Menningarbærinn Hafnarfjörður

Hallur Guðmundsson skrifar

Hallur Guðmundsson

Menningarstefna Hafnarfjarðar ætti að vera í sífelldri endurskoðun líkt og aðrar stefnur bæjarins. Þann 9. mars 2004 var undirrituð núverandi menningarstefna. Þar má sjá fögur fyrirheit og góðar áætlanir. Margt þeirri stefnu er úrelt og á ekki lengur við, bæði vegna tækniframfara og vegna breytinga sem gerðar hafa verið í stjórnkerfi bæjarins. Til dæmis hefur staða menningar- og ferðamálafulltrúa verið aflögð og ekki er lengur þörf á því að Bókasafn Hafnarfjarðar veiti aðgang að nýjustu upplýsinga- og tölvutækni.

Þegar kemur að stefnumótun ættu íbúar að ráða för. Þess vegna vil ég að bæjarbúar fái aukið vægi í ákvarðanatöku og framkvæmd og geti tekið virkan þátt í að móta næstu menningarstefnu. Í fundargerðum menningar- og ferðamálanefndar snemma árs 2016 var rætt að endurskoðuð stefna yrði tilbúin í lok árs 2016 – sem virðist ekki hafa verið gert, en það þýðir einfaldlega að nú er tækifæri til að gera enn betur og leyfa öllum sem hafa áhuga að taka þátt.

Bærinn okkar hefur oft verið kallaður menningarbær. Til að menningarlíf blómstri í Hafnarfirði þarf kraftmikla markaðssetningu innan bæjar sem utan. Það þarf skýra stefnu.

Margt öflugt menningarstarf á sér stað í bænum að sjálfsögðu, tónlistarhátíðin Heima í upphafi Bjartra daga, Jólaþorpið, Ratleikur Hafnarfjarðar og þeir viðburðir sem hafa verið í boði í Hafnarborg, Bæjarbíói og Gaflaraleikhúsinu hafa vakið verðskuldaða athygli. En það segir sína sögu að meirihluti ferðamanna sem á hér leið um fer beint upp í rútu og til Reykjavíkur frekar en að staldra við.

Sjálfur vil ég sjá meira. Og ég er sannfærður um að flestir Hafnfirðingar vilji sjá meira og fá að velja sjálf hvers konar menningarstarf verði lögð áhersla á. Menningarbærinn skal rísa undir nafni.

Hallur Guðmundsson
skipar fjórða sæti á lista Pírata í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here