Hafnarfjarðarbær og Landsnet gerðu grunnsamkomulag um flutningskerfi raforku í ágúst 2009. Þar kemur fram að Landsnet þurfi að leggja háspennulínur um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar til að bæta flutningskerfi raforku. Markmiðið var að við uppbyggingu flutningskerfisins yrði komið til móts við sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar að því marki sem unnt væri með vísan til skyldna Landsnets. Þannig mætti lágmarka kostnaðarþátttöku Hafnarfjarðarbæjar við breytingar á kerfinu en fylgja átti í hvívetna markmiðum í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2015-2025.
Helstu breytingar á kerfinu voru að byggðar yrðu tvær nýjar háspennulínur frá Sandskeiði að Njarðvíkurheiði og nýtt tengivirki reist í Hrauntungum. Ættu Hamraneslínur 1 og 2 að víkja sem og núverandi Suðurnesjalína. Tengivirkið í Hamranesi yrði þá spennistöð.
Ísal-línur 1 og 2 færðust því frá Hamranesi að Hrauntungum og þaðan í beina stefnu að álverinu. Háspennulína sem liggi að Hamranesi yrði þá færð í Hrauntungur og Hamranesið yrði tengt tengivirkinu í Hrauntungum með 2 jarðstrengjum. Gerð var ráð fyrir að verkið yrði unnið í 3 áföngum og yrði að fullu komið til framkvæmda árið 2017. Miðað við þessa áætlun bæri Landsnet allan kostnað af verkinu.
Í samkomulaginu segir að Hafnarfjarðarbær legði áherslu á að framkvæmdum yrði lokið eigi síðar en 2015 en þá greiddi Hafnarfjarðarbær ákveðinn flýtikostnað sem var áætlaður 300 milljón kr. við þriðja áfanga.
Landsnet setti fyrirvara í samkomulagið um að breyttust forsendur um aukinn flutning raforku til álversins og fl. yrðu teknar upp viðræður um endurmat á forsendum þess að leggja raflínur í lofti í álverið.
Viðauki
Í október 2012 gerðu aðilar viðauka við samkomulagið. Þar kemur fram að Landsnet telji ekki hægt að tímasetja hvenær framkvæmdum ljúki og í hvaða röð. Þar lagði Hafnarfjarðarbær ríka áherslu á niðurrif Hamraneslínu 1 og 2 þar sem þær hefðu veruleg áhrif á þróun íbúðarbyggðar enda fari það að meginstefnumörkun Landsnets. Í samkomulaginu upplýsti Landsnet þá ákvörðun sína að ráðast í niðurrif Hamraneslínu og að undirbúningur hefjist eigi síðar en 2016 þannig að fjarlægja megi línurnar árið 2020. Yrði ráðist í fyrsta áfanga nýs álvers í Helguvík eða annars orkufreks iðnaðar yrði undirbúningar strax hafinn.
Mat á samkomulagi
Í mati sem Landslög gerðu fyrir Hafnarfjarðarbæ segir að tímaáætlanir samningsins hafi ekki staðist af hálfu Landsnets. Þar segir einnig að Landsnet hafi ekki upplýst hvaða breyttu aðstæður liggi til grundvallar seinkun á framkvæmdum. Skýrsluhöfundur taldi í ljósi þess að Landsnet hafi þá óskað eftir leyfi til að ráðast í hluta þeirra framkvæmda sem fyrsti áfangi tók til, eðlilegt og í samræmi við 2. mgr. 6. gr. samningsins að aðilar settust niður og ræddu framhald framkvæmda og nauðsynlegar breytingar á honum m.a. til að lágmarka tjón Hafnarfjarðarbæjar. Landsnet gæti ekki einhliða tínt inn þá hluta framkvæmdanna sem henti fyrirtækinu án þess að ræða um framhald framkvæmdanna og þau atriðið sem skipta Hafnarfjarðarbæ mestu. Viðaukinn breytti þar engu um.
Í samkomulaginu var getið að almenna flutningskerfið mætti standa í 20 ár frá því hver lína væri tekin í notkun og því væri mikilvægt að skýrt væri við hvaða línur væri átt. Í 2. málslið 4. málsgreinar 6 gr. samkomulagsins segir: „Ef samfelld byggð á svæðinu þróast þannig að háspennulínur hamli verulega frekari þróun byggðar á einhverjum hluta línuleiðarinnar eru aðilar sammála um að sá hluti raforkukerfisins verði færður fjær byggð, ef til þess fást tilskilin leyfi.“ Þá greiði Landsnet fyrir flutninginn. Skýrsluhöfundur taldi að framangreindar ástæður ætti við um þá áfanga sem þá voru tilbúnir til úthlutunar í Skarðshlíð en yrði ekki úthlutað vegna línunnar. Þetta ætti jafnframt við um þann hluta Hnoðraholtslínu sem takmarki uppbyggingu í Áslandi 4 og 5/Vatnshlíð. Í samtali við forstjóra Landsnets upplýsti hann að ekki væri á áætlun að flytja Hnoðraholtslínu.
