fbpx
Fimmtudagur, október 3, 2024
HeimFréttirPólitíkHækka laun bæjarfulltrúa um 44,3%?

Hækka laun bæjarfulltrúa um 44,3%?

Bæjarráð staðfesti í október nýja launatöflu sem miða launagreiðslur bæjarfulltrúa við þingfararkaup

Á fundi sínum 6. október sl. sam­þykkti bæjarráð að breyta viðmiðunar­upphæð launa kjörinna fulltrúa Hafnar­fjarðar. Í stað þess að ákveða sjálf við­miðunarupphæðina sem var 604.909 kr. var ákveðið að miða við þingfarar­kaup sem var 762.940 kr.

Tryggt var að þetta breytti ekki upphæð launa kjörinna fulltrúa en laun bæjar­full­trúa urðu 26,165% af þing­farar­kaupi.

Laun kjörinna fulltrúa eru nú:

  • Bæjarfulltrúi: 199.620,-
  • Forseti bæjarstjórnar 299.460,-
  • Formaður bæjarráðs 362.945,- (199.620 + 163.325)
  • Bæjarráðsmaður 308.504,- (199.620 + 108.884)
  • Formaður ráðs 335.725,- (199.620 + 136.105)

Sitji menn í nefndum og ráðum öðrum en sem hér hafa verið nefndar að ofan fá menn aukalega greitt fyrir það.

  • Alm. ráðsmaður 90.736,-
  • Formaður hafnarstjórnar 99.810,-
  • Hafnarstjórnarmaður 55.540,-

Þá fá varamenn í bæjarstjórn og bæjarráði 24.196 kr. fyrir hvern fund, fyrstu 4 klst.

Sjá má launatöfluna hér.

Hækka launin sjálfkrafa?

Sé ekkert annað ákveðið hækka laun bæjarfulltrúa um 44,3% við úrskurð kjararáðs um að hækka laun forseta Íslands, þingmanna og ráðherra. Kjara­ráð úrskurðaði að þing­fararkaup verði 1.101.194 kr. á mánuði frá og með 30. október 2016.
Í kjararáði sitja 5 fulltrúar. Þrír kosnir af Alþingi, einn skipaður af Hæstarétti og einn skipaður af fjármála- og efna­hagsráðherra. Formaður Kjararáðs er Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttar­lög­maður í Hafnarfirði og formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í suð­vesturkjördæmi og fulltrúi þess í mið­stjórn flokksins.

Hver yrðu launin?

Samþykki bæjarráð ekki annað verða laun oddvita flokkanna eftirfarandi:

  • Guðlaug Kristjánsdóttir 785.790,- (forseti bæjarstjórnar, í bæjarráði og formaður fræðsluráðs)
  • Rósa Guðbjartsdóttir 720.795,- (formaður bæjarráðs og fræðsluráðs)
  • Sverrir Garðarsson 419.092,- (bæjarfulltrúi, í fræðsluráði)*
  • Gunnar Axel Axelsson 288.127,- (bæjarfulltrúi)

Uppfært: *Sverrir Garðarsson fær full laun sem áheyrnarfulltrúi í bæjarráði og bætast því 108.884 kr. við launin. Fær hann því í heild 527.976 kr. á mánuði.

Væri Guðlaug að fá 241 þús. kr. hækk­un og Rós 222 þús. kr. hækkun. Til viðbótar geta bæjarfulltrúar verið að fá greiðslur fyrir setu í stjórnum utan Hafnarfjarðar s.s. í stjórn Sorpu, í full­trúaráði Samtaka sveitarfélaga á höfuð­borgarsvæðinu og víðar.

40 milljón kr. útgjaldaauki

Áætla má m.v. að launakostnaður Hafnarfjarðarbæjar vegna kjörinna fulltrúa og nefndarmanna fyrstu 10 mánuði ársins er 80,3 milljónir kr. að útgjaldaaukinn sem yrði vegna hækkunarinn næmi um a.m.k. 40 milljón krónum á ári.

Gagnlegt að fara yfir málin og gera saman­burð á launaþróun

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs
Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs

„Þessar breytingar kjararáðs sem nú hafa verið tilkynntar hafa ekki komið til umræðu í okkar hópi ennþá en ég held það gæti verið gagnlegt fyrsta skref að fara yfir málin og gera samanburð á launaþróun kjörinna fulltrúa og annarra undanfarin ár,“ segir Rósa Guð­bjarts­dóttir formaður bæjar­ráðs í svari við fyrir­spurn Fjarðarfrétta um viðbrögð við úrskurð kjararáðs.

Segir hún að það hafi verið ákveðið í júlí sl., að miða við þingfararkaup í kjölfar þess að Samband íslenskra sveitarfélaga birti nýja viðmiðunartöflu um laun kjörinna fulltrúa þar sem mælst var til að sveitarfélögin myndu öll taka mið af þingfararkaupinu. Segir hún flest sveitarfélög landsins gera það.

„Fulltrúar sambandsins mættu á fund bæjarráðs þann 14. júlí sl. þar sem viðmiðunartaflan var kynnt og lögð fram. Í Hafnarfirði var ákveðið að fara að þeim tilmælum og tillaga forseta­nefndar var samþykkt um að starfs­hlutfalli kjörinna fulltrúa yrði breytt lítillega til að tenging við þingfar­ar­kaupið kæmi ekki til hækkunar,“ segir Rósa.

Borgarstjórinn í Reykjavík vill ekki hækka

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hefur skorað á alla þing­menn að grípa inn í úrskurð kjararáðs. Segir hann að samstarf stjórnvalda og verkalýðshreyfingar um þróun kjara­mála sé í fullkomnu uppnámi verði ekkert að gert.
Borgarstjóri hefur auk þess farið þess á leit við skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjórnar að laun kjörinna fulltrúa í borgarstjórn, að honum meðtöldum, hækki ekki í samræmi við úrskurðinn frá 1. nóvember. Grunnlaun borgar­full­trúa eru 80% af þingfararkaupi en rúm 26% í Hafnarfirði.

Afgreiðslu bæjarráðs á tillögu um að laun hækki ekki frestað til næsta fundar

Á fundi bæjarráðs í gær lögðu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna telja að algjör forsendubrestur hafi orðið í samþykkt um launakjör bæjarfulltrúa í Hafnarfirði með úrskurði Kjararáðs. Það var sameiginleg tillaga forsetanefndar þann 30. september sl. og samþykkt af bæjarráði þann 6. október að hlutfall af þingfararkaupi yrði útfært á þann veg að ekki leiddi til launahækkanna. Laun bæjarfulltrúa hafa tekið breytingum í samræmi við almenna launaþróun og óhóflegar hækkanir líkt og Kjararáð hefur nú úrskurðað um getum við ekki gengist undir. Því leggjum við til að bæjarráð staðfesti að launahækkanir samkvæmt úrskurði Kjararáðs þann 1. nóvember muni ekki hafa áhrif á launakjör bæjarfulltrúa í Hafnarfirði.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað til næsta fundar bæjaráðs en ráðið fundar að jafnaði annan hvern fimmtudag.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2