Brú lífeyrissjóður, áður Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, hefur tilkynnt Hafnarfjarðarbæ að sjóðurinn muni byrja að innheimta greiðslur vegna bakábyrgðar bæjarins um næstu mánaðarmót.
Tekur til varna
Bæjarráð fór á fundi sínum í gær yfir innheimtukröfu Brúar lífeyrissjóðs á hendur Hafnarfjarðarkaupstað vegna meintrar bakábyrgðar bæjarins og samþykkti með vísan til athugasemda með ársreikningi að taka til varna.
Krafan snýst um meinta bakábyrgð Hafnarfjarðarbæjar á lífeyrisskuldbindingum vegna fyrrum starfsmanna Sparisjóðs Hafnarfjarðar sem heimilt hafði verið að vera í Eftirlaunasjóði starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar. Telur bærinn sig ekki bera ábyrgð á skuldbindingum umfram það sem viðkomandi starfsmenn lögðu í sjóðinn.
Sparisjóður Hafnarfjarðar fékk á árinu 1973 aðild að sjóðnum fyrir starfsfólk sitt og ábyrgðist lífeyrisgreiðslur til þeirra. Við sameiningu sparisjóða gekk Sparisjóður Hafnarfjarðar inn í Byr sparisjóð. Þann 2. nóvember 2012 gekk dómur í Hæstarétti í máli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins gegn SPRON sem hefur afgerandi áhrif á ágreining eftirlaunasjóðsins við þrotabú Byrs sparisjóðs.
Samkvæmt dómnum er lífeyrisskuldbinding ekki viðurkennd sem forgangskrafa en slitastjórn sparisjóðsins hefur samþykkt kröfu eftirlaunasjóðsins sem almenna kröfu en skuldbindingin var færð í ársreikning 2012 til hækkunar á lífeyrisskuldbindingu sveitarfélagsins.
Óvissa ríkir um hversu hátt hlutfall greiðist upp í almennar kröfur sparisjóðsins en Hafnarfjarðarbær mun leita allra hugsanlegra leiða til að kanna réttarstöðu sína gagnvart þrotabúinu og ábyrgðinni á skuldbindingunni.
Á árinu 2015 hækkaði skuldbinding um 152,1 millj.kr. vegna fyrrum starfsmanna sparisjóðsins.