fbpx
Föstudagur, febrúar 23, 2024
HeimUmræðanEr að komast jafnvægi á húsnæðismarkaðinn?

Er að komast jafnvægi á húsnæðismarkaðinn?

Inga Dóra Ingvadóttir skrifar

Síðastliðin ár hefur byggst upp uppsöfnuð þörf fyrir íbúðarhúsnæði sem hefur leitt af sér umtalsverða hækk­un á húsnæðisverði. Ákveðin spenna myndaðist á húsnæðis­markaðnum sem dró smám saman úr þegar líða tók á sumarið. Svo virðist sem að hægjast sé á markaðnum og betra jafnvægi að nást, sem teljast verður jákvætt, því fólk getur aðeins farið að anda rólegar. Ekki verður eins mik­il hætta á að þær eignir sem það hefur hug á að kaupa verði samdægurs hrifsaðar af þeim með yfirboði. Húsnæðisumhverfið fer að verða kunnuglegt á nýjan leik. Íbúðir staldra aðeins lengur við á markaðnum og kaupendur geta gefið sér betri tíma til að hugleiða sín íbúðarkaup.

Í viðtali Sigmundar Ernis Rúnars­sonar við Konráð Guðjónsson hag­fræð­ing hjá greiningardeild Arion banka, þann 30. ágúst sl., talar sá síðar­nefndi um að þessar hröðu hækkanir á húsnæðisverði sem áttu sér stað síðasta hálfa árið séu búnar í bili en um rólegar hækkanir verði að ræða fram til ársins 2019. Eignum er að fjölga á söluskrá, meira af nýbyggingum að koma inn og fleira fólk er farið að hreyfa sig á mark­aðnum.

Þá víkur að uppbyggingu íbúðar­húsnæðis í Hafnarfirði. Nú hefur 1. áfanga Skarðs­hlíð­ar þegar verið ráðstafað og lóðum verið úthlutað. Í þeim áfanga er gert ráð fyrir fjölbýlum af ýmsum stærðum og gerðum. Fróðlegt verður að sjá hversu hátt hlutfall íbúðanna fer í almenna sölu annars vegar og í leigu hins vegar.

Því verður gaman að fylgjast með uppbyggingunni í Skarðshlíð og sjá hvern­ig byggingaraðilar þar meta markaðsþörfina. Ég myndi vilja sjá í þeim áfanga íbúðir sniðnar að stækk­andi fjölskyldum. Íbúðir sem eru byggðar á hagkvæman hátt, sem endur­speglast síðan í þannig íbúðarverði að unga fólkið okkar sjái sér fært að standa straum af þeim kostnaði sem íbúðar­kaupunum fylgir. Þó að jákvætt sé að fjölbreytt úrval af leiguíbúðum sé til staðar þá er leigumarkaðurinn orðinn þannig að erfitt er fyrir lág- og meðal­tekjufólk sem á annað borð er komið inn í leigukerfið að komast út á hinn almenna húsnæðismarkað.
Í skýrslu sem Reykjavík Economics gerði fyrir Íslandsbanka kemur fram að fyrstu kaupendum fjölgaði mikið á árinu 2016 og á fyrsta ársfjórðungi 2017.

Hættan er þó sú að við missum fyrstu kaupendur af markaðnum ef íbúðarverð fer að síga fram úr kaup­mætti eins og það gerði árið 2005. Því er mikilvægt að markaðsaðilar ígrundi vel sín viðskipti, því enn eru tækifæri á íbúðarmarkaðnum, þó fylgjast þurfi vel með verðþróuninni. Markaðurinn kall­ar á ódýrari íbúðir fyrir fyrstu kaupendur svo að þeir geti mögulega haft val um það hvort þeir fjárfesti í eign á hinum almenna húsnæðismarkaði eða velji frekar leigumarkaðinn.

Inga Dóra Ingvadóttir
starfar við fasteignasölu og er í námi til löggildingar fasteignasala.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum
– bæjarblaði Hafnfirðinga 21. september 2017

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2