Hverju svörðuðu oddvitarnir?

Oddvitar stjórnmálaflokkanna fengu fimm spurningar í aðdragandi kosninganna 14. maí nk.

Oddvitar flokkanna sem bjóða fram í Hafnarfirði 2022

Fjarðarfréttir lagði fimm spurningar fyrir oddvita stjórnmálaflokkanna í aðdragandi kosninga í Hafnarfirði. Áhugavert hefði verið að fá svar við miklu fleiri spurningum en bæjarbúar eru hvattir til að leita uppi stefnuskrár flokkanna og sjá þar hverju stefnt er að.

Spurt er um þrjú helstu stefnumál flokkanna og þó erfitt geti verið að taka þrjú mál út úr er þó alltaf eitthvað sem flokkarnir vilja leggja sérstaka áherslu á.

Spurt er um bæjarstjóraefni og þá er líka verið að fiska eftir því hvort flokkar muni vilja ráða faglegan bæjarstjóra í stað pólitísks en forseti bæjarstjórnar er æðsta pólitíska embættið og hefur sá sem það situr oft verið sá sem kemur fram út á við fyrir hönd sveitarfélagsins.

Þá er spurt um hvort flokkurinn muni stefna að samstöðupólitík, þar sem ekki er byrjað á því að skipa kjörnum full­trúum í minni- og meirihluta sem í raun er hvergi stoð fyrir í sveitarstjórnar­lögum.

Spurt er um hvort flokkurinn styðji byggingu stórskipahafnar í landi Óttastaða. Það kallar á gríðarlegt rask á hrauni og minjum og síðar mikla umferð flutningabíla í gegnum bæinn en skapar á móti möguleika á miklum tekjum.

Að lokum er spurt hvort flokkurinn styði gerð gangna undir Setbergs­hamarinn til að létta á innanbæjarum­ferð á vegakaflanum frá Lækjargötu að Kaplakrika.
Oddvitarnir fengu svo að skrifa nokkrar línur til kjósenda.

Davíð Arnar Stefánsson, oddviti VG

Vinstri græn – V

Helstu stefnumál

1. Að gera Hafnarfjörð að fyrirmynd í lofts­lagsmálum. Grípa til beinna aðgerða strax í loftslagsmálum með skýrri stefnu um sjálfbæra nýtingu auðlinda, vernd og endurheimt vistkerfa og skilvirku hring­rásarhagkerfi. Stöðva útþenslu byggð­arinnar og að allar bygg­ingafram­kvæmdir miði að því að fyrirbyggja mengun og lágmarka rask náttúru og lífvera. Gera átak í vistvænum sam­göng­um og flýta Borgar­línu samhliða gerð hjólreiðaáætlunar fyrir bæinn.

2. Gera betur í málefnum ungs fólks. Leikskólinn á að vera gjaldfrjáls og lög­bundið hlutverk sveitafélaganna og SMT kerfið valkvætt svo grunnskólar geti mót­að sína stefnu sjálfir. Nauðsynlegt er að sálfræðingur sé í hverjum skóla og bæta þarf aðgengi að sérfræðingum inni í skól­unum. Hlutverk ungmennahúsa á að vera lögbundið hlutverk sveitarfélaga og koma þarf á fót verk- og nýsköpunar­mið­stöð ungs fólks. Finna Brettafélagi Hafnar­fjarðar framtíðarheimili.

3. Tryggja öllum góða þjónustu. Gera betur í málefnum fatlaðs fólks og annarra jaðarsettra hópa. Það þarf að taka sér­staklega utan um fólk með fíknisjúkdóma með eftirfylgni og húsnæðislausnum. Sam­þætta þarf heimaþjónustu og heima­hjúkrun eldra fólks og sjá til þess að þjón­ustan sé á þeirra forsendum. Byggja þarf íbúðir sem henta fyrstu og síðustu kaupendum með stofnun óhagnaðar­drif­inna leigu- og byggingafélaga að frum­kvæði bæjarins.

Bæjarstjóraefni

VG vill ráða hæfan, framsýnan og óháðan bæjarstjóra.

Styður flokkurinn „samstöðupólitík“?

