merki þess að við erum á réttri leið.

Þjónusta efld og fram­kvæmdir á döfinni

Áfram verður unnið að innleiðingu og endurnýjun tölvubúnaðar í skól­um. Áhersla á bættan námsárangur held­ur áfram, undirbúningsstundum leikskóla­kennara verður fjölgað og umtalsvert meira fé verður varið í ýmis verkefni á fræðslusviði til að efla enn frekar metn­aðarfullt skólastarf í bæn­um. Einnig er auknum fjármunum var­ið til almennrar hreinsunar og um­hirðu, eins og sópun gatna, snjó­mokstur og grasslátt.

Áhersla er nú lögð á ráð­deild og er eingöngu fram­kvæmt fyrir eigið fé. Af fram­kvæmdum á árinu ber hæst upp­bygging fyrsta hluta nýs íbúðahverfis í Skarðshlíð, þar sem úthlutað hefur verið fjölbýlishúsalóðum fyrir um 200 íbúðir og smíði nýs hjúkr­unarheimilis við Sólvang í samstarfi við ríkið. Einnig hefjast fram­kvæmdir við nýjan leik- og grunnskóla í Skarðshlíð, íþróttaæfinga- og kennslu­sal hjá Haukum á Ásvöllum og endur­nýjun gervigrass hjá FH í Kaplakrika. Einnig verður húsið Dverg­ur við Lækj­ar­götu 2 rifið og félagslegum íbúðum fjölgað til muna.

Þessa dagana er annar hluti upp­bygg­ingar í Skarðshlíð í skipulagsferli en ráðgert er að lóðum undir einbýli og önnur sérbýli verði úthlutað þar fyrir vorið. Unnið er að skipulagsbreytingum í eldri hverfum bæjarins, meðal annars á Hraunum, til þéttingar byggðar. Mikil­vægt er að haldið verði áfram að skipu­leggja ný svæði fyrir íbúðabyggð, og kem­ur þá Hamranesið helst til greina, til að anna þeirri miklu eftirspurn sem nú er.

Birtir yfir Hafnarfirði

Hafnarfjörður hefur allt til að bera til að halda áfram að vaxa og dafna og hlúa um leið að sinni sérstöðu. Tæki­færin eru til staðar og það sjá einkaaðilar og aðrir sem áforma uppbyggingu hér. Sala atvinnulóða hefur tekið kipp að undanförnu sem er mjög jákvæð þróun. Stefnt er að því að skóflustunga að nýju, myndarlegu hóteli í miðbænum verði tekin innan fárra mánaða og þá hefur Hafrannsóknarstofnun ákveðið að flytja starfsemi sína á hafnarsvæðið okkar. Það eru góðar fréttir. Allt þetta og fleiri áform munu án efa hafa samlegðaráhrif í bæjarfélaginu og skapa atvinnutækifæri sem og enn frekari möguleika fyrir ýmis konar verslun og þjónustu.

Við erum á réttri leið í Hafnarfirði. Það hefur birt yfir bænum. Vil ég óska Hafn­firðingum gleðilegs og gæfuríks árs.

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs og fræðsluráðs.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2