Grjótvörn framan við Norðurbakkann til að verja ónýtt stálþil

Grjótgarðurinn sem á að verja Norðurbakkann

Eftir að töluverðu hafði verið kostað til við lagfæringu á stálþili og uppfyllingu að stálþilinu framan við Norðurbakkann hefur komið í ljós að stálþilið er í raun að verða ónýtt og því nauðsynlegt að verja bakkann með grjótgarði framan við hann.

Mjög djúpt er niður á fast og aðeins hluti stálþilsins var rekinn svo djúpt niður að sögn Lúðvíks Geirssonar hafnarstjóra, sem segir að nauðsynlegt sé að verja bakkann með öflugum grjótgarði.

Yfirlitsmynd sem sýnir áætlaðar framkvæmdir

Aðspurður segir hann grjótgarð ekki hindra að þarna komi flotbryggjur eins og hugmyndir voru uppi um en í frumtillögum Landslags var einnig gert ráð fyrir trébryggju framan við Norðurbakkann, á grjótfyllingunni en Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt hjá Landslagi segir að slíkt hafi verið tekið út af borðinu þó það útiloki ekki að slík bryggja verið sett síðar meir. Slík bryggja getur verið lægri en bakkinn, jafnvel svo lág að flyti yfir hana á stórstraumsflóði.

Áætlað er að hafist verði handa við gerð grjótgarðsins strax á þessu ári og að verkinu verði lokið á næsta ári. Verkið hefur þegar verið boðið út en í það fer 18.500 m³ af fyllingu og 3.400 m³ af grjóti í grjótvörnina.

Frágangur á yfirborði Norðurbakka frestast

Fyrirhuguðum frágangi á yfirborði Norðurbakka hefur verið slegið á frest og ekki er vitað hvenær hafist verður handa við hann, en framkvæmdir miðuðust við að gera umferð um bakkann vistlegri og öruggari. Koma átti þar fyrir bekkjum og gróðri en ljóst að þörf er á aðgengi stórvirkra vinnuvéla við að leggja grjótið í grjótgarðinn.

Er reiknað með að aðkeyrsla vinnuvéla verði frá vegi við hlið Norðurbakka 13.

Varnir og hækkun Norðurgarðsins

Norðurgarðurinn var fyrsti hafnargarður sem byggður var í Hafnarfirði og var hann reistur á árunum 1941-1945 en Finnbogi Rútur Þorvaldsson, (faðir Vigdísar Finnbogadóttur) teiknaði garðinn. Þótti hann hið mesta undrasmíð, 220 metra langur, en járnbrautarteinar höfðu verið lagðir út á hann og krani sem notaður var við smíðina ók eftir þeim..

Það er sjaldan sem aldan kemur frá höfninni og yfir Norðurgarðinn.

Undirstöður hans voru þó ekki tryggari en það að árið 1945, þegar smíði hans var að mestu lokið, seig hluti hafnargarðsins um 2,2-2,8 metra og við fréttirnar stöðvaðist handboltaleikur FH og Hauka á Sýslumannstúninu þar sem allir þustu út á bryggju til að sjá ósköpin.

Steypt var síðan ofan á garðinn en það má fullyrða að garðurinn hafi alls ekki fengið það viðhald sem þyrfti. Á tíma var hann talinn óþarfur eftir nýjustu landfyllingarnar og nýjan hafnargarð en nú er fólki ljóst að hann gegnir miklu hlutverki í verstu vestanáttunum við að verja höfnina. Í dag er garðurinn mjög illa farinn og flæðir yfir hann á háflóði.

Stefnt er að því að hækka garðinn um 1-2 metra.

Nú á að setja grjótgarð utan við garðinn en að sögn Lúðvíks er nauðsynlegt að gera það með gát þar sem djúpt er niður á fast og mikilvægt að jafnvægi raskist ekki.

Áætlað er að unnið verði við grjótgarðinn utan við hafnargarðinn á næsta ári.

Hönnun á endurbótum á Norðurgarðinum er ekki lokið.

Ekki er búið að fullhanna lagfæringu á garðinum en hugmyndir eru uppi um að hækka hann um 1-2 metra, setja á hann útsýnispalla og bekki og gera hann vel aðgengilegan almenningi.

Ummæli

Ummæli