Það er útbreiddur misskilningur, sérstaklega meðal stjórnmálafólks, að það verði að mynda meirihluta og þ.a.l. minnihluta líka. Bæjarfulltrúum er fyrst og fremst gert að vinna saman og hafa til þess margar leiðir, þ.m.t. sam­stöðu­pólitík. Ef bæjarfulltrúar í nýrri bæjar­stjórn komast að samkomulagi um eng­an minni- eða meirihluta þá styður VG það vitanlega.

Stórskipahöfn í landi Óttastaða?

Nei, það gerir VG ekki, heldur leggur til að Hafnarfjörður hafi frumkvæði að friðlýsingu Hrauns í Almenningi vestan Straumsvíkur, þ.m.t. Óttarstaða, á for­sendum náttúru- og minjaverndar, og útivistargildis, í samvinnu við Voga, landeigendur og aðra hagsmunaaðila.

Göng undir Setbergshamarinn

VG er umhverfis- og náttúruverndar­flokkur og samgöngur eru eitt stærsta umhverfismál samtímans og fram­tíð­arinnar. Reykjanesbrautin er um­­ferða­hnútur sem verður að leysa og göng undir Setbergið mögulega góður kostur. Jafnframt teljum við löngu tímabært að leggja á ráðin um lestarsamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, neðan jarðar á köflum og kannski undir Setbergs­hamarinn.

Til kjósenda:

Farið á kjörstað og kjósið. Sendið frambjóðendum skilaboð og sýnið vilja ykkar í verki. Að vera bæjarfulltrúi er fyrst og fremst þjónustuhlutverk við bæjar­búa og bæjarfulltrúar þurfa leið­beiningar um hvernig íbúar vilja hafa bæ­inn. Við í VG erum til þjónustu reiðubúin.

Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar.

Samfylkingin – S

Helstu stefnumál

a. Við viljum sjá öfluga og jafna uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í bænum, þar sem fjölbreytt íbúðaform er í boði. Og fá í stórauknum mæli aðila sem starfa á félagslegum grunni í íbúðabyggingum, óhagnardrifið. Fólksfjölgun í bænum verði þannig jöfn og stígandi, en aldrei verði aftur íbúðafækkun í bænum eins og gerðist fyrir tveimur árum.

b. Leikskólamálin verði lagfærð með myndarlegum hætti. Bætt starfsumhverfi og kjör starfsfólks leikskóla, nýir leikskólar byggðir. Samhliða verði brúað bilið fyrir börn á aldrinum 12-20 mánaða, sem ekki hafa komist inn á leikskóla. Það verði gert með byggingu heimilis fyrir ungbarnadagvistun og stuðningi við dagforeldra.

c. Íbúðalýðræði í raun og náin samvinna við bæjarbúa, samtök og atvinnulíf. Stjórnmálamenn eru í þjónustustörfum og stjórnkerfi bæjarins sömuleiðis. Þarf að svara og bregðast við erindum bæjarbúa fljótt og vel.

Bæjarstjóraefni?

Jafnaðarmenn eru reiðubúnir til að taka við stjórn bæjarins að afloknum kosn­ing­um 14. maí næstkomandi og leiða nýj­an meirihluta til góðra verka. Væntanlega þurfa tveir eða fleiri flokkar að koma að meirihlutamyndun og um stór og lítil mál þarf að ná samkomulagi, þám. ráðning bæjarstjóra. Fyrir liggur að oddviti Sam­fylkingarinnar er reiðubúinn til að takast á hendur það verk að gegna starfi bæjar­stjóra. En kosningaúrslit ráða för í þeim efnum sem öðrum. Jafnaðarmenn eru klárir í bátana.

Styður flokkurinn „samstöðupólitík“?

Það er ekki sérstaklega á dagskrá.

Stórskipahöfn í landi Óttastaða?

Næsta stórverkefni í hafnargerð er væntanlega stórskipahöfn sjávarmegin við álverið, út af því, en ekki handan Straumsvíkur. Það verk styðjum við. Við sjáum hins vegar Óttarstaðalandið og nálæg svæði sem framtíðar­bygg­ingarsvæði Hafnfirðinga – meðfram ströndinni suðvestur af Straumsvík. Þeir möguleikar verða nálægir, ekki síst eftir að tvöföldun Reykjanesbrautar að bæjarmörkum, hefur orðið að veruleika.

