Öll fimmtán mánaða börn hafa fengið leikskólapláss, eru í aðlögun eða eru að hefja hana en innritun barna í leikskóla Hafnarfjarðarbæjar hefur sjaldan ef nokkurn tímann gengið betur skv. tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
25 umsóknir um leikskólapláss bárust í sumar og hafa þau börn einnig fengið boð um pláss. Um 40 pláss standa eftir til ráðstöfunar og er þegar hafin vinna við að bjóða 14 mánaða börnum, fæddum í júlí, plássin.
Stolt af árangrinum
„Markvisst starf okkar hér í Hafnarfirði við að bæta vinnuumhverfi starfsfólks hefur skilað þessum árangri. Við erum stolt af því,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri.
„Við bjóðum leikskólakennurum samkeppnishæfan vinnutíma við grunnskóla. Ófaglærðir fá hærra en kjarasamningar kveða á um. Við höfum stutt fólk til að mennta sig og bjóðum fjölda fríðinda,“ segir Valdimar. Það hafi leitt til þess að hlutfall faglærðra hafi hækkað.
„Okkur gekk vel að manna í fyrra en getum þó sagt að ráðningar á leikskóla bæjarins hafa aldrei gengið betur en nú.“
Aðgerðirnar hafa virkað
Fræðluráð hittist í dag og fór yfir stöðuna. „Við erum himinlifandi að sjá að aðgerðir okkar í ráðningamálum hér í Hafnarfirði síðustu misseri hafa borið árangur,“ segir Valdimar. „Staðan er fáheyrð.“
Auglýst er eftir einum leikskólakennara í 17 leikskólum Hafnarfjarðarbæjar og ráða þarf í 3-4 kennarastöður í grunnskólum bæjarins. Auk þess er leitað að þremur í afleysingar til að mæta fjarveru í níu grunnskólum Hafnarfjarðar. Þar starfa um 450 kennarar þetta skólaárið. Þá starfa um 500 starfsmenn í leikskólunum Hafnarfjarðar en rétt tæplega 370 við kennslu.
„Þessar auglýsingar eru eðlilegar í ljósi umfangsins,“ segir Valdimar. Þétt utanumhald í starfsmannamálum, möguleikar á starfsþróun, aukinn sveigjanleiki í starfi og hærri laun séu lykilinn af þessum árangri.
„Staðan nú kallar á að við stöndum á tánum, vegum reglulega stöðuna og bregðumst við ef við sjáum hreyfingu í ranga átt,“ segir Valdimar í tilkynningu.