Meirihluti skipulags- og byggingarráðs skorar á stjórnvöld að tryggja raforkuöryggi með hagsmuni íbúa og fyrirtækja að leiðarljósi

Segja að kæra frá Hraunavinum og Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands sé ástæða þess að línan sé ekki komin upp

Með tilkomu Lyklafellslínu færi Hamraneslína sem hér sést á Bleikasteinshálsi.

Álit Skipulagsstofnunar á valkostagreiningu og mati á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2 var tekið til umræðu á fundi skipulags- og byggingarráðs í morgun.

Ráðið tekur greinilega ekki afstöðu til álits Skipulagsstofnunar sem taldi jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut væri besti kosturinn en ekki jarðstrengur að hluta innan Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar og lína þar á milli eins og fyrsti kostur Landsnets er.

Þess í stað er birtur eftirfarandi texti í fundargerð sem ætla má að sé bókun fulltrúa meirihluta í ráðinu sem aftur má ætla að sé bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þó það komi hvergi fram í fundargerðinni.

Þar kemur m.a. fram að meirihluti skipulags- og byggingarráðs skori á stjórnvöld að tryggja raforkuöryggi með hagsmuni íbúa og fyrirtækja að leiðarljósi. Segja þeir flókið og erfitt regluverk einkenna þennan málaflokk.

„Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 gerir ráð fyrir að Suðurnesjalína 2 tengist frá Hamranesi að tengivirki í Hrauntungum. Hluti leiðarinnar næst byggð verður lagður í jarðstreng eða alls 2.290 m. Frá Hrauntungum er gert ráð fyrir að Suðurnesjalína 2 fari í loftlínum um þegar raskað hraun að hluta.

Jarðstrengur frá Hrauntungum að sveitarfélaginu Vogum mun valda mikilli röskun á hrauni og fara yfir fornminjar á þeirri leið.

Raforkuöryggi í Hafnarfirði er nokkuð gott óháð Suðurnesjalínu 2 fyrir utan að bilun á Suðurnesjalínu 1 getur mögulega valdið útleysingum á höfuðborgarsvæðinu. Fari svo að MF1 (lína á milli Rauðamels og Fitja) bili getur það valdið yfirlestun með útslætti og rafmagnsleysi m.a. í Hafnarfirði. Með tilkomu Suðurnesjalínu 2 verður raforkuöryggi Hafnfirðinga bætt hvað það varðar. Samkvæmt upplýsingum Landsnets getur orðið kerfishrun á Suðurnesjum við bilun á Suðurnesjalínu 1.

Meirihluti skipulags- og byggingarráðs bendir á að undirbúningur fyrir Suðurnesjalínu 2 hófst árið 2006 og nú 14 árum síðar er staða línunnar á byrjunarreit. Einnig má benda á samkomulag á milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Landsnets um niðurrif Hamraneslínu, nýja Lyklafellslínu og flutnings á Ísallínum fjær byggð. Samkvæmt samkomulaginu væri ný Lyklafellslína komin í notkun, búið væri að fjarlægja Hamraneslínu frá Hamranesi að Sandsskeiði og færa Ísallínur ef ekki hefði komið til kæru á framkvæmdarleyfi frá Hraunavinum og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands.

Benda má á að aðalskipulag allra sveitarfélaga sem Lykklafellslína og Suðurnesjalína 2 liggja um hafa verið samþykkt með þeim línum.

Meirihluti skipulags- og byggingarráðs skorar á stjórnvöld að tryggja raforkuöryggi með hagsmuni íbúa og fyrirtækja að leiðarljósi. Flókið og erfitt regluverk einkennir þennan málaflokk.“

Ummæli

Ummæli