Göng undir Setbergshamarinn?

Þær hugmyndir sem Vegagerðin hefur sett fram um vegabætur á Reykjanesbraut, þar á meðal jarðgöng undir Setbergs­hamar, eru á frumstigi. Mismunandi leið­ir, jarðgöng/vegur í stokk. Jafnaðar­menn útiloka ekkert í þeim efnum, en málið er á frumstigi. Jarðgangna­hug­myndin í gegnum Setbergshamarinn er róttæk og þarf ýtarlega gagnrýna skoðun. Mikilvægt er að framkvæmdir taki sem stystan tíma, þegar af stað verður farið. En þessar vegabætur þola enga bið. Við munum skoða valkosti ofan í kjölinn. En í þessu samhengi verður að nefna sam­hliða nauðsyn á gerð Ofanbyggðarvegur. Hann þarf að verða að veruleika hið allra fyrsta til að dreifa álagi um stofnvegi til og frá Hafnarfirði. En þar er við ríkið að etja eins og í öðrum stórum vegabótum af þessum toga. Þar þarf að þrýsta á.

Til kjósenda:

Við jafnaðarmenn erum klárir í verkin. Það þarf nýja stjórnendur í Hafnarfirði. Núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks­ins er þrotinn kröftum. Hann þarf að leysa af hólmi. Hafnfirðingar hafa sýnt það í gegnum tíðina, að meirihluti þeirra treysta jafnað­ar­mönnum til verka með góðum árangri. Við viljum láta verkin tala og horfum bjartsýn fram á veg. Hafnarfjörður er fyrir alla bæjarbúa. Vertu með okkur í liði. XS að sjálf­sögðu!

Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar

Framsókn – B

Helstu stefnumál

a. Halda áfram þeirri kröftugu upp­byggingu fjölbreytts húsnæðis líkt og hafin er í Hamranesi og á þéttingarreitum víðsvegar um bæinn.

b. Halda áfram að þróa og nútíma­væða þjónustu við íbúa og styðja vel við bakið á fjölskyldufólki, t.d. með því að halda áfram á þeirri vegferð að skóla­máltíðir í grunnskólum verði að fullu gjaldfrjálsar.

c. Innleiða samning Sameinuðu þjóð­anna um réttindi fatlaðs fólks og hafa hann að leiðarljósi í öllu starfi með fötluðu fólki.

Bæjarstjóraefni

Ég er oddviti flokksins hér í Hafnar­firði. Við þurfum auðvitað að sjá hver niður­staða kosninganna verður og mun­um vinna með þá niðurstöðu í þessu máli eins og öðrum í samvinnu við aðra flokka.

Styður flokkurinn „samstöðupólitík“?

Ég hef unnið vel með öllum flokkum sem formaður fjölskylduráðs á kjör­tímabilinu. Við í Framsókn erum miðju- og samvinnuflokkur og munum leggja mikið upp úr samvinnu og sam­starfi í bæjarstjórn.

Stórskipahöfn í landi Óttastaða?

Í gildandi aðalskipulagi er búið að taka frá land fyrir slíka höfn og við styðjum uppbyggingu stórskipahafnar í landi Óttastaða.

Göng undir Setbergshamarinn

Ekki hægt að svara þessari spurningu já eða nei án frekari skýringa. Það er ljóst að þetta er kafli sem þarf að leysa og því ánægjulegt að í samgönguáætlun sé gert ráð fyrir 13,1 milljörðum króna í vegakafla Lækjargata – Álftanesvegur. Nú er ákveðin vinna farin að stað þar sem mismundi kostir eru kannaðir. Þetta er einn þeirra, en við þurfum að jafnframt að skoða aðra kosti til að fá bestu niðurstöðuna í málið hratt og vel.

Til kjósenda:

Kæri Hafnfirðingur. Kosningarnar snúast um það hverjum þú treystir til að fara með stjórn bæjarins. Við í Fram­sókn erum tilbúin í það verkefni og höfum á að skipa öflugu fólki sem vill vinna vel fyrir bæinn. Við ætlum að gera góðan bæ enn betri, komdu með okkur í þá vegferð.

