Ný Krambúð opnuð í Firði á morgun

„Hlökkum mikið til að vera með í uppbyggingunni, kynnast Hafnfirðingum og taka þátt í að efla Fjörðinn.“

Krambúðin verður opnuð í hádeginu á morgun, síðasta vetrardag, á fyrstu hæð í verslunarmiðstöðinni Firði.

Krambúðin hefur verið að sækja verulega í sig veðrið um land allt og eru Krambúðirnar á Skólavörðustíg í Reykjavík, Kópavogi, tvær á Akureyri, Húsavík og Reykjanesbæ. Auk þess sem stærsta verslun Krambúðanna til þessa var opnuð á Selfossi fyrr í mánuðinum.

 „Við erum gríðarlega ánægð með að opna nú Krambúðina í Hafnarfirði. Þar er greinilega mikil gróska í verslunarlífinu og verður gaman að sjá hvernig þróunin verður á svæðinu á næstunni. Við hlökkum mikið til að fá að vera með í uppbyggingunni, kynnast Hafnfirðingum og vera með í að efla Fjörðinn,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa sem reka Krambúðina

Gunnar Egill segir styrkleika Krambúðarinnar m.a. felast í að hún sé þægindaverslun með langan opnunartíma en einkunnarorð verslunarinnar er Opnum snemma – lokum seint.  Auk þess er mikið lagt upp úr að viðskiptavinir geti gengið að öllum helstu heimilisvörum vísum utan hefðbundins opnunartíma stórmarkaða, á hagstæðu verði og Gunnar bendir á að nauðsynjavörur séu á lægra verði en áður hefur sést í sambærilegum verslunum á Íslandi.

„Við leggjum einnig mikið upp úr að viðskiptavinir á hraðferð geti verið vissir um að hjá okkur séu spennandi valkostir og geti gripið með sér bita, svo sem bakkelsi sem bakað er á staðnum og take-away-kaffi. Við finnum að eftirspurnin eftir slíkri þjónustu fer sífellt vaxandi hvar sem við komum. Við höfum því verið að mæta þeirri kröfu með því að stækka og endurnýja verslanirnar sem fyrir voru en sömuleiðis fjölga þeim. Verslunin okkar í Firði er auðvitað mikilvægur liður í því,“ segir Gunnar að lokum.

Opnað verður á slaginu kl. 12.00 á morgun. Í tilefni opnunarinnar verður boðið upp á fjölda veglegra tilboða dagana 18. – 25. apríl. Hafnfirðingar og aðrir, eru hvattir til að kíkja við og skoða þessa nýju viðbót í verslunarflóruna í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here