fbpx
Föstudagur, október 4, 2024
HeimÁ döfinniStofna félag um kvikmyndaheimildir um Hafnarfjörð

Stofna félag um kvikmyndaheimildir um Hafnarfjörð

Stofnfundur sjálfseignarstofnunar um kvikmyndaheimildir um Hafnarfjörð haldinn 13. mars

Miðvikudagskvöldið 13. mars verður stofnað félag til að halda utan um kvikmynda- og hljóðheimildir Hall­dórs Árna Sveinssonar, en hann hefur skrásett mannlífið í Hafnarfirði í fjóra áratugi og er safnið gríðarlegt að vöxtum.

Blaðamaður hitti Halldór Árna í geymslunni á Flatahrauni og spurði hann hvernig félagið hefði orðið til?

„Kveikjan að þessu öllu byrjaði á opnun málverkasýningar hjá mér fyrir tveimur árum. Þar hittust nokkrir vinir mínir úr ýmsum áttum og ræddu það sín á milli, hvað yrði um allt það sem ég hef tekið upp á þessum tíma, og hvort efnið væri aðgengilegt í einhverju formi. Ég svaraði því eins og satt var að ég hefði verið ákafari að taka upp og elta alla viðburði, en að skrásetja og afrita safnið.

Fyrst var ákveðið að safna saman þessu efni öllu á einn stað, en það var geymt á heimili mínu og einum fjórum geymslum um allan bæ. Þetta eru bæði frumtökur af ýmsum þáttum og myndum, svo og tilbúnir þættir og heimildamyndir sem ýmist hafa verið sýndar í sjónvarpi svo sem á Sýn og í Sjónvarpi Hafnarfjarðar, eða á netinu síðustu árin. Þá er hljóðsafnið ekki minna, en þar er m.a. um að ræða útsendingar og viðtöl úr Útvarpi Hafnarfjarðar.

Okkur brá nú aðeins hvað safnið er í raun stórt, en fljótlega var byrjað að yfirfæra myndefni yfir á stafræna miðla til framtíðargeymslu, og í mun meiri gæðum en hefur tíðkast. Og jafnframt hófst skráning á efninu með aðstoð þriggja félagskvenna úr Félagi eldri borgara í Hafnarfirði, en ég er afar þakklátur fyrir hið góða samstarf sem tekist hefur við félagið, ekki síst formann þess, Valgerði Sigurðardóttur.

Við höfum einnig notið aðstoðar og velvildar Gunnþóru Halldórsdóttur í Kvikmyndasafni Íslands, og fyrrum forstöðumanni þess, Erlendi Sveinssyni, sem hafa leiðbeint okkur um hvernig best væri að skrá safnið. Sennilega er búið að yfirfæra um 10% af myndefni safnsins, en það er unnið í stærra formati og meiri gæðum en áður hefur þekkst.

Helsta vandamálið er að efnið er á alls konar spólum og minnis­eining­um, og sum afspilunartækin eru farin að gefa sig og kalla á viðhald og viðgerðir, en varahluti er erfitt eða útilokað að fá neins staðar. Þá er kostnaður við kaup á hörðum diskum mikill – oft er ég að kaupa 30-40 terabæt af minni á hverjum mánuði, en stefnt er að því að allt safnið verði varðveitt bæði á hörðum diskum, en einnig í skýjalausnum.“

En hvað er svo á öllum þessum spólum og diskum, og hvar verður hægt að sjá og heyra efnið?

„Þetta verður með tíð og tíma að­gengi­­legt að stærstu leyti á vef­slóðunum utvarphafnarfjordur.is, sjon­varp­hafnarfjordur.is og sagahafnar­fjardar.is, og vonandi verður efnið á þeirri síðast töldu farið að birtast fyrir vorið. Þar verður hægt að leita 40 ár aftur í tímann eftir dagsetningu eða efnis­flokkum að hljóð- eða mynd­stiklum, ásamt því að stuttur texti fylgir með. Fyrsta efnið sem birtist verða væntanlega tilbúnir sjón­varpsþættir og heimildarmyndir sem ég hef gert í gegnum tíðina. Þarna eru t.d. þættir um hafnfirska listamenn, mann­lífsþættir, „Þau byggðu bæinn“ sem eru viðtalsþættir við fjölda Gaflara síðustu fjóra áratugina og margt fleira. Þá verða hljóðvarpsþættir allt frá 75 ára afmæli bæjarins 1983.“

Tilgangurinn með stofnun félagsins er að þessar heimildir verði áfram varðveittar á aðgengilegan hátt fyrir áhugasamt fólk um sögu og mannlíf bæjarins. Þar er meðal annars gert ráð fyrir fulltrúaráði, sem skipað verði fulltrúum frá þeim félagasamtökum, fyrirtækjum og stofn­unum sem tengjast efni safnsins á ein­hvern hátt, s.s. íþróttafélögunum í bæn­um, skólum, kórum, tónlistarfólki, ýmsum klúbbum og félögum og stofn­unum eins og Hafnarfjarðarhöfn, Hafnar­borg, Bóka- og Byggðasafni og fl.
Allir velkomnir á stofnfundinn

„Það er von mín og ósk að fólk sem hefur áhuga á menningu og sögu bæjarins, ekki síst það góða fólk sem ég hef átt mikið samstarf við á undan­förnum árum við söfnun þessara heim­ilda, komi á stofnfundinn mið­vikudaginn 13. mars kl. 20 í húsi Félags eldri borgara í Hafnarfirði, Flatahrauni 3, og spjalli saman yfir kaffibolla,“ segir Halldór Árni að lokum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2