Haraldur Rafn Ingvason, oddviti Pírata

Píratar – P

Helstu stefnumál

Píratar vilja efla gagnsæi, íbúalýðræði og borgararéttindi. Þetta viljum við gera með öflugum hverfisráðum og með því að efla samráðsvettvanginn Betri Hafnarfjörð. Með stofnun embættis umboðsmanns bæjarbúa tryggjum við að íbúar hafi málsvara í málum sínum gagnvart bænum.

Píratar eru með samþættar áherslur í aðgengis-, jafnréttis- og fjölmenningar­mál­um sem snúast um að virða mann­réttindi og tryggja mannlega reisn íbúa í Hafnarfirði. Þetta viljum við gera meðal annars með því að vinna aðgerðastefnu gegn kynjaðri mismunun og með því að koma á fjármálastefnu sem taki tillit til fjölbreytileika íbúa. Fatlað fólk þarf að njóta sama aðgengis og aðrir bæjarbúar og upplýsingar þurfa að vera að­­gengilegar á helstu tungumálum.

Að lokum vilja Píratar vinna markvisst að fjölskylduvænum Hafnarfirði. Þetta viljum við gera með því að styðja við frekari styttingu vinnuvikunnar, brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla og auka sveigjanleika í vistunartíma á leikskólum. Við viljum stórauka fræðslu barna um réttindi sín og málefni sem þau varðar, auk þess að bjóða upp á sveigjanlegri frístundastyrk. Við viljum innleiða hringrásarhagkerfi og stórefla uppsetningu heima og hraðhleðslustöðva, vernda græn útivistarsvæði og varðveita sérstöðu Hafnarfjarðar með því að styðja við fjölbreytni í hönnun og listum.

Bæjarstjóraefni

Píratar vilja faglega ráðinn og utanað­komandi bæjarstjóra. Ef niðurstaðan er flokks­pólitískur bæjarstjóri þá er sú staða ævinlega samningsatriði.

Styður flokkurinn „Samstöðupólitík“?

Eins og staðan er núna í bæjarmálum er slíkt samstarf ólíklegt, þar sem yfirlýst markmið núverandi minnihluta er að „gefa Sjálfstæðisflokknum frí“. Fordæmi fyrir slíku samstarfi eru þó þekkt og Píratar myndu vissulega taka þátt í því ef til kæmi. Píratar vinna að góðum málum hvaðan sem þau koma.

Stórskipahöfn í landi Óttastaða?

Afar litlar upplýsingar virðast liggja fyrir um þessa hugmynd. Í ljósi þess hvernig farið hefur um sumar hafnar­framkvæmdir í nágrannasveitar­félög­um, svo sem í Helguvík er ljóst að það þarf langt um meiri upplýsingar um þetta mál svo að hægt sé að taka um það upplýsta ákvörðun.

Göng undir Setbergshamarinn

Píratar vilja stuðla að fram­tíðar­skipulagi sem styður við fjölbreytta ferðamáta. Ef jarðfræðilegar aðstæður á svæðinu eru nægilega hagstæðar virðist þessi kostur afar álitlegur, sér í lagi vegna þess að væntanlega er truflun á umferð á framkvæmdatíma minni en við aðra framlagða kosti.

Til kjósenda:

Ég hvet fólk til að standa vörð um lýðræðið með því að mæta á kjörstað eða kjósa utankjörstaðar og jafnframt að ígrunda vel atkvæði sitt, því engin ástæða er til að láta gamlan vana ráða ferðinni. Píratar eru nútímavæddur flokkur með innihaldsríka stefnu og framúrskarandi fólk. Við erum tilbúin.

Sigurður Pétur Sigmundsson, oddviti Bæjarlistans

Bæjarlistinn – L

Helstu stefnumál

  1. Börn sem náð hafa 12 mánaða aldri fái leikskólavist.
  2. Ungt fólk hafi kost á því að kaupa ódýrt húsnæði.
  3. Bæta almennings- og hjólreiða­sam­göngur innanbæjar og í tengingu við nágrannasveitarfélögin.

