Enn á ný er verið að reyna að slá ryki í augu bæjarbúa með því að blanda ólíkum gjöldum saman og fólki talin trú um að verið sé að lækka gjöld. Fasteignaskattar hafa hækkað töluvert vegna hækkandi fasteignamats og lækkun álagningarprósentu hefur ekki dugað til.
Bæjarstjórn bregður á það ráð eina ferðina enn að nota lækkun á vatns- og fráveitugjöldum sem blekkingu en það eru ekki skattar, heldur þjónustugjöld sem sveitarfélögum er ekki heimilt að hafa hagnað af umfram ákveðið mark. Af þessari þjónustu, sem merkilegt nokk miðast við verðmæti húsnæðis, hefur verið mikill hagnaður og í raun eini hagnaður sveitarfélagsins. Þegar þessi gjöld hafa verið lækkuð er í raun verið að leiðrétta þau og kemur fasteignaskatti ekkert við.
En frekar er kosið að fegra og fela en upplýsa bæjarbúa um raunverulega stöðu mála. Þetta á í raun við í svo mörgum málum og markaðshyggjan látin ráða frekar en heilbrigð skynsemi. Allt er gert til að fegra bæinn í orði umfram það sem gert er í verki því alls ekki má vanmeta það sem vel er gert.
Hvers vegna er enn verið að innheimta vatnsgjald og fráveitugjald eftir verðmæti húss? Af hverju er vatnsgjaldið ekki eftir notkun eins og heita vatnið og fráveitugjaldið eftir stærð húss svo dæmi séu tekin? Þó þetta hafi alltaf verið svona er þar með ekki sagt að það þurfi að vera svona áfram.
Af hverju hafa bæjarfulltrúar ekki barist fyrir því að D‘Hont reiknireglan verði aflögð við úthlutun sæta í bæjarstjórn? Sjálfstæðisflokkur og Samfylking græddu einn fulltrúa hvor á kostnað VG og Pírata. Er það eðlilegt að flokkur sem fær 33,7% greiddra atkvæða fái 45,5% sæta í bæjarstjórn þegar 33,7% af 11 eru 3,7?
Það er þó gott að vita að bæjarfulltrúi í meirihluta sjái að það sé ekki eðlilegt að breyta aðalskipulagi svo það samrýmist deiliskipulagi þegar það á að sjálfsögðu að vera öfugt. En þetta er þó gert í Hamranesinu.
Guðni Gíslason ritstjóri.