Ekki hægt að skipta frístundastyrk niður á fleiri en eina grein

Tölvukerfið segir nei!

Í nýendurbættum reglum um niðurgreiðslur Hafnarfjarðarbæjar hjá iðkendum 6-18 ára í íþrótta- og tómstundafélögum fellur út ákvæði um að hægt sé að skipta frístundastyrk niður og nýta hann í fleiri en eina grein.

Raunin er sú að það er ekki búið að þróa skráningarkerfið þannig að mögulegt sé að skipta styrknum niður á fleiri greinar ef þær eru á sama tíma eða skarast. Nórakerfið sem heldur utan um skráningar býður ekki upp á þann valmöguleika. Áætlað er samkvæmt upplýsingum frá forritunarfyrirtæki sem sér um skráningarnar að það muni kosta Hafnarfjarðarbæ á aðra milljón að breyta kerfinu til að ná þessu í virkni.

Það breytist þó ekki að hámarks niðurgreiðsla á mánuði er 4.500 kr. og 54.000 kr. á ári.

Niðurgreiðslur ná einungis til félaga og viðurkenndra aðila sem eru með skipulagða
kennslu/þjálfun í að minnsta kosti 10 vikur í senn og að lágmarki eina æfingu í viku. Sérákvæði vegna íþróttagreina sem eru árstíðabundnar og með tíðar æfingar í styttri tíma. Iðkandi sem stundar æfingar hjá viðurkenndu íþróttafélagi sem eru árstíðabundnar t.d. skíði,  reiðmennska og golf hefur heimild til að ráðstafa frístundastyrknum á ársgrunni til að greiða niður æfingagjöldin. Þessi heimild gildir einu sinni á hverju ári fyrir allt árið.

Heimilt er að nýta frístundastyrkinn í tónlistarnám. Hægt er að nota frístundastyrk til að greiða niður líkamsræktarkort eða sambærilegt aðgangskort sem tengist íþróttum og hreyfingu sem gilda í 3 mánuði eða lengur fyrir 16 ára og eldri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um fræðslu til iðkenda og utanumhald. Heimildin gildi frá áramótum þess árs sem börnin verða 16 ára.

Nú ber að tilkynna ef barn hættir

Nýju ákvæði hefur verið bætt í reglurnar sem segir að ef iðkandi hættir iðkun á tímabilinu sem hann er skráður á og hefur greitt fyrir beri forráðamanni að tilkynna þjónustuveri það skriflega svo hægt sé að skrá iðkanda hættan í kerfinu. Iðkandi skráist hættur í kerfinu frá þeim degi sem tilkynning berst.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here