„Hef prjónað síðan ég man eftir mér“ – Auður Björt Skúladóttir í viðtali

Ungur Gaflari hefur gefið út prjónabókina Sjöl og teppi – eins báðum megin

Auður Björt Skúladóttir í vinnuherbergi sínu með skjalið Haustboða.

Hún er Gaflari í húð og hár, fæddist í heimahúsi, hún Auður Björt Skúladóttir sem nýlega gaf út prjónabókina „Sjöl og teppi – eins báðum megin“.

Auður Björt er textílkennari síðan í vor og vinnur í Hlíðaskóla.

Bókin Sjöl og teppi – eins báðum megin

Bókin er með á þriðja tug prjónauppskrifta að sjölum og barnateppum. Uppskriftir við allra hæfi, allt frá einföldum og stuttum fyrir byrjendur upp í flóknari fyrir vana prjónara. Leitað er víða fanga við hönnunina, meðal annars í íslenskt handverk og til Hjaltlandseyja.

Prjónað síðan ég man eftir mér

„Ég hef prjónað síðan ég man eftir mér og það er til mynd af mér þegar ég er að prjóna 5 ára,“ segir Auður Björt þegar blaðamaður Fjarðarfrétta heimsótti hana. „Ég var mikið að prjóna þegar ég var í grunnskóla. Var laumuprjónari og ekki mikið að flagga því og prjónaði mest heima. Fyrsta kaðlaprjónið var á þessum tíma og ekki bara einn kaðall,“ segir Auður Björt og brosir.

Dúlluteppi

„Mamma prjónaði mikið og handavinna lá vel fyrir mér og ég vildi gera allt sjálf. Að lykkja saman vefst fyrir mögum. Ég var einu sinni að bíða eftir að mamma sýndi mér það, hún var að elda. Ég horfði á lykkjurnar og náði að lykkja sjálf saman.“ Segir hún að prjónaskapurinn liggi vel fyrir henni og hún eigi auðvelt með að sjá hann fyrir sér. Í þá daga var ekki hægt að kíkja á YouTube. Á þessu augnabliki fannst henni hún fatta prjónið en hún segist vera lesblind og meira skrifblind. „En mynstrið verður til í höfðinu, ég sé þetta fyrir mér og ég get skapað.“

Handlitað íslenskt garn sem er í uppáhaldi hjá Auði Björt.

„Ég fékk þó ekki fyrsta prjónasettið mitt fyrr en um tvítugt. KnitPro prjónasettin voru toppurinn. Þá fer ég á flug að prófa að hanna en þá vann ég í Fjarðarkaupum og var farin að aðstoða við sölu á garni. Við upphaf Rokku, vann ég þar seinni partinn en þar fann ég fyrst fyrir fordómum viðskiptavina gagnvart ungum konum.“ Segir hún að eldri konur hafi ekki treyst henni og segist hún líka hafa upplifað þetta síðar þegar hún vann í Handprjóni. „Maður grét ekki, en það þótti greinilega svo skrýtið að ung stelpa gæti sagt til um prjón.“

Auður Björt með sjalið Vorlilju og á borðinu liggur skjal sem hún hefur prjónað með örfínu garni og þarna sést stærðamunurinn þó uppskriftin sé eins.

Prjónar ekki til að selja

Hún segir prjónatískuna hafa komið í bylgjum. Um 1990 voru flíspeysurnar að koma inn en ÍSTEX var stofnað 1991 en það var ekki fyrr en í hruninu sem lopinn varð vinsæll. „Ég var að vinna í Fjarðarkaupum þá og lopinn seldist gríðarlega vel.“ Hún segir að íslenska lopapeysan hafi orðið vinsæl þegar myndir fóru að flæða um internetið og að íslenski lopinn hafi skorað hátt í gæðaflokki ullar bæði hjá prjónurum og seljendum.

„Ég prjóna ekki til að selja. Ég vil eyða tíma í að prjóna og gefa mínum nánustu. Þetta skapar núvitund og það er róandi að sitja og prjóna,“ segir Auður Björt.

Hún sýnir blaðamanni sjal sem hún er að prjóna úr hárfínu garni með 0,8 prjón og það lítur eins og fínasta heklið sem amma var að hekla.

Hún segir þetta ótrúlega gaman. Hún ætlar að prjóna öll sjölin í bókinni úr þessu hárfína garni sem verður reyndar mikil vinna. En auðvitað verða skjölin miklu minni.

Fiðrildavals

Vefsíða með leiðbeiningum

Auður Björt opnaði síðuna audurbjort.is þar sem finna má myndir og skýringarmyndbönd með öllum uppskriftunum í bókinni. Gerði hún myndböndin sjálf þar sem henni þótti einfaldara að gera þau heldur en að skrifa leiðbeiningar.

Í bókinni leggur hún áherslu á að stykkið sé eins báðum megin, engin ranga, bara rétta – sem gerir það miklu notadrýgra og fallegra.

Er að læra til golfkennara

Auður Björt segist núna vera byrjuð á peysum sem hún prjónar frá hlið, langar að fara aðrar leiðir og það sé aldrei að vita nema hún haldi námskeið ef áhugi er fyrir hendi.

Annars er hún að læra til golfkennara og upplýsir að hún hafi keppt í golfi á yngri árum. „Ég spila golf á daginn og prjóna á kvöldin,“ segir hún og brosir. Hún segir að henni hafi komið á óvart hvað vel gengur, hún sé á betri stað í golfinu en áður. Aðspurð segist hún ekki hafa prjónað utan um golfkylfurnar en hafi hins vegar verið gefnar prjónaðar hlífar. Sjálf hafi hún svo prjónað golfpeysu.

Hún hefur kynnt bókina víða um höfuðborgarsvæðið og hana má fá í helstu bóka- og prjónaverslunum.

 

 

Ummæli

Ummæli