fbpx
Fimmtudagur, apríl 18, 2024
target="_blank"

Hjólum í verkin

Hilmar Ingimundarson skrifar

Hjólreiðar eru umhverfisvænn samgöngumáti en jafnframt skemmtilegur og hressandi og er ánægjulegt að fylgjast með því hvað þær hafa sótt í sig veðrið undanfarinn áratug.

Sífellt fleiri líta á þennan samgöngumáta sem fýsilegan kost og góða viðbót við einkabílinn og almenningssamgöngur. Samspil margra þátta á borð við aukna umhverfisvitund, ásókn í heilbrigða hreyfingu og breytt byggðarmynstur hefur stuðlað að þessari jákvæðu breytingu. En þá sér í lagi aukin þjónusta og uppbygging hjólastíga með öflugri tengingum milli bæjarhluta. Árið 2011 var kynnt framtíðarsýn um að Hafnarfjörður yrði hjólabær sem var gott, þarft og tímabært framtak. Nú, rúmum áratug síðar, er mikilvægt að uppfæra og leggja fram nýja hjólreiðaráætlun fyrir Hafnarfjörð til næstu 10 ára.

Hjólreiðar eru margs konar og þarfirnar mismunandi eftir því hvort við erum að nýta þann samgöngumáta til þess að komast til og frá vinnu eða til frístunda, í leik eða til æfinga. Jákvætt er að hvetja ungviðið til að sækja frístundastarf á hjóli og minnka þannig skutl keyrðu kynslóðarinnar, öllum til hagsbóta. Áhugi er á að fá alvöru góða hjólabraut í Hafnarfjörð og væri í því sambandi áhugvert að kanna möguleika á því að setja upp nýja „dirt jump“ braut til viðbótar við þá sem liggur um Vatnshlíðina niður að Hvaleyrarvatni. Í Hafnarfirði liggja margar skemmtilegar leiðir og brekkur innanbæjar fyrir götuhjólreiðar. Á fögrum sumarmorgnum er gaman að fylgjast með fjölda fólks puða upp Áslandsbrekkuna í þröngum hjólagallanum og er Ásvallabrautin kærkomin viðbót fyrir brekkukónga og -drottningar. Einnig má huga að meiri samþættingu almenningssamgangna og hjólreiða til að auka skilvirkni samgöngukerfisins. Ekki er verið að kalla eftir því að allir fari allra sinna ferða á hjóli, heldur að fólk geti valið um að ferðast með þeim hætti sem hentar hverju sinni. Aðlaðandi hjólaleiðir eru mikilvægar og með bættum innviðum fjölgar þeim sem kjósa og vilja hjóla þegar vel viðrar til hjólreiða.

Tímabært er að gera hjólreiðum hærra undir höfði í bænum okkar. Setjum okkur markmið um bætta hjólamenningu með því að efla innviði og setjum stefnuna á að hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum verði a.m.k. 10% árið 2030. Við þurfum ekki að finna upp hjólið til að breyta þessu. Vilji og metnaður er allt sem til þarf. Hjólum í verkin.

Hilmar Ingimundarson

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2