Samið um byggingu knatthúss á Ásvöllum

Frá undirritun samningsins, f.v.: Kristinn Andersen, forseti bæjarstórnar, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, Þóroddur Ottesen Arnarson, forstjóri ÍAV og Magnús Gunnarsson, formaður Hauka.

Í gær var undirritaður samningur á milli Hafnarfjarðarbæjar og ÍAV um byggingu knatthúss að Ásvöllum.

Munu starfsmenn ÍAV hefja undirbúning að framkvæmdum á næstu dögum en að tveimur árum liðnum er gert ráð fyrir að taka knatthúsið í notkun.

„Haukar hafa lengi beðið eftir bættri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar og með tilkomu glæsilegs knatthúss sjáum við drauma okkar verða að veruleika,“ segir í tilkynningu frá Haukum.

Unnið hefur verið að hönnun knatthússins allt frá árinu 2018 samhliða því sem unnið var að mati á umhverfisáhrifum knatthússins, eins og gerð var krafa um.

Bökuð var dýrindis kaka í tilefni undirskriftarinnar.

ÍAV átti lægsta tilboð í byggingu hússins

ÍAV átti lægsta tilboðið, 3.399.107.883 kr. sem var 308 milljónum kr. yfir kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á 3.091.222.162 kr.

Verkið felst í að byggja að Ásvöllum 1, fullbúinn knattsal með tæknirýmum, uppsteyptri þjónustubyggingu ásamt lóðarfrágangi. Stærð knattsalar er 10.284 m² með fullbúnum knattspyrnuvelli í keppnisstærð ásamt hliðarsvæðum, 33 m² inntaksrými og uppsteyptri 873 m² þjónustubyggingu.

Í síðari áfanga er svo m.a. innrétting á þjónustubyggingunni og tengibygging en þeir þættir hafa ekki enn verið boðnir út.

Ummæli

Ummæli