fbpx
Fimmtudagur, febrúar 22, 2024
HeimFréttirArnór Bjarki nýr sóknarprestur og Bolli Pétur nýr prestur í Ástjarnarkirkju

Arnór Bjarki nýr sóknarprestur og Bolli Pétur nýr prestur í Ástjarnarkirkju

Bjóða upp á heita máltíð eftir messu

Þann 1. september sl. urðu breytingar Í Ástjarnarkirkju þegar sr. Kjartan Jónsson lét af störfum eftir að hafa starfað við kirkjuna frá lokum árs 2009 og sem sóknarprestur frá 2012.

Við honum sem sóknarprestur tók sr. Arnór Bjarki Blomsterberg sem hefur verið prestur við kirkjuna frá 2018. Þá var sr. Bolli Pétur Bollason ráðinn til starfa í kirkjunni frá 1. ágút en hann er vel kunnugur í kirkjunni þar sem hann þjónaði í afleysingum 2019-2020. Ástjarnarkirkja og Kálfatjarnarkirkja er hluti af Tjarnarprestakalli.

Arnór Bjarki Blomsterberg, sóknarprestur

Þá var Erla Rut Káradóttir ráðinn nýr organisti í Tjarnarprestakalli frá 1. ágúst sl. Erla Rut er  með BA í kirkjutónlist með áherslu á orgelleik, kórstjórn og litúrgískan orgelleik frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Ísland og kantorspróf frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Auk þessa hefur hún lagt stund á  píanóleik og einsöng. Hún hefur starfað sem organisti og kórstjóri frá 2016, auk þess sem hún hefur verið undirleikari barnakóra og  æskulýðsfulltrúi í kirkjustarfi.

Í samtali við sr. Arnór Bjarka og sr. Bolla kom fram að starfið í kirkjunum er öflugt. Aðspurðir segja þeir að það fari vel saman að þjóna í Ástjarnarkirkju og Kálfatjarnarkirkju í Vogum. Þetta séu mjög ólíkar kirkjur og það sé gefandi að starfa með ólíku fólki en Kálfatjarnarkirkja sé sveitakirkja.

Bolli Pétur Bollason prestur

Samstarf var um sumarstarfið með þjóðkirkjunum í Garðabæ og Hafnarfirði auk Fríkirkjunnar þar sem sumarmessur voru haldnar í Garðakirkju á Álftanesi. Mæting í messurnar var mjög góð og prestarnir skiptust á að þjóna. Arnór Bjarki segist sjálfur hafa ætlað að mæta með unglingahljómsveit sem hafi forfallast á síðustu stundu og þá hafi hann bara troðið upp með gítarinn og stjórnað söng. Segja þeir gott samráð með prestum í bænum sem hittast reglulega.

Áhersla á fjölskyldustarf

Nú er fermingarstarfið að fara af stað og metfjöldi fermingarbarna sem hafa skráð sig eða alls 60. Þeir leggja áherslu á fjölskylduna og vonast til að geta samverustundir fyrir fjölskyldur úr hverfinu.

Mjög góð mæting var í fyrstu messu haustsins, fermingarbörn og fjölskyldur þeirra fjölmenntu. Eftir hverja messu er boðið upp á heita máltíð og þó hægt sé að setja pening í söfnunarbauk er engin skylda að greiða fyrir matinn. Allt sem safnast í baukinn er svo notað til að kaupa innkaupakort sem þurfandi fá til að geta keypt mat. Næsta fjölskyldumessa er á sunnudaginn kl. 17.

Safnaðarsöngur

Mikil áhersla er lögð á almennan safnaðarsöng í kirkjunni og eru kirkjugestir hvattir til að taka undir í söng. Bera þeir miklar vonir til nýrrar sálmabókar sem nú er væntanleg. Segja þeir að hugmynd hafi komið um að bjóða til opinnar söngstundar í kirkjunni á aðventunni þar sem fólk syngi saman jólasöngva. Vonandi verður af því að þeirra sögn.

Stefn er að öflugu barnaskórastarfi í vetur og verða æfingar á fimmtudögum kl. 17 og verður fyrsta æfingin 15. september.

Þeir Arnór og Bolli taka vel á móti fólki í Ástjarnarkirkju og nánari upplýsingar um starfið má finna á astjarnarkirkja.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2