Mikill sinubruni var í dag í landi Óttarsstaða og hefur Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins haft mikinn viðbúnað á svæðinu og hefur verið barist við eldinn með vatni úr tankbílum og slökkvibílum auk þess sem notast er við klöppur og skóflur til að slökkva eldinn.
Slökkvistarfi var ekki lokið þegar þetta er skrifað kl. 14.50.
Gamall uppgerður bær stendur á landinu það hefur tekist að forða því að eldur bærist í bæinn en brunnið hefur allt í kringum hann sem hlýtir að vera mesta mildi.
Nokkur vindur er á svæðinu, norðaustlægur, svo reykurinn hefur ekki legið yfir byggð.
Eldurinn hefur komið upp skammt frá bílastæðum austan við Óttarsstaði og skv. óstaðfestum heimildum Fjarðarfrétta er talið að skólahópur hafi verið þarna á ferð og verið með einhvers konar blys. Greinilegt er að eldurinn hefur komið upp örfáum metrum frá bílastæðinu. Uppfært: Staðfest hefur að þarna var á ferð skólahópur frá Menntaskólanum í Kópavogi.
Nokkrir sinubrunar á golfvelli
Á sama tíma fór lögregla að golfvelli Keilis á Hvaleyrinni en þar logaði í sinu og hafði greinilega logað á nokkrum stöðum. Þar er ekki mikil sina og greinilegt var að þar tókst að hefta eldinn en ekki er vitað hvers vegna þarna logaði.