Hafnarfjarðarbær býður frístundalóð til sölu á 6,5 milljónir kr. í Sléttuhlíð

Lóðin í Sléttuhlíð

Í látlausri auglýsingu á vef Hafnarfjarðarbæjar má sjá að frístundalóð í Sléttuhlíð er laus til úthlutunar. Verðmiðinn er 6.497.500 kr. miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í september 2021.  Lóðarverð miðast við 100 fermetra sem er hámark leyfilegra byggða fermetra miðað við gildandi deiliskipulag í Sléttuhlíð.

Lóðin er merkt B7 og á skýringaruppdrætti með deiliskipulagi er hún merkt „Sigurg. Guð.“ og hefur aldrei verið byggt á henni. Er frístundalóð í Hafnarfirði takmörkuð auðlynd því aðeins eru 38 frístundalóðir í upplandi Hafnarfjarðar og ekki á skipulagi að fjölga þeim.

Lóðin er 3.815 m² að stærð.

Skýringaruppdráttur með deiliskipulagi. Gulur hringur er um auglýsta lóð.

Við samþykkt á byggingaráformum eru lögð á ýmis þjónustugjöld byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa auk heimgjalda og skipulagsgjalds. Þá er einnig greitt fyrir þinglýsingarkostnað vegna lóðarleigusamnings.

Lóðin er til úthlutunar til einstaklinga ekki lögaðila og skal fylgja umsókn yfirlýsing frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun um fjárhagslega getu – fjárhagslegar kvaðir eru 20 milljónir kr. Umsækjandi skal skila með umsókn greinargerð um fyrirætlanir og hugmyndir á frístundalóðinni og teikningar af sumarhúsi og lóð ef þær liggja fyrir, ásamt byggingaráætlun.

Ekki kemur fram hvenær frestur til að leggja inn umsókn er, né hvenær lóðin var auglýst en auglýsinguna má finna á vef Hafnarfjarðarbæjar undir Lausar lóðir.

Ummæli

Ummæli