Umhverfismál í bráð og lengd

Haraldur R. Ingvason skrifar

Haraldur R. Ingvason

Umhverfismál eru stórmál sem snerta flesta þætti daglegs lífs ásamt því að vera mótandi fyrir framtíðina. Eins og önnur sveitarfélög þarf Hafnarfjörður að móta sér umhverfisstefnu sem bæði miðast við staðbundnar aðstæður, en einnig framtíðarsýn til langs tíma. Langtímaáætlanir eru ein af megin stoðum góðrar stjórnsýslu að mati Pírata.

Skammtímamarkmið ættu að miðast að því að skapa heilsusamlegan bæ, m.a. með því að gæta þess að loftgæði séu með því besta. Fylgjast þarf grannt með mengun frá umferð og fyrirtækjum og grípa til viðeigandi ráðstafana fari hún yfir ásættanleg mörk. Hvatt verði til  umhverfisvænnar starfsemi með hagrænum hvötum til fyrirtækja með viðurkennda umhverfisvottun en einnig standi til boða styrkir til smárra og meðalstórra fyrirtækja sem vilja endurnýja búnað með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Stutt skal við rafbílavæðingu.

Langtímamarkmiðin snúast að mati Pírata um að vernda umhverfi og auðlindir í bæjarlandinu til framtíðar. Sér í lagi á þetta við um vatnsból Hafnarfjarðar og grannsvæði þeirra, sem vernda þarf með öllum ráðum gegn mengunarvöldum. Verðmæti þessa svæðis er mikið í dag en til framtíðar gæti það verið ómetanlegt.

Hafnarfjarðarbær þarf að setja sér langtíma markmið um nýtingu náttúrugæða. Þá er meðal annars átt við verndun ósnortinna hraunsvæða og landslagsheilda sem bæði finnast í nágrenni bæjarins sem og á Krýsuvíkursvæðinu og þar um kring.

Stefnumörkun varðandi umhverfismál skal ævinlega fara fram í opnu ferli, enda á markmiðið að vera samráð við íbúana. Upplýsingar um framkvæmdir séu veittar þannig að íbúar geti komið markvisst að skipulagsmálum bæjarins og tekið ákvarðanir sem varða þau.

Haraldur R. Ingvason
skipar 5. sæti á lista Pírata í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here