Manstu hvenær?

Hafnarfjarðarbíó var eitt vinsælasta bíó landsins um tíma

Þarna var mekka bíómenningar í Hafnarfirði

Hafnarfjarðarbíó tók til starfa 6. mars 1914 og var eigandi þess Árni Þorsteinsson og var bíóið lengi kallað Árnabíó. Var það til húsa á Kirkjuvegi 3 í húsi sem Árni reisti á lóð tengdaforeldra sinna. Þá voru tvö kvikmyndahús fyrir í landinu.

Árið 1936 keypti Árni húsið Strandgötu 30 þar sem m.a. Hótel Drífandi hafði verið til húsa. Var húsið rifið og nýtt hús byggt á árunum 1940-1943 en kvikmyndasýningar hófust þar í desember 1943. Húsið stóð þá með bakhliðina við fjöruborðið.

Árið 1952 hóf Hafnarfjarðarbíó að flytja inn myndir og leigja síðan öðrum kvikmyndahúsum. Gekk bíóreksturinn vel og var oft töluverð umferð til Hafnarfjarðar áður en sýningar hófust. Árni lést árið 1956 og tók Níels sonur hans þá við rekstrinum og rak bíóið allt til enda en bróðir hans Kristinn átti bíóið með honum.

Með tilkomu sjónvarpsins fjaraði undan rekstri bíóa og það varð úr að þeir bræður seldu Hafnarfjarðarbæ húseignina 9. september 1988 og rekstri var hætt. Fljótlega var því breytt í dansstað og verslunarhúsnæði og á efstu hæð var Nillabar sem ekki var til mikillar gleði fyrir Níels Árnason sem fannst nýir eigendur hafa farið illa með staðinn.

Um tíma stefndi margt í að Kvikmyndasafn Íslands fengi bíóið sem sýningaraðstöðu en bíóið þótt sérstaklega hentugt til þess. Andstaða kvikmyndaelítunnar í Reykjavík varð til þess að svo varð ekki og í dag hefur Kvikmyndasafnið enga fasta sýningaraðstöðu.

Þegar Hafnarfjarðarbær ákvað að rífa húsið var haft eftir þáverandi byggingarfulltrúa: „Það virðist byggt upp úr kassafjölum“, en svo var alls ekki og sást það vel þegar það var rifið.

Enn stendur lóðin auð og síðar var hús Kaupfélags Hafnfirðinga líka rifið og sú lóð sem er samliggjandi stendur enn auð mörgum árum síðar. Veistu hversu mörgum árum síðar?

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here