Aukafundur boðaður í bæjarstjórn á morgun

Mjög umdeild ákvörðun í bæjarráði um stefnubreytingu á framkvæmdum í Kaplakrika

Ráðhús Hafnarfjarðarbæjar

Eftir mótmæli minnihlutaflokkanna í bæjarstjórn við ákvörðun bæjarráðs 8. ágúst sl. um að Hafnarfjarðarkaupstaður muni ekki byggja, eiga og reka nýtt knatthús í Kaplakrika líkt og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir, hefur verið boðaður aukafundur í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á morgun, miðvikudag kl. 8.30 að morgni sem er mjög óvenjulegur fundartími.

FH fái 790 milljónir en beri sjálft ábyrgð á óvissu um kostnað

Í samþykkt bæjarráðs segir að FH muni sjálft ráðast í þær framkvæmdir og bera ábyrgð á óvissu og kostnaðaraukningu ef til kemur við byggingu hússins. Til að greiða fyrir framkvæmdinni muni Hafnarfjarðarkaupstaður gera rammasamkomulag um kaup á mannvirkjum í Kaplakrika að fjárhæð um 790 milljónir króna og verður greiðsla kaupverðsins háð skilyrðum um framgang og framvindu auk hefðbundinna ákvæða um vanefndir og eftirlit með að skilyrðum verði fylgt.

Fasteignirnar sem Hafnarfjarðarbær kaupir eru Dvergurinn, Risinn og íþróttahúsið í Kaplakrika, sem þó verið talið í eigu Hafnarfjarðarbæjar enda þinglýstur eigandi þess.

Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, samþykkti með þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra, framlagt rammasamkomulag á milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Fimleikafélags Hafnarfjarðar.

Sjá rammasamkomulagið hér.

Kröfðust fundar í bæjarstjórn

Í upphafi fundar lögðu Friðþjófur Helgi Karlsson fulltrúi Samfylkingar og Guðlaug Kristjánsdóttir áheyrnarfulltrúi Bæjarlistans fram tillögu um að málinu yrði frestað og tekið fyrir og til lykta leitt á næsta fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 22. ágúst næstkomandi. Sögðu þau að þegar jafn stór ákvörðun er til lykta leidd væri eðlilegt að það væri gert á vettvangi bæjarstjórnar þar sem allir bæjarfulltrúar hafi möguleika á að koma að afgreiðslu málsins. Að öðrum kosti væri ekki líklegt að náist sú samstaða sem mikilvæg er þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hafnarfirði.

Tillögunni var hafnað og málið samþykkt með þremur atkvæðum en fulltrúar minnihlutns sátu hjá.

Á fundinum lagði áheyrnarfulltrúi Miðflokksins fram bókun þar sem þess var krafist að bæjarstjórn yrði tafarlaust kölluð saman enda um stefnubreytingu að ræða sem ótækt væri að tekin væri í bæjarráði.

Áheyrnarfulltrúi Bæjarlistans lagði einnig fram bókun þar bent var á að aðdragandi að tillögunni væri stuttur og hún borin fram á aukafundi í sumarleyfi bæjarráðs, með stysta löglega fyrirvara. Málið sé hluti af stærri heild og miklu skipti að vinna við uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum sé unnin í sátt, í opnu ferli og með virkri aðkomu allra kjörinna fulltrúa. Voru fulltrúar meirihlutans brýndir til að færa sig aftur inn á þá braut, líkt og gert hafi verið á síðasta kjörtímabili.

Tók fulltrúi Samfylkingarinnar undir bókunina.

Allir fulltrúar bæjarstjórnar sem ekki eiga aðild að meirihlutasamstarfi sendur frá sér fréttatilkynningu þar sem upplýst var að þeir hafi farið fram á að boðað verði til fundar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sem haldinn verði eigi síðar en miðvikudaginn 15. ágúst nk.

„Beiðnin kemur í framhaldi af ákvarðanatöku um breytt áform varðandi knatthús sem keyrð var í gegn með meirihlutavaldi á lokuðum fundi í miðju sumarleyfi bæjarstjórnar og bæjarráðs, þar sem einungis 3 af 11 bæjarfulltrúum samþykktu stefnubreytingu í málefnum er varða uppbyggingu á íþróttamannvirkjum. Fulltrúar fengu afar skamman fyrirvara á tillögunni og skorti verulega á gögn og upplýsingar varðandi forsendur hennar. Fulltrúar þeirra flokka sem sitja í minnihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar draga lögmæti ákvörðunarinnar í efa enda er umboð bæjarráðs til ákvarðanatöku í sumarleyfi bæjarstjórnar ekki hugsað til töku stefnumarkandi ákvarðana heldur eingöngu í þeim tilgangi að tryggja eðlilega afgreiðslu mála sem eru til meðferðar í stjórnkerfinu. Einungis tveir af fjórum flokkum í minnihluta bæjarstjórnar eiga atkvæðisrétt í bæjarráði og hafa því ekki haft neina aðkomu að ákvarðanatökunni. Það er því eðlilegt að bæjarstjórn taki ákvörðunina til opinnar og málefnanlegrar umfjöllunar þar sem fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn eiga fulltrúa og atkvæðisrétt.“

Dagskrá fundarins:

  1. Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2018 og 2019-2021
  2. Þjónustusamningur við ÍBH
  3. Íþróttafélög, þjónustusamningur
  4. Reglur um eftirlitsnefnd með fjármálum íþrótta- og æskulýðsfélaga
  5. Kaplakriki, framkvæmdir
  6. Bæjarstjórn, starfsumhverfi 2018-2022

Fréttin var uppfærð kl. 13:39