8,5 km jarðstrengur að Helguvík
Til samanburðar stendur til að leggja tvo 132 kV jarðstrengi frá fitjum að Helguvík vegna áforma þar, alls rúmlega 8,5 km leið. Þar er gert ráð fyrir 5×220 kV jarðstrengjum verði álver byggt þar. Þar virðist ekki hafa verið neitt tiltökumál og engum vandkvæðum bundið.
Yfirlýsing frá Landsneti
23. mars 2015 sendi Landsnet frá sér yfirlýsingu vegna frásagna um að Landsnet hafi svikið loforð. Þar segir að fyrirtækið hafi verið reiðubúið að færa umræddar línur ef bæjarfélagið bæri þann kostnað sem það var ekki tilbúið til. Í framkvæmdaáætlun Landsnet var áformað að flytja línurnar í tengslum við uppbyggingaráform á Reykjanesi en þau áform breyttust og því var flutningi línanna frestað.
Í yfirlýsingunni er ekki rökstutt hvers vegna sé verið að fara bráðabirgðaleið að Hamranesi í stað þess að byggja nú þegar áformað spennuvirki í Hrauntungum. Segir í yfirlýsingunni að nú sé uppbygging hafin á Reykjanesi og forsendur séu fyrir því að halda áfram með fyrri áform um uppbyggingu flutningskerfisins.
Yfirlýsinguna má lesa hér:
„Fyrirtækið hefur verið reiðubúið að færa umræddar línur ef bæjarfélagið greiðir kostnaðinn við flutning þeirra, eins og lög gera ráð fyrir. Bæjarfélagið hefur ekki verið tilbúið að taka á sig þann kostnað og því varð að samkomulagi á sínum tíma að aðlaga flutning umræddra lína að framkvæmdaáætlun Landsnets. Í framkvæmdaáætlun Landsnets var áformað að flytja línurnar í tengslum við uppbyggingaráform á Reykjanesi en forsendur breyttust og uppbyggingaráform töfðust. Í kjölfarið var flutningi línanna frestað enda er Landsneti ekki heimilt að fjármagna slík verkefni og velta kostnaði við þau yfir á notendur í gegnum gjaldskrá fyrirtækisins.
Nú er hins vegar uppbygging hafin á ný á Reykjanesi og forsendur til að halda áfram með fyrri áform um uppbyggingu flutningskerfisins. Nýjar áætlanir gera ráð fyrir því að tengja í fyrsta áfanga Suðurnesjalínu 2 með jarðstreng við tengivirkið í Hamranesi, næst Vallahverfinu. Þar með er hætt við að byggja bráðabirgðaháspennulínu eins og áður var áformað. Jafnframt hefur Landsnet hafist handa við að undirbúa að leggja nýja háspennulínu frá Sandskeiði til Hafnarfjarðar, sem er forsenda fyrir því að hægt verði að fjarlægja sem fyrst svokallaðar Hamraneslínur, sem liggja frá Geithálsi í gegnum Heiðmörk, eitt helsta útivistarsvæði höfuðborgarbúa, og til Hafnarfjarðar. Undirbúningur gengur vel og gerir Landsnet sér vonir um að framkvæmdir geti hafist árið 2016. Verkið er unnið í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði og mun koma til með að breyta ásýnd Vallahverfisins frá því sem nú er og draga úr hljóðmengun og óþægindum fyrir íbúa. Viðræður eru einnig í gangi við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði um frekari breytingar sem taka mið af aðalskipulagi bæjarfélagsins.
Landsnet hefur fullan skilning á sjónarmiðum íbúa í Vallahverfinu og þykir miður hvernig mál hafa þróast frá þeim áformum sem uppi voru á sínum tíma um flutning umræddra háspennulína. Misvísandi upplýsingar hafa einnig flækt málið en nú horfir vonandi til betri vegar fyrir alla.“
Samkomulag Landsnets, Hafnarfjarðarbæjar og íbúa
9. júlí 2015 var skrifað undir samkomulag um að Hamraneslínur 1 og 2 yrðu teknar niður fyrir árslok 2018. Þá yrðu Ísallínurnar færðar og háu möstrin sem þær eru á fjarlægð. Var samkomulagið í takt við það sem kynnt var á íbúafundi í maí að sögn þáverandi bæjarsjóra, Haraldar L. Haraldssonar. Þó var gengið lengra í aðgerðum gegn hljóðmengun frá Hamranesvirkinu og á framkvæmdum þar að ljúka á þessu ári. Var málið unnið í góðu samstarfi við stjórn íbúasamtakanna á Völlum.
Tvær leiðir voru þá í skoðun skv. upplýsingum Nils Gústavssonar hjá Landsneti og gekk önnur út á það að ný Sandskeiðslína tengdist beint inn í Ísal í stað þess að tengjast Hamranesi. Þá yrði aðeins ein loftlína frá Hamranesi tengd beint til Ísal og lægi hún vestur að aðal línustæðinu og þaðan inn til álversins.
Þurfa að meta jarðstreng sem valkost
Ekki stóðst þetta því Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að ógilda bæri framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar frá 21. júní 2017 um lagningu Lyklafellslínu 1 en Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir kærðu ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar. Var þess krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi.
Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að ekki þótti sýnt fram á að jarðstrengskostir væru ekki raunhæfir og samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðalvalkosts framkvæmdaraðila hafi ekki farið fram með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.
Þá var heimild til eignarnáms fyrir Suðurnesjalínuna 2 ógilt með dómi og framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Voga sömuleiðis. Því þurfti Landsnet að gera nýtt umhverfismat sem m.a. mun meta umhverfisáhrif valkosta sem fela í sér jarðstreng.
Búið er að raska ósnortnu hrauni í Almenningi með leyfi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og línuvegur fyrir áður samþykkt línustæði Suðurnejalínu 1 sem er óafturkræf framkvæmd en nú er verið að skoða hvort jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut sé ákjósanlegur kostur.
Bæjarráð krefst bráðabirgðafærslu á Hamraneslínu
Fulltrúar frá Landsneti mættu á fund bæjarráðs 5. apríl 2018 en bæjaryfirvöld töldu mjög alvarlegt ástand vera að myndast eftir að Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi úr gildi framkvæmdaleyfi sem Hafnarfjarðarbær hafði veitt fyrir lagningu Lyklafellslínu.
Bæjarráð óskaði eftir því að fulltrúar Landsnets legðu fram á næsta fundi ráðsins tímasetta áætlun um bráðabirgðaflutning á Hamraneslínu sem liggur yfir Skarðshlíð og Hamranes.
Taldi bæjarráð ljóst að flutningur á háspennulínum í hverfinu þyldi ekki frekari bið. Því þyrfti að grípa til bráðabirgðaflutnings hið fyrsta samhliða því að unnið verði að framtíðarlausn.
Var framkvæmdaleyfi fyrir bráðabirgðafærslu Hamraneslínu samþykkt af bæjarstjórn 23. janúar 2019. Hófst vinna við færsluna í maí sama ár og lauk færslunni sama ár.
Hvað lýður flutningi á línunum?
Skipulagsstofnun birti 24. apríl sl. álit sitt á nýju umhverfismati vegna Suðurnesjalínu 2. Mælti Skipulagsstofnun með Suðurnesjalínu 2 um jarðstreng en Landsnet telur þó Skipulagsstofnun í flestum atriðum sammála umhverfismatinu sem teldi þó að jarðstrengskostur hafi nokkur minni umhverfisáhrif en kemur fram í matsskýrslunni.
„Framundan er samtal við leyfisveitendur um næstu skref og höfum við væntingar til þess það samtal leiði til góðrar niðurstöðu,“ segir í tilkynningu Landsnets í apríl sl.
Vegagerðin telur gerlegt að leggja Suðurnesjalínu 2 í veghelgunarstæði Reykjanesbrautar
Sex valkostir metnir
Í matsskýrslu Landsnets eru sex valkostir umhverfismetnir. Vill Landsnet fylgja valkosti C en Skipulagsstofnun vill fylgja valkosti B.
A. Jarðstrengur samhliða Suðurnesjalínu 1. Alls um 32 km.
B. Jarðstrengur samhliða Reykjanesbraut. Alls um 33 km. Á um 16 km kafla samhliða Reykjanesbraut, en til endanna samsíða Suðurnesjalínu 1 og Fitjalínu
C. Loftlína um Hrauntungur í Hafnarfirði og frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Sveitarfélagsins Voga samhliða Suðurnesjalínu 1. Frá Njarðvíkurheiði að Rauðamel samhliða Fitjalínu Alls um 34 km. Stuttur jarðstrengur á báðum endum, 1,4 km í Hafnarfirði en 0,2 km við Rauðamel. Þetta er aðalvalkostur Landsnets.
C2. Eins og kostur C, en fylgir Suðurnesjalínu 1 í Hafnarfirði í stað þess að liggja um Hrauntungur. Heildarlengd þessa kosts er 32 km.
D. Blönduð leið, jarðstrengur að hluta. Eins og kostur C, nema á 7 km kafla í jörðu, þar sem línan liggur næst Reykjanesbraut. Alls er línan um 34 km.
E. Blönduð leið, tvírásamöstur að hluta. Eins og kostur C, nema á 7 km kafla verði Suðurnesjalínur 1 og 2 á sömu möstrum, þar sem línurnar liggja næst Reykjanesbraut. Línan er alls um 34 km.