Bæjarstjóraefni

Ef þessi möguleiki kæmi upp myndi ég af sjálfsögðu ekki skorast undan því. Ég myndi leggja mikinn metnað í það að standa mig vel sem bæjarstjóri. Hins vegar höfum við verið á þeirri skoðun að farsælast sé að ráða faglegan bæjar­stjóra.

Styður flokkurinn „Samstöðupólitík“?

Okkar óskastaða er sú að það væri enginn meiri- og minnihluti. Teljum að með þannig fyrirkomulagi myndi árangur af starfi bæjarfulltrúa verða mun meiri en í dag. Því miður fer allt of mikill tími og orka í óþarfa karp og bókanir sem skipta á endanum engu máli.

Stórskipahöfn í landi Óttastaða?

Við teljum að það eigi að skoða þennan möguleika í fullri alvöru. Hins vegar finnst mér spennandi kostur að íbúðabyggð þróist suður með strandlengjunni í fjarlægri framtíð.

Göng undir Setbergshamarinn

Nei, við teljum þann valkost ekki koma til greina. Samkvæmt upplýs­ing­um frá Vegagerðinni liggja jarðfræði­rannsóknir ekki fyrir. Líklega er um að ræða gisið hraunlag og þar með erfiðara við að eiga en ef um berg væri að ræða. Göngin þyrftu að vera um 1 km að lengd og myndu kosta lauslega áætlað um 22,4 milljarða króna með tengingum sem er dýrasta lausnin. Gatan í stokk virðist vera besti kosturinn en forsenda þess er að Álftanesvegurinn og/eða ofanbyggðarvegur verði að veruleika.

Til kjósenda:

Bæjarlistinn er óháð framboð sem lætur ekki stjórnast af hagsmunaöflum. Bæjarlistann skipar kröftugt fólk með víðtæka reynslu og þekkingu sem hefur brennandi áhuga á að vinna sem best að framfaramálum í Hafnarfirði. Við von­um, kjósandi góður, að við eigum sam­leið með þér. Að þú treystir okkur til að vinna fyrir þig og aðra Hafn­firðinga.

Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar

Viðreisn – C

Helstu stefnumál

Viðreisn leggur áherslu á að ná rekstri bæjarsjóðs í jafnvægi en hann hefur verið reikinn með 1,5 milljarði tapi á ári og skv. áætlun næstu ára. Þessu þarf að breyta. Vellíðan barna, kennara og starfsfólks skóla er forgangsmál og með það í huga ætlar Viðreisn að fjölga sérfræðingum innan skólakerfisins eins og sálfræðingum, talmeinafræðingum, þroskaþjálfum og iðjuþjálfum, ásamt því að koma upp mötuneyti í öllum skólum bæjarins. Í þriðja lagi þarf að tryggja jafnt framboð lóða til langs tíma.

Bæjarstjóraefni

Viðreisn vill ráða inn reynda rekstrarmanneskju í starf bæjarstjóra.

Styður flokkurinn „Samstöðupólitík“?

Viðreisn lagði til á miðju kjörtímabili við upphaf Covid19 að bæjarstjórn tæki upp samstöðupólitík. Viðreisn stendur fyrir samtal og samvinnu og mun alltaf styðja slíkt.

Stórskipahöfn í landi Óttastaða?

Viðreisn hefur einn flokka vakið máls á byggingu stórskipahafnar að Óttastöðum á kjörtímabilinu. Viðreisn óskaði eftir hagrænni úttekt í júní 2019, þeirri beiðni var stungið undir stól af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Fram­sóknarflokks. Viðreisn hefur einn­ig átt í óformlegum viðræðum við eigendur Óttastaðalands. Viðreisn mun taka af skarið á nýju kjörtímabili og koma þessu hagsmunamáli Hafnar­fjarðar af stað.

Göng undir Setbergshamarinn

Nei, Viðreisn styður stokk og talaði mikið fyrir þeim í kosningabaráttunni 2018. Viðreisn mun tala fyrir slíkum sam­göngubótum áfram.

