Ljósleiðarinn á leið í síðustu hverfin í Hafnarfirði

„Ein heimsókn“ er þjónusta sem hefur fengið alþjóðleg verðlaun

Jóhann Sveinn Sigurleifsson hjá Gagnaveitu Reykjavíkur

Verktakar vinna nú hörðum höndum við að leggja rör fyrir ljósleiðara í Hafnarfirði en flest hverfi eru þegar tengd. Menn taka eftir að nú er aðeins grafinn einn skurður og tvö rör lögð inn í hvert hús en Gagna­veitu Reykjavíkur og Mílu var gert að sameinast um skurði til að minnka rask í götum og í lóðum íbúanna. Þurfut fyrirtækin reyndar að sækja um leyfi frá Samkeppnisstofnun til þessa samstarfs og fékkst það leyfi fyrr á árinu.

Flest hverfi í Hafnarfirði eru þegar komin með ljósleiðara­tengingu og því spennandi að vita hvenær allir bæjarbúar eigi þess kost að tengjast ljósleiðaranum.

Jóhann Sveinn Sigurleifsson er í framkvæmdastjórn Gagna­veitu Reykjavíkur, hefur búið í Hafnarfirði alla sína ævi og svar­aði spurningum Fjarðar­frétta um ljósleiðara­væðinguna í Hafnarfirði.

Hvaða hverfi er enn eftir að tengja í Hafnarfirði og hvenær reiknið þið með því að ljúka tengingum?

Við vinnum nú fullum fetum að því að klára síðustu hverfin í Hafnarfirði og eigum raunar aðeins eftir að tengja heimili í Setbergi og hluta af Völlunum. Við erum að klára að ljós­leiðara­væða allt þéttbýli höf­uð­borgarsvæðisins við lok þessa árs. Því ættu öll heimili í þéttbýli Hafnarfjarðar að hafa kost á Ljósleiðaranum í árslok.

Enginn kostnaður

Jóhann Sveinn segir fram­kvæmdir í Hafnarfirði hafi gengið mjög vel, enda tekið vel á móti framkvæmdaraðilum í hví­vetna. Segir hann lagningu ljós­leið­arans vera íbúum að kostnaðarlausu og auki val­mögu­leika og lífsgæði þeirra sem nýta ljósleiðarann.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir íbúa að geta tengst ljósleiðaranum?

Ég er auðvitað ljósleiðara­maður út í eitt og var raunar áður en ég hóf störf við ljós­leiðarann og tel það grund­vallarlífsgæði að hafa ljós­leiðaratengingu. Gott dæmi um það er að við fjöl­skyldan fluttum fyrir 2 og hálfu ári og við skoðuðum aðeins eitt hús þar sem ljósleiðarinn var ekki kominn inn. Það hús varð ekki fyrir valinu heldur núverandi ljósleiðaratengt hús á Völl­unum. Með ljósleiðar­anum opn­ast möguleikar á að nýta fullum fetum öll þau gæði sem Netflix og önnur sam­bærileg þjónusta hefur upp á að bjóða án þess að hafa áhyggjur af því að önnur þjón­usta tak­markist á meðan. Á stórum heimilum, með Eitt gíg þjón­ustu, geta þannig allir heimilismeðlimir horft á 4K UHD efni samtímis án þess að það hafi of takmarkandi áhrif á netnotkun sem oft fer fram samtímis. Það kannast flestir við það multitasking sem við gerumst öll sek um, horfandi á þátt og skoðandi Facebook eða annað viðlíka í snjall­tækj­unum á sama tíma.

Rör fyrir ljósleiðara lögð í Klukkuberg

„Ein heimsókn“

Í sumum tilfellum þarf að breyta lögnum innanhúss en þá erum við með snillinga í vinnu hjá okkur sem afgreiða það við uppsetningu á ljós­leiðaraboxinu. Þessi þjónusta sem við köllum Ein heimsókn hefur fengið alþjóðleg verð­laun. Í heimsókninni er allt klárað sem viðkemur virkjun Ljósleiðarans auk tengingar við beini (e. router), heimasíma og myndlykil þar sem hann er til staðar. Viðskiptavinur Ljós­leiðarans verður ekki fyrir neinum kostnaði vegna upp­setningar og borgar einungis mánaðargjöld fyrir fjar­skiptaþjónustu um Ljósleið­arann.

Verður ljósleiðaratenging mikið dýrari fyrir íbúa?

Ljósleiðaratenging er og hefur verið á samkeppnis­hæfum verðum við aðrar tengingar. Því ætti ekki að vera kostn­aðaraukning hjá þeim sem uppfæra þjónustuna frá öðrum leiðum. Ég hvet alla til að prófa Ljósleiðarann og upplifa Eitt gíg í báðar áttir enda er Ljósleiðarinn fyrir mér eins og áður kom fram grundvallar lífsgæði sem allir ættu að njóta og sést einnig á markmiðum ríkisstjórnarinnar um „Ísland ljóstengt“.