Tillaga samþykkt að breytingu á deiliskipulagi Ásvalla – Fornminjar á röngum stað

Deiliskipulagstillagan lögð yfir loftmynd af svæðinu af map.is/hafnarfjordur

Skipulags- og byggingarráð samþykkti á fundi sínum í dag breytingu á deiliskipulagi Ásvalla, íþróttasvæði Hauka en gildandi skipulag er frá 2010 og breytingar sem gerðar hafa verið síðar, m.a. að heimila íbúðabyggð á svæðinu og færsla á knatthúsi, hafa ekki hlotið staðfestingu og eru breytingarnar núna því í raun breytingar á breytingartillögu.

Í raun er því verið að breyta deiliskipulaginu frá 2010.

Breytingin var samþykkt með vísan í 43. grein skipulagslaga þar sem segir:

43. gr. Breytingar á deiliskipulagi.
Nú telur sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi og skal þá fara um breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Þó er ekki skylt að taka saman lýsingu, skv. 1. mgr. 40. gr., vegna breytinga á deiliskipulagi.

Nú telur sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. og skal þá fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sveitarstjórn skal senda Skipulagsstofnun samþykkta deiliskipulagsbreytingu og birta auglýsingu um samþykkt hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis getur sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Ekki er samanburður við gildandi skipulag eins og venja er þegar skipulagi er breytt.

Þær breytingar sem kynntar eru með deiliskipulagsbreytingunni:

  1. Æfingavelli á nýuppfylltu svæði er snúið um 90 gráður og hann færður fjær íbúðareit.
  2. Göngustígar uppfærðir miðað við núverandi legu, færðir frá íbúðareit og staðsettir við æfingavöll.
  3. Hraungarðar (ósnortið hraun) milli æfingasvæða minnka þó nokkuð til norðurs vegna snúnings æfingavallar. Á móti kemur að stígar í gegnum hraungarða eru felldir niður. Þá hafa hraungarðar verið skilgreindir á vesturhluta lóðar, sem verður til þess að umfang hraungarða á lóðinni eykst frá fyrra skipulagi.
  4. Flóð um syðra vallarsvæði eru leyst samhliða gerð valla þannig að komið verði í veg fyrir flóð um íbúðabyggð á Vallasvæði. Annars vegar með borholum til að hleypa vatni niður um og hins vegar með hækkun yfirborðs sem myndar fyrirstöðu.
  5. Koma skal eins og kostur er i veg fyrir hljóð og ljósmengun frá keppnisvelli að íbúðahúsum í nágrenni. Lögð er áhersla á að allur lóðarfrágangur sé vandaður og gróðursetning notuð til að draga úr sjónrænum og hjóðrænum áhrifum frá íþróttavöllum. Miðað er við að flóðljós séu almennt ekki í notkun yfir sumartímann og ljós séu slökkt í síðasta lagi kl. 22.00 á virkum dögum, en fyrr ef hægt er. Ekki verða sett upp flóðljós á æfingavelli.
    Miða skal við að samþykkja tímatöflu um notkun æfingavalla sem stjórn félagsins samþykkir og er það hámarksnýting, en reynt verður af fremsta megni að haga skipulagi þannig að álag á æfingavöllum sé dags daglega frá kl. 10-22 og 10-19 um helgar.

Fornleifar ranglega staðsettar í skipulagi

Þó getið sé í fundargerð að gerð sé grein fyrir staðsetningu fornleifa þá kemur í ljós að enn er stór tóft fjárhúss ranglega staðsett. Engar fornleifar eru merktar á gildandi skipulagi en gerð var grein fyrir hluta þeirra í tillögum sem hlotið hafa samþykki bæjarstjórnar en ekki hlotið staðfestingu. Þar er stór tóft fjárhúss ranglega staðsett eins og ítarlega var greint frá hér í Fjarðarfréttum fyrr á árinu.

Tóftir fjárhússins þar sem ekki má raska neinu í 15 m fjarlægð

Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs, sagði aðspurður um staðsetningu fornminja, í samtali við Fjarðarfréttir, að það væri ekki verið að fjalla um svæðið sem þær væru á í þessari breytingu.

Reyndar er fjallað um þetta svæði í deiliskipulagsbreytingunni eins og lesa má um í lið 4 hér að ofan.

Ef skipulagsbreytingin, eins og hún liggur fyrir er samþykkt, lendir tóft fjárhússins undir miðjum æfingavelli.

Þormóður Sveinsson, skipulagsstjóri, sagði hins vegar að þetta yrði skoðað nánar strax í dag, miðvikudag, með arkitektunum sem eru að vinna skipulagsbreytinguna.

 

 

Ummæli

Ummæli