Til kjósenda:

Viðreisn stendur fyrir valfrelsi, gagnsæja stjórnsýslu og ábyrgan rekstur. Valdið er kjósenda þann 14. maí og við óskum eftir þinum stuðningi til að koma okkar gildum og áherslum að. Ef þú vilt sjá breytingar og hleypa ferskum hugmyndum og langtíma­hugsun að, þá biðjum við þig um að horfa til Viðreisnar sem valkost og stuðla þannig að meiri Viðreisn.

Miðflokkur og óháðir – M

Helstu stefnumál

Af mörgu er að taka. Fyrst er rétt að nefna skólamálin og ráðast strax að vanda leikskólans. Tíð mannaskipti þarf að takast á við. Við viljum nýja nálgun, svo kallað hvatakerfi/stigakerfi til að bæta kjör starfsfólks á leikskólum. Uppfylli starfsmaður ákveðinn stiga­fjölda þá fær hann greiddan 13. mán­uðinn líkt og bankamenn fengu árum saman.

Í öðru lagi eru það mál sem snúa að öldruðum og þjónustu við þá. Við viljum koma upp hverfi fyrir eldri borgara á þéttingareitnum bak við Tækniskólann sem nú er. Þar verði byggðar fjölmargar litlar íbúðir ásamt þjónustukjarna. Þar verði bæði boðið uppá eignaríbúðir og búseturéttaríbúðir.

Í þriðja lagi leggja fram framtíðarsýn í lóðamálum til að forðast framboðs­sveiflur með tilheyrandi óstöðugleika í verði. Hafnarfjörður á gnótt lands.

Bæjarstjóraefni

Við erum opin fyrir öllum skynsam­legum möguleikum.

Styður flokkurinn „Samstöðupólitík“?

Nei það hefur ekki reynst vel. En samvinna minni- og meirihluta er lykilatriði í farsælli stjórn á bænum. Hagsmunir bæjarbúa skulu ávallt ráða ferð.

Stórskipahöfn í landi Óttastaða?

Já, það er eitt lykilstefið í atvinnu­málum okkar að hefja undibúning við þá framkvæmd. En það mun taka tíma.

Göng undir Setbergshamarinn

Já það má vel styðja það. Hinn kosturinn sem vert er að skoða er að grafa umræddan veg niður og setja í stokk. Þannig má auka byggingarland þar sem nú er stöðug bílaumferð.

Til kjósenda:

Á kjörtimabilinu hef ég sem bæjarfulltrúi reynt að veita meirihlutanum aðhald. Ég hef stutt öll góð mál. Þess á milli staðið fast í fæturnar sbr. söluna á eignarhlut bæjarins í HS-veitum. Það er ekki góð stjórnsýsla að selja eigur bæjarbúa til að borga reikninga. Mér þætti vænt um stuðning þinn.

Rósa Guðbjartsdóttir
oddviti, Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn – D

Helstu stefnumál

Halda áfram ábyrgri fjármálastjórnun, raunlækkun skulda og að framkvæma sem mest fyrir eigið fé. Með góðri fjármálastjórn er hægt að halda áfram að lækka álögur sem gjöld á íbúa og fyrirtæki. Þá er hægt að þjónusta íbúa af krafti.

Bæjarstjóraefni

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Styður flokkurinn „Samstöðupólitík“?

Sjálfstæðisflokkurinn stefnir alltaf að sem mestri samstöðu í sem flestum málum.

Stórskipahöfn í landi Óttastaða?

Það er á stefnuskrá okkar að skipu­leggja framtíðarhöfn höfuðborgar­svæðisins í Hafnarfirði á næsta kjörtíma­bili.

Göng undir Setbergshamarinn?

Til kjósenda:

Undir stjórn okkar Sjálfstæðismanna síðastliðin átta ár hafa fjármál bæjarins verið tekin í gegn. Við höfum staðið við loforð okkar um að koma á almennilegri fjármálastjórn, lækkað álögur og gjöld á íbúa og fyrirtæki.

Um 90% Hafnfirðinga eru ánægð með bæinn. Höldum áfram á réttri braut, kjósum festu og framfarir. Kjós­um Sjálfstæðisflokkinn áfram við stjórnvölinn í Hafnarfirði.

Fyrir hönd frambjóðenda á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri.

Ummæli

Ummæli