fbpx
Miðvikudagur, apríl 24, 2024
HeimUmræðanGrunnskólar í fremstu röð

Grunnskólar í fremstu röð

Valdimar Víðisson og Bjarney Grendal

Í Hafnarfirði eru öflugir grunnskólar þar sem starfar frábært starfsfólk sem vinnur af fagmennsku með velferð nemenda sinna að leiðarljósi. Unnið er í samvinnu allra starfsmanna skólanna og foreldra að því að nemendum líði sem best. En það má alltaf gera betur og í samvinnu við starfsfólk, nemendur og foreldra þá ætlum við í Framsókn að halda áfram á þeirri vegferð að grunnskólar í Hafnarfirði verði í fremstu röð grunnskóla landsins.

Þegar litið er yfir skólakerfið í heild sinni er nefnilega margt sem má efla og bæta. Stefnan um skóla án aðgreiningar er frábær hugmyndafræði en í raun hefur hún ekki verið innleidd nema að hluta til og því þarf að breyta. Ein leið til þess er að fjölga fagfólki innan grunnskólanna. Fagfólki á borð við þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa, talmeinafræðinga o.s.frv. Fjölgun á fagfólki innan grunnskólanna verður til þess að hægt verður að koma betur til móts við þarfir allra nemenda, sama hvort þær eru námslegar, félagslegar eða sálrænar. Fjölgun fagfólks mun stytta biðtíma eftir þjónustu og styðja betur við snemmtæka íhlutun innan skólanna.

Önnur leið til þess að styðja betur við hugmyndafræði skóla án aðgreiningar er að bæta starfsumhverfi kennara og nemenda. Til að mynda er staðan þannig í dag að viðmiðið varðandi bekkjarstærðir eru 28 börn á mið- og unglingastigi. Það þýðir að það geta verið allt að 28 börn í einum námshóp á mið- og unglingastigi án þess að skólinn fái viðbótarúthlutun á kennslustundafjölda. Það segir sig sjálft að fjöldi nemenda hefur áhrif á þá þjónustu sem nemendur fá. Álag og umfang umsjónarkennara sem er með 28 nemendur í sínum hópi er augljóslega meira en kennara sem er með 20 eða 24 börn í sínum bekk. Aðstoð og utanumhald eykst skiljanlega með hverjum nemanda. Við í Framsókn ætlum að beita okkur fyrir því að úthlutunarlíkan til grunnskólanna verði endurskoðað og að viðmið um bekkjarstærðir verði lækkað. Við viljum sjá viðmiðið lægra og að hámarks nemendafjöldi verði 25 nemendur í námshóp á mið- og unglingastigi. Þessi fækkun, þó lítil sé, verður fyrsta skrefið og getur haft gríðarlega jákvæð áhrif á starfsumhverfi bæði kennara og nemenda.

Í grunnskólanum fer fram afar fjölbreytt starf og nær það lengra en að sinna eingöngu námslegri menntun nemenda. Í skólanum fer til dæmis fram gott frístunda- og tómstundastarf. Starf í félagsmiðstöðvum er gott og sinnt af miklum áhuga. En þar má einnig gera betur og eitt af því sem þarf að gera er að fjölga þeim stundum sem nemendur á miðstigi geta mætt í sína félagsmiðstöð. Það eru ekki öll börn í skipulögðu tómstunda- og íþróttastarfi og fyrir mörg þeirra er félagsmiðstöðin það eina sem þau sækja í eftir skóla. Við viljum efla starfsemi félagsmiðstöðva og þá sérstaklega fyrir börn á miðstigi. Öflugt skipulagt starf félagsmiðstöðva er öllum nemendum til góðs en getur einnig laðað sérstaklega að börn sem efla þurfa félagsfærni sína og þurfa öruggt og gott umhverfi til þess.  Við þurfum að efla faglegt hópastarf í félagsmiðstöðvunum sem höfðar til sem flestra. Öll viljum við tilheyra hópi og eiga samskipti við jafnaldra. Með skipulögðu hópastarfi er hægt að grípa þau börn sem eiga erfitt með að finna sinn hóp, tengja þau við aðra líka einstaklinga og hjálpa þeim að finna sinn stað, tilheyra og njóta góðra samskipta.

Nemendur eru stóran hluta dagsins í skólanum og eru þar í leik og starfi. Það er því afar mikilvægt að tryggja að öllum líði vel og að allir geti stundað nám við hæfi og að allir geti tekið þátt í fjölbreyttu félags- og tómstundastarfi. Það er nákvæmlega það sem við í Framsókn viljum leggja áherslu á í skólamálum. Gerum góða skóla enn betri og gerum það saman.

Valdimar Víðisson,
skólastjóri og skipar 1. sætið á lista Framsóknar í Hafnarfirði.

Bjarney Grendal Jóhannesdóttir,
grunnskólakennari og skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2