Sýningin Canarí í Sveinshúsi í Krýsuvík opin alla sunnudaga í sumar

Svær skissur Sveins úr skissubókinni

Sveinshúss í Krýsuvík er opnað í seinna lagi í sumar vegna kórónufaraldursins. Á móti kemur að Sveinssafn, sem helgað er list hafnfirska málarans Sveins Björnssonar, hyggst gera tilraun með að hafa oftar opið í sumar sem felur það í sér að opið verður alla sunnudaga frá og með fyrsta sunnudegi í júlí og fram í október, kl. 13 til 18.

Að vanda verður boðið upp á veitingar og leiðsögn.

Sveinssafn í Krýsuvík

Sýning safnsins í Sveinshúsi nefnist Canarí og lýkur henni í október n.k. En þá vaknar önnur hefð til lífsins sem er haustmessan í Krýsuvíkurkirkju. Endurbyggingu kirkjunnar er nú lokið og verður hún flutt á sinn stað og vígð þegar líða tekur á sumarið. Í október n.k. verða liðin 11 ár frá síðustu haustmessu í Krýsuvíkurkirkju með tilheyrandi kirkjukaffi á eftir í Sveinshúsi en kirkjan brann til kaldra kola 2. janúar 2010. Sveinn Björnsson gaf málverk sem notað hefur verið sem altaristafla í kirkjunni.

Myndir úr skissubók sem óvænt kom í leitirnar fyrir þremur árum

Canarí er 9. sýning Sveinssafns í Sveinshúsi og dregur hún nafn sitt af Gran Canaria en allar myndirnar urðu til í skissubók sem hann hafði með sér til í Kanaríeyja árið 1988. Sýningin var sett upp síðasta sumar. Skissubók þessi kom óvænt í leitirnar fyrir um þremur árum og reyndust allar myndirnar í henni, 72 að tölu, vera óskráðar og óskoðaðar.

„Ekki þurfti að blaða lengi í bókinni áður en sú hugmynd fæddist að myndir hennar sem spönnuðu öll þematísku viðfangsefni Sveins gætu staðið einar of sér undir næstu sýningu safnsins. Hún gæti orðið áhugavert framhald af síðustu sýningu safnsins þar sem skissubók frá 1981- 82 gegndi mikilvægu hlutverki við hlið annarra verka. Árið 1988, þegar Canarí skissubókin varð til, var gríðarlega öflugt á listferli Sveins Björnssonar og gat af sér ógrynni verka af öllum stærðum og gerðum sem mörg hver rötuðu inn á síðustu stórsýningu hans á Kjarvalsstöðum ári síðar,” segir Erlendur Sveinsson, sonur listamannsins.

50 skissur úr bókinni á sýningunni

Valdar voru 50 myndir úr bókinni til sýningar, þar af eru fjórar stækkaðar, tvær á spjöld og tvær á tau til upphengingar í gluggum sýningarherbergjanna. Að vanda fylgir sýningunni vegleg sýningarskrá, sem hefur að geyma pælingar um skissubækur listamannsins, frásagnir í myndum sem þær hafa að geyma og táknheim fantasíutímabils Sveins.

Það er ekki algengt að myndir úr einni skissubók séu látnar standa undir heilli myndlistarsýningu en nú er á það reynt. Engar þessara mynda hafa verið sýndar áður opinberlega og því er hér um frumsýningu að ræða rúmum 30 árum frá því að þessar myndir urðu til. Með því að sýna eingöngu myndir úr umræddri skissubók er vakin athygli á því hversu algjör Sveinn var í list sinni og hversu trúr hann var sjálfum sér og vegferð sinni sem listamanns. Skissubókin ber þess órækt vitni að hann gat ekki hugsað sér að fara í frí frá brauðstritinu, eins og hann gjarnan kallaði launaða starfið sitt hjá lögreglunni, öðru vísi en að taka með sér það sem til þurfti til að skapa nýjar myndir á slíkum ferðum.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here