Ekið með snjó langar leiðir og deilt um hvort megi sturta honum í höfnina

Snjó hefur verið ekið langar leiðir með ærnum tilkostnaði

Snjó ekið á tipp skammt frá Hamranesi

Við hreinsun gatna í Hafnarfirði hefur þurft að aka snjó í burtu á vörubílum.

Hefur snjónum verið ekið upp fyrir byggðina við Hvaleyrarvatnsveg, skammt frá Hamranesi og hafa margir undrað sig á því og telja að eðlilegra hefði verið að sturta honum í sjóinn.

Í Kópavogi hefur það verið gert og voru gerðar athugasemdir við það til Heilbrigðiseftirlitsins sem taldi að það væri ekki verra en að láta lagnir yfirfyllast í hlákunni því allur snjórinn færi á endanum um holræsakerfið og í snjóinn.

Mokað er snjó með öflugum tækjum úr þröngum húsagötum og víðar.

Hjá Hafnarfjarðarbæ var vitnað í gamla bókun umhverfisnefndar sem talin er hafa verið gerð eftir tilmæli frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis.

Björn Bögeskov Hilmarsson, yfirverkstjóri hjá Hafnarfjarðarbæ segir að þar á bæ þyki það miður að þurfa að aka snjónum svona langt og hann vilji miklu frekar moka honum í sjóinn.

Jarðýta er notuð til að dreifa úr snjónum.

Ekkert sem bannar losun á snjó í sjó

Hörður Þorsteinsson

Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins kannast ekki við þetta og segir að þrátt fyrir nokkra skoðun á gögnum finni hann ekki tilmæli frá eftirlitinu um að ekki megi sturta snjó í sjó.

„En við skoðun okkar þá sjáum við ekkert í fljótu bragði sem bannar losun á snjó í sjó,“ segir Hörður. „Í einhverjum tilfellum hefur verið amast við því að setja snjó af götum í ferskvatn, tjarnir og vötn sem hafa lítið vatnasvið, þar sem það gæti skaðað lífríki. Það ætti t.d. við um vötn eins og Ástjörn, Urriðavatn og Hvaleyrarvatn.“

Og hann bætir við: „Það er ekki umhverfisvænt að flytja snjó langar leiðir til að gera götur og gangstéttir greiðar sem allra fyrst fyrir umferð. Ef hægt er að færa þennan snjó til með því að sturta honum í sjó, til að forða slysahættu og eins til að hlífa fráveitukerfinu ef til asahláku kemur, munum við ekki amast við því að snjó sé sturtað í sjó.“

Miklum snjó hefur verið ekið langar leiðir.

Ummæli